mánudagur, maí 25, 2009

Annasöm helgi !

gah_flugklefiVið mamma áttum góða viku.  Frí á fimmtudaginn og við fórum í sund, fengum okkur hamborgara og svo í flugsafnið! Flugsafnið er komið með stjórnklefann úr Gullfaxa og guttar eins og ég megum fara og fikta í tökkum og þykjast fljúga ! ég td flaug með mömmu til Afríku!!

Við mamma fórum í sveitina á föstudaginn.  Búið að vera frábært veður hérna á Akureyri, ég er með ljósara hár, útitekinn í framan og með sundskýlufar. 
Þar voru langafi og langamma komin og ég var svolítið feiminn.  Reyndar var ég bara feiminn yfirhöfuð.  Ég hafði ekki komið til afa og ömmu í mánuð og ég fékk hálfgert spennufall.  En það rann af mér fljótlega :)

Laugardagurinn var stór dagur! Ég fór með í fjárhúsin og þar s já ég í fyrsta skipti þegar var verið að marka lömbin. Mamma lýsti öllu fyrir mér og útskýrði allt sem framfór.  Ég var ekkert smeykur við að sjá þetta og vildi bara klappa lömbunum. 
Síðan sá ég rollu bera.  En hún greyið átti fyrst dautt lamb.  Og mamma útskýrði allt fyrir mér.  Og síðan átti rollan lifandi lamb sem var hresst og reyndi að standa strax upp. Ein rollan hafði verið þrílembd þá um morguninn, og ég kallaði það “bónuslamb” nú, út af því að hún fékk “bónuslamb” þá tóku pabbi og Jenni lambið hennar og settu undir rolluna sem missti annað lambið sitt.  Og alltaf stóð ég og horfði hugfanginn á það sem fram fór.  Og mamma mín talaði mig í gegnum allt ferlið. 

Það var rok og rigning um helgina.  Við tjölduðum ekki og fórum ekki í sund.  Hornasirnar okkar mömmu höfðu ekkert gott af því svo við ákváðum að slappa bara af.  Fórum með Þórhöllu frænku og Hirti Smára í Reynisstaði að heimsækja Eik frænku sem var þar yfir helgina – hún á píanó!!! og ég mátti spila – ooohh það var svo gaman!!

Á sunnudaginn þá fórum við í smá göngutúr með afa.  Fórum að heimsækja Rindil, Lukku og hinar ærnar sem áttu ekki lömb þetta vorið. Þær eru núna úti á Stekkjanesi í góðu yfirlæti.  Nú Lukkan mín átti sem sagt ekki neitt lamb. Nema hvað – haldiði ekki að hún hafi svo borið einu litlu hvítu þegar hún var komin út á Stekkjanesið! Hún snéri alveg á bændur í Belg núna !! Eitt lítið hvítt valhoppaði við hlið hennar þegar hún hljóp í burtu frá okkur. 

Og hápunktur helgarinnar : ég fór með afa í dráttarvélina.  Og ég fékk að keyra!! ég ljómaði allur þegar ég kom aftur til mömmu, sveif um ég var svo hamingjusamur með þetta !! Enda brosti ég hringinn þegar ég fór að sofa í gær ! 

gah_drattarvel

Mamma er búin að setja myndir inn á flikkrið okkar :

Flugsafn.

Sumar 2009

Engin ummæli: