þriðjudagur, janúar 29, 2008


Hæ hæ og hó!!!

Ég er hress og kátur. Átti fína helgi, fórum upp í sveit eftir skóla/vinnu á föstudaginn þar sem mamma mín fór með Þórhöllu frænku, Lárusi og Sylvíu á Þorrablót. Þau voru öll svo fín, og ég knúsaði mömmu mína með þessum orðum "mamma fín"

Við Hjörtur frændi vorum í passi hjá afa og ömmu á meðan. Og það var svo gaman. Ég hafði góða lyst á þorramatnum um kvöldið - ólíkt í skólanum. Hjörtur frændi las svo fyrir mig og hann setti mig líka í rúmið. Enda er ég svo hrifinn af honum Hirti og lít svo upp til hans, enda er hann svo stór og flottur strákur!!

Við mamma fórum svo inneftir daginn eftir - mamma var að vinna á laugardaginn. Ég fékk aðeins að kíkja í búðina hennar. Fékk bóndadagsköku og mjólk. Kíktum svo á mótorhjól. Pabbi kom svo og sótti mig.

Sunnudagurinn var rólegur og notalegur, reyndar kaldur, roksamur úti, en rólegur og notalegur inni. Við mamma vorum bara heima og nutum þess í botn að hafa ekkert að gera. Ég naut mín með dótinu mínu. Finnst ég hafa verið eitthvað svo lítið heima - þusaði reglulega "gott að vera heima"

föstudagur, janúar 25, 2008

Halló halló !!
í dag er sko gaman!! Mamma mín kom í skólann í hádeginu og við blótuðuðm þorranum í skólanum. Mamma og pabbi Jóhannes vinar míns komu líka og sátum við öll saman á borði þar sem við Jóhannes gátum spjallað líka saman. Þetta var alveg rosalega gaman. Nema ég er ekki að borða eins og ég er vanur. Borðaði ekkert í gær, og jú smá ristað brauð í morgun, en ekkert meir. Mamma krossleggur fingur og vonar að ég sé ekki að verða veikur. Við förum upp í sveit á eftir, mamma ætlar að smella sér á þorrablót þar. Svo komum við heim á morgun þar sem hún er að vinna og ég ætla til pabba.
Mamma og mamma Jóhanness ræddu um að við tveir myndum hittast td eitthvað um helgar. Það væri rosalega gaman að hitta vin minn utan skólans !!
En myndir af þorrablótinu verða að koma síðar þar sem mamma er ekki að finna einn kortalesara í vinnunni sem virkar sem er ekki innpakkaður í umbúðir og er til sölu...
eigið góða helgi og krossið fingur með mömmu að ég sé ekki að fá gubbuna
ykkar Gabríel Alexander

fimmtudagur, janúar 24, 2008


Sylvía besta frænka fékk bílprófið í dag!!!

Til hamingju elsku besta Sylvía okkar !!!!


þriðjudagur, janúar 22, 2008


Mamma fór í foreldraviðtal í dag :) Og ég fékk rosalega góða umsögn. Er duglegur, góður, blíður og þægur. Er vel staddur hvað varðar allan þroska, fínhreyfingar og grófhreyfingar. Get setið kjurr þegar þarf, og er með mikla hreyfiþörf. Ég er duglegur að leika mér einn og í hóp, tek tillit til annarra. Ég stríði ekki og mér er ekki strítt. Ég borða allan mat, og vel af honum. Afskaplega viðráðanlegur og auðvelt að tala mig til og hugga mig. Eins og mamma hefur alltaf sagt; draumabarn. Enda er ég með stórt hjarta og mikla væntumþykju.


Í dag fór ég til Sylvíu frænku í pass. Mamma varð að fara á fund í vinnunni og skutlaði hún mér i pass upp á vist. Oh það er svo gaman að fara þangað. Sylvía besta frænka poppar handa mér og mér þykir alltaf svo gaman að fara til hennar. Takk elsku Sylvía fyrir að passa mig!!

mánudagur, janúar 21, 2008

ha ha ha ha !!!! Eg er stór strákur! ég prufaði að pissa í koppinn á sunnudaginn og viti menn það kom í koppinn!! Og við vorum svo kát við mamma að ég hélt áfram allan sunnudaginn að pissa í koppinn. Við slepptum bara bleiunni og ég fór sjálfur, hysjaði niður og upp og þreif hendur og alles!!! Mamma er svo montin af mér að hún er að springa!!! Hún var búin að lofa mér bíl og stóð við það. Svo við fórum af stað og fundum flottan Porce 911 í N1 í Lindinni.
~

laugardagur, janúar 19, 2008


hæ hæ !!

Við mamma erum sko í samningaviðræðum varðandi bleyjur og koppa núna ! Já ég sest, segi piss piss stend svo upp og segist vera búinn að pissa. En málið er að það er ekkert í koppinum, svo mamma segir að ég sé ekki búinn að pissa. Svo fer ég í bubba byggir brókina mína og í náttbuxur, líða ekki 5 mínútur og ég labba frekar niðurlútur til mömmu; blautur...

Annars er allt hið besta að frétta af okkur mömmu. Í vikunni fékk ég hita hósta og hor. Mamma keyrði á móts við ömmu á miðvikudagsmorgunn og var ég hjá þeim á fimmtudaginn líka. Þá kom mamma og sótti mig. Ég var nefnilega hress sunnudag, fór í skólann á mánudag, þær á Flúðum hringdu í mömmu um hádegi og hún kom og sótti mig, ég var heima með mömmu á þriðjudag, og var ógurlega hress- og mamma hélt að nú gæti ég sko farið í skólann á miðvikudag, en nei; 38° seinnipartinn á þriðjudag svo mamma ákvað að vera ekkert að sénsast neitt og bað ömmu að passa mig svo hún gæti unnið.

Mér finnst nú alltaf svo gaman í sveitinni að ég var sko alveg sáttur !

Mamma er ekki að vinna þessa helgi. Við áttum snilldar laugardag í dag. Sváfum til níu!! og í íþróttaskólann kl tíu. Ég er feiminn við krakkana. Þau eru líka heldur yngri en ég, mamma ætlar að ath hvort ég megi prufa eldri hópinn. En við vorum allann tímann auðvitað og í endann var ég farinn að hlaupa með hinum og hló mikið. Það var rosalega gaman hjá okkur.

Mamma tók myndavélina með og ætlaði sko að taka myndir - en hún gleymdi batteríinu í hleðslu heima, svo engar myndir þaðan í dag ..

Þar sem ég svaf sov lengi í morgun þá svaf ég ekki mikið í dag. Við vorum farin út um hálf þrjú á rúntinn. Fórum á Glerártorg, lékum okkur í Bubba byggir tækinu. Verlsuðum og hlógum mikið.

Bökuðum svo okkur pizzu þegar við komum heim og ég fékk heiðurinn á að setja ostinn á :) ég er svo duglegur að elda skal ég sko segja ykkur!!

Enda eftir matinn (sem var auðvitað góður þar sem ég eldaði) þá sofnaði ég í fanginu á mömmu fyrir framan sjónvarpið. Það gerist ekki oft. En dagurinn var bara svo góður og mér líður svo vel. Ég slakaði alveg á, knúsa mömmu mína og datt út. Opnaði smá augun þegar hún bar mig inn í rúm, greyp Gogga og hélt áfram að sofa.

Góða nótt og eigið góða helgi.

Ykkar Gabríel A.

fimmtudagur, janúar 17, 2008

í dag á Sylvía Ósk afmæli!!


Til hamingju með 17 ára afmælið elsku besta frækan mín!!!

mánudagur, janúar 07, 2008


Ég og besti vinur minn Jóhannes Geir. Við erum greinilega eitthvað að planleggja þarna því við glottum alveg ógurlega :)

miðvikudagur, janúar 02, 2008


Halló halló!!!

ég er kominn heim og í skólann minn. Vaknaði í nótt og skreið uppí til mömmsu og muldraði á leiðnini "gott að vera heima"

Við áttum yndisleg jól hjá afa og ömmu. Fékk langt og gott frí, enginn þvælingur, sofa, borða og leika mér. Ekkert bílstúss, bara heima í sveitinni. Fór í fjárhúsin, gaf rollunum, gaf minni gimbur brauð og hjálpaði afa við að gefa.

Fékk fullt af góðum gjöfum og vil ég þakka kærlega fyrir mig!! 26 bílar!! Ég var orðinn býsna pakkaglaður á aðfangadagskvöld.

Ég hélt uppá afmæilið mitt á aðfangadag, með köku og kaffi og mættu fullt af fólki í veislu og fékk ég afmælispakka! Sungu allir fyrir mig og ég var afskaplega sæll með þetta allt saman.

Ég fékk að opna einn pakka líka á meðan beðið væri eftir matnum. Mamma leyfði mér að opna frá henni svo við gætum leikið okkur með það. Í honum leyndist forláta lego brunabíll! Og var ég rosalega kátur með það.

Ég borðaði rjúpur af bestu lyst. Og hjálpaði við að ganga frá eftir matinn ! Því næst fórum við í pakkana aftur.

Afi og amma gáfu mér bílarennibraut og bílskúr. Það mátti sko setja það strax saman fyrir mig ! og svo vildi ég bara leika mér þar. Kláraði að opna fleiri pakka en endaði á að leika mér í rennibrautinni!!

Hjörtur frændi kom og lék við mig síðar um kvöldið og ég var svo sæll með þetta allt saman.

Á gamlárskvöld var ég sko orðinn stór strákur! Ég var smá hræddur fyrst við raketturnar en svo var ég farinn að hrópa búmm búmm og yessss - klappa saman og kalla "frábært frábært" En mér þótti betra að sitja hjá ömmu eða mömmu. Herkúles var lokaður inni því hann vildi bara hlaupa og glefsa í getturnar.

Við fórum á brennuna og mér fannst það spennandi að sjá eldinn og þar var haldin meiriháttar flugeldasýning.

Mamma er búin að setja inn myndirnar og þær má sjá hérna: Jólin 2007