mánudagur, nóvember 24, 2008

Jólasveinar í Dimmuborgum

Hæ hæ! Mánudagur og ég er mættur í leikskólann eftir góða og skemmtilega helgi.  Við mamma fórum í sveitina á föstudaginn.  Hún skoraði mörg stig þegar hún var með nesti handa mér- popp í poka!! Ég svangur eins og alltaf; hámaði í mig og var sofnaður áðurn en við komum að Víkurskarðinu!

Lék á alls oddi.  Var búinn að hlakka svo ofboðslega til að hitta afa og ömmu.  Og á laugardag þá byrjuðum við á að fara öll saman í Belg.  Kindurnar eru orðnar heldur frekar á brauðið og standa með framlappir í garðanum þannig þær ná höfðinu hærra en ég og eru allar í kringum okkur.  Ég bara fór ekkert inná garðann.  Mamma var þar með brauðið og þær voru farnar að narta í úlpuna hennar til að láta vita af sér :)

Eftir hádegi voru jólasveinarnir í Dimmuborgum með uppákomu. Við mamma og amma fórum, Þórhalla frænka, Lárus og Hjörtur Smári mættu líka.  Það var rosalega gaman.  Einn jólasveinninn sagði mér að amma mín hafi nú ekki alltaf verið þæg lítil stelpa, hafi oft fengið kartöflu í skóinn!  En hún hafi nú farið batnandi með árunum.  Ég sko gleypti þetta hrátt og starði með mínum stóru bláu augum á ömmu mína og jólasveininn. Alveg hissa á þessu. Ég fékk íþróttanammi hjá þeim og svo var haldið í Skjólbrekku i heitt kakó og flatbrauð með hangikjöti.  Var reyndar fleira á boðstólnum en brauðið var það sem ég vildi :o)

Sunnudag byrjuðum við á að fara í fjárhúsin og sama sagan var með frekjuna í kindunum :o) Og við kíktum í reykhúsið sem er gamla eldhúsið í Belg, þegar Belgur var torfbær! Jenni man meira að segja eftir sér í þessu gamla húsi! Og afi reykir núna hangikjöt og silung yfir gömlu hlóðunum.  Það eru að meira að segja gömlu pottarnir sem voru notaðir í þessu gamla eldhúsi!

Það eru myndir á flikkrinu okkar af þessu öllu saman!!!

Við mamma fórum í jólahúsið.  Ég fékk að velja mér eitthvað fallegt í boði afa og ömmu og valdi mér flugvél og gröfu, sem eru smíðuð úr tré og eru í gamaldagsstíl. Ég var rosa sæll með þetta allt saman.  Og við mamma settum upp seríur í 3 glugga þegar við komum heim !!

Góð helgi sem við áttum saman!!!

gah_dimmuborgir

Engin ummæli: