föstudagur, febrúar 29, 2008


Ég er svo kátur í dag! Lína bangsastelpa fékk að koma heim með mér í gær. Mér finnst alltaf svo gaman þegar hún kemur í heimsókn. Ég sýni henni bílana mína og lestirnar mínar og passa hana rosalega vel! Svo skrifar mamma í dagbókina hennar og við lesum úr henni í skólanum :)

I dag fer ég svo til afa og ömmu - mikið hlakka ég til - meira að segja setti mótorhjólið mitt í töskuna en ekki með í skólann (sem reyndar varð smá vesen í bílnum þegar ég fattaði að ég var ekki með það með mér )

Allaveganna óska ég ykkur öllum góðrar helgar!!

Ykkar Gabríel

þriðjudagur, febrúar 26, 2008

Sælt veri fólkið !!

Eins og endranær þá er allt ljómandi að frétta af okkur. Áttum góða helgi - hitti pabba minn á laugardaginn og skemmti mér vel. Og átti rólegan og góðan dag með mömmu á sunnudag.

Það er snjór núna - fékk að hafa þotuna mína í skólann og Þórey sækir mig í skólann í dag - vonandi fæ ég að renna niður nokkra skafla á leiðinni heim. Það er svo gaman.
Svo er svo gott að fá að kúra í fangi mömmu eftir langan dag - þessi mynd er tekin á föstudaginn eftir skólann. Þar sem gjörsamlega slokknaði á mér :o)

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Til hamingju með afmælið kæri Jóhannes Geir

í dag á Jóhannes Geir vinur minn afmæli og er hann 3 ára í dag. Við mamma kíktum í afmælisboð til hans og var það alveg rosalega gaman! Snæbjörn vinur okkar var þarna líka, auk fleiri barna og lékum við okkur mikið saman. Kökur, ostar og fleira gott. Mömmur okkar sátu og kjöftuðu á meðan við guttarnir lékum okkur!!

sunnudagur, febrúar 17, 2008

hæ hæ !!

Héðan er allt gott að frétta. Gaman í skólanum, hress og hraustur, þægur og fullur af skemmtilegum sögum sem kannski ekki alltaf eru sannar. Líkist afa mínum, frænda mínum og öllum frændum úr ömmuætt með þetta að sögurnar eru litskrúðugar og já ekki sannar :o)

Það var byrjað á íþróttaskólanum í gær - var ekki alveg eins gaman og sl laugardag þar sem við vorum bara í leikjum núna, mér finnst miklu skemmtilegra að fara í þrautahringinn! vonandi er svoleiðis næstu viku. Þá verður mamma mín reyndar að vinna og pabbi fer með mér.

Og eftir íþróttaskólann fórum við í sveitina á Icecross þar sem Sylvía besta frænka var að keppa. Hún bauð mér að sitja hjá sér en ég vildi það ekki. Gaf þá skýringu að ég hefði setið á grænu mótorhjóli, dottið og fengið plástur. Þegar afi spurði hver hefði átt hjólið, "ég á hjólið" svo var það ekki meira rætt af minni hálfu.


Eins þegar ég benti á pilsnerinn hennar ömmu, "oj" og hún spyr mig hvernig ég viti það " ég hef sko smakkað þetta í skólanum..." útrætt...

En það var svakalega gaman að sjá hjólin og ég öskraði af spenningi þegar startið var og svo snérist ég bara í hringi því það voru hjól allstaðar og ég var ekkert hræddur við þau þó þau væru í gangi. En ég vildi samt ekki setjast á. En þetta er samt skref í rétta átt!!


Já í gær semsagt fórum við í sveitina, eftir góða og annasama viku í skólanum. Þórey bestafóstra er búin í prófum og sækir mig núna 2x í viku á meðan mamma lokar búðinni sinni. Og mér finnst svo gaman með henni. Í snjóvikunni þá sótti hún mig á þotunni minni.. sem ég valdi mér - og hún er bleik!!! Og ég fékk að renna niður snjómokstursskaflana í kringum blokkina mína - rosalega gaman!!

Mamma fór með afa að horntaka í fjárhúsunum, á meðan var ég í góðu yfirlæti hjá ömmu minni, ég nýt þessa stunda út í ystu!

Og í gærkveldi á leiðinni heim til Akureyrar sofnaði ég, svo við ákváðum að fara í smá heimsókn til Hafdísar frænku og Jóhanns Haralds á Möðruvöllum í Eyjafirði. Þangað er sko gaman að koma ! Fullt af krökkum að leika við og fullt fullt af flottu dóti -strákarnir eiga svo mikið af bílum og gröfum og dráttarvélum og dóti að ég hringsnérist um allt.

Já dagurinn í gær var frábær að vanda, og hlakka til að eiga rólegan dag í dag með mömmsu minni :o)

miðvikudagur, febrúar 06, 2008

Gabriel, his grandma and Herkules

Og við mamma fórum í sveitina eftir hádegi í dag. Við reyndar misstum af þvi að slá köttinn úr tunnunni uppi í vinnunni hans afa en fengum í staðinn að fara með Hirti stóra frænda mínum og vini hans að syngja uppi í Baðlóni. Þar fengum við sko ís og svala að launum!! (mamma söng eiginlega fyrir mig -ég syng ekki eftir pöntunum)
Svo fórum við heim til afa og ömmu og vorum þar í mat. Fékk að byggja úr legó og Herkúles og amma hjálpuðu mér. Ég er svo montinn af tígrabúningnum mínum að ég sýndi þeim hann og vill sko alls ekki fara úr honum. Enda sef ég í honum í nótt!!
Það var rosagaman í dag, ég sofnaði sæll og kátur.
Ykkar Gabríel

þriðjudagur, febrúar 05, 2008


Öskudagur !!! Á morgun er öskudagur og við mamma fórum í dag og fundum þennann líka flotta tígrisbúning!! Mér fannst hann svo flottur að ég heimtaði að fara í hann strax og við komum heim og mamma þurfti að tala mig til svo ég færi úr honum og í náttfötin. En það hafðist með því að mætast á miðri leið og ég fæ að sofa með hann uppí hjá mér ! En þið sem þekkið mig þá er ég ekkert allt of fús til að fara í ný föt svona við fyrstu kynni. Enda hlakka ég mikið til á morgun þar sem það er sleginn köttur úr tunnu og popp og svali á línuna !!

sunnudagur, febrúar 03, 2008


Halló halló !!

við erum í góðum gír hér á Akureyri!! Fullt fullt af snjó - verður geggjað gaman að fara í skólann á morgun og leika í snjónum. Við mamma erum búin að eiga þokkalega helgi. Fór til pabba í gær, ágætt - allavega skældi ég á eftir honum, en var fljótur að jafna mig.

Við mamma ældum svo bæði í nótt. Og þar með var ákveðið að fara ekkert upp í sveit í dag. Við ætluðum fyrst í gær, en veður var ekkert ákjósanlegt ferðaveður svo við frestuðum því. Þá höfðum við gælt við þá tilhugsun að fara í dag, en mamma er enn svo slöpp. Ég hins vegar bara hress og borðaði eins og það væri enginn morgundagur.

Enda sef ég núna og er búinn að sofa í 3 tíma!

Annars ætlaði ég bara að láta vita að mammsa er búin að setja inn nýjar myndir :o)