mánudagur, desember 29, 2008

Jólamyndir á netið

Hæ hæ !

Mamma er búin að setja jólamyndir á netið:

Afmæli og aðfangadagur.

Jólaball 28. desember í Skjólbrekku.

Dimmuborgir 29. desember.

Og fleiri á leiðinni !!

 

DSC04454

fimmtudagur, desember 25, 2008

Takk fyrir mig

Gleðileg jól og takk fyrir mig!! Við mamma viljum þakka ykkur öllum fallegu gjafirnar sem við fengum !

Ykkar 4 ára gamli strákur

Gabríel Alexander

DSC04391

ps: þessi mynd er tekin 24. desember kl 07:52 við opnun fyrstu afmælispakka... pakkaflóðið entist svo allan daginn :o)

miðvikudagur, desember 24, 2008

Til hamingju með afmælið Gabríel

HÆ hæ !!! ég á afmæli í dag !!! Loksin skom þessi stóri dagur og það er búið að vera rosalega gaman!! Hraunbergsfólkið kom í kaffi og ég er búinn að fá fullt af flottum pökkum !! Hjörtur hjálpaði mér að kubba flottan bíl sem þau gáfu mér í afmælisgjöf og systkinin í Hraunbergi og Hjörtur kenndu mér að spila UNO :o)

Takk fyrir mig og Gleðileg jól!!!

DSC04455

fimmtudagur, desember 18, 2008

Kartafla í skóinn...

Umræður um háttatíma. Áttu sér stað um 20:20 í kvöld:

Mamma: Gabríel minn ef þú verður ekki þægur og ferð að sofa núna þá gefur jólasveinninn þér kartöflu í skóinn"

Gabríel: mamma, þá borða ég hana bara...

- og málið útrætt...

Christmas_Toys

þriðjudagur, desember 16, 2008

hor og skóli

hæ hæ! ég er hress og kátur.  Og ég fór í skólann í morgun! Og ég mætti í Arsenal bolnum.  Mamma sagði að það væri allt of kalt til að mæta í stuttbuxunum, jafnvel þó ég væri í sokkabuxunum innanundir.  Hún setti mig meira að segja í rauðan rúllukragabol innanundir Arsenal bolinn! En ég sætti mig við það þar sem ég vissi að ekkert þýddi að ræða þetta frekar. 

Mamma sækir mig svo í dag - hún er hætt að vinna til 6  og við ætlum að sækja 2 seríur og setja upp heima í síðustu gluggana! Ég fékk að skreyta baðherbergisspegilinn okkar í gær með jólasveinunum sem amma Rósa gaf mér í fyrra :o)

Jámm ég er alveg eins og ég á að mér að vera með fjöldaframleiðslu af hori :o)

DSC04373

mánudagur, desember 15, 2008

Arsenal strákur

hæ hæ !! afi minn kom og sótti mig á föstudaginn í skólann og ég var svo ánægður að þegar ég heyrði röddina í honum kom ég hlaupandi fram kallandi "afi afi afi afi minn" - spurði svo afa hvar amma mín væri, hann svaraði að hún væri heima, og þá svaraði ég um hæl "afi þá skulum við fara heim til ömmu"

mikið var ég glaður!

mamma kom svo eftir vinnu á laugardag.  Kannski var þetta bara síðasti laugardagurinn hennar í vinnu !! i nýju vinnunni er engin helgarvinna og hún er annað hvort að vinna til 4 eða 5 - en allavega þá aldrei til 6 !

Hjörtur frændi kom í heimsókn um kvöldmat. og vitiði hvað.. hann gaf mér Arsenal fótboltabúning.  Og ég er búin að vera í honum nánast alveg síðan!! Vá hvað ég var hrifinn.  Hjörtur frændi og Sylvía halda sko með Arsenal, og þau eru byrjuð að kenna mér ýmislegt og til dæmis það að halda með Arsenal!  Og ég er svo hrifinn af þeim að ég er mjög fljótur að tileinka mér þeirra kennslu :o)

Við mamma erum heima.  Ég kvartaði um í eyrum um helgina. Og mamma mældi hita í mér í gær svo hún ákvað að halda mér heima í dag.  Og við erum búin að hafa það rosalega gott.  En hún telur mig það hressan að ég fari í skólann á morgun. 

Hérna er mynd af mér í Arsenal:

DSC04366

mánudagur, desember 08, 2008

Emil í Kattholti

hæ hæ!!

við mamma fórum í sveitina um  helgina og var afskaplega gaman!! Ég hafði hlakkað svo til að hitta afa og ömmu og ég lék á alls oddi þegar við komum.   Byrjuðum á að fara með súbbann upp í Grænar til að leyfa honum að standa inni og þiðna.  Svo var hann þrifinn með bónsápu og er hann svona líka glimrandi flottur á eftir !!

það var laufabrauðsgerð hjá afa og ömmu.  Og við mamma og amma fórum á Emil í Kattholti á Húsavík á laugardag.  Þetta var í fyrsta skipti sem ég fer í leikhús og ég skemmti mér konunglega.  Sátum á fremsta bekk sem var afskaplega gott - amma gat teygt úr löppunum, og mamma fékk næstum súpuskálina í hausinn, en það voru engir fyrir okkur.  Ég hélt reyndar fyrir eyrun þegar pabbinn gargaði "Eeeemiiiil strákskratti" En ég var afskaplega duglegur og skemmti mér rosalega vel!!!

Við mamma mælum með þessari sýningu!!

Svo var haldið áfram að skera og skemmtilega fólkið úr Lynghrauni kom! Ég fékk að vaka lengur! og var ég að horfa á fótboltann með Hirti! Sylvía og Áslaug komu líka og ég var afskaplega kátur að hitta alla.  Mamma og Áslaug klipptu mig svo á sunnudag! Sylvía frænka er alltaf svo vel klippt, Áslaug á heiðurinn af því. Mamma byrjaði og Áslaug kom henni til bjargar :o)

Auðvitað var farið í fjárhúsin  um helgina og kíkt á Jenna.  Gaf Rindli brauð og Lukku minni.  Hún vonandi gefur mér lömb í vor!

Já ég var alsæll með helgina og mamma líka.  Við áttum góða og notalega stund heima í gær.  Ég fékk td að opna dagatalið mitt - átti 3 óopnaða daga he he !

Vonandi áttuð þið góða helgi líka - ykkar Gabríel Alexander

gah_23.11.08

fimmtudagur, desember 04, 2008

Kakóferð

hæ hæ !

Ég var þreyttur í morgun. Svaf ekkert allt of vel í nótt og auðvitað vakti ég mömmu líka :o) Er farinn að telja niður dagana í jólin, og í dag eru 20 dagar :)

Það var kakóferð í gær í skólanum.  Fórum á Bautann í kakó og kleinuhringi og það var rosalega gaman! Fórum með strætó!! og svo fengum við að leika okkur í fiskaherberginu.  Og og svo horfðum við á Nemo.  Ég færði mömmu rosalega fallegt hjarta sem ég hafði litað sjálfur á þegar hún sótti mig í gær :)

Ég á súkkulaðidagatal sem við mamma gleymum að opna á morgnana.  Það er líka gaman að opna þegar ég kem  heim á daginn. 

Mamma fékk lánaða mynd af síðunni úr leikskólanum til að setja inn hérna af okkur í kakóferðinni:

IMG_6093

þriðjudagur, desember 02, 2008

Foreldrakaffi

hæ hæ

aftur lætur mamma líða heila viku án þess að setja inn smá pistil.  Kannski vegna þess að að það er lítið að frétta.  22 dagar í jól, sem þýðir 22 dagar í afmælið mitt og ég er farinn að telja niður með aðstoð jóladagatals :o)

Við erum hress og hraust, og nóg að gera.  Það var foreldrakaffi á föstudaginn síðasta með kaffi og bakstri sem við krakkarnir gerðum.  Mamma og pabbi mættu bæði.  Ég varð rosalega ánægður með að hafa þau bæði þarna og var alltaf að skipta um læri til að sitja á.  Og það endaði þannig að ég neitaði að fara og leika bolann í "Baulaðu nú Búkolla mín"

Og þá um helgina var ég hjá pabba.  Og við fórum til Reykjavíkur að sækja hana Þrumu.  Ég er voða hrifinn af henni og búinn að segja mömmu minni allt um hana.  Og vonandi er í lagi að hún noti mynd sem pabbi á af mér hérna með henni :)

þrumuferð 019

Annars er ég bara kátur.  Við mamma settum upp smá aðventudót - þe mamma setti upp og ég snérist í hringi.  Og talaði stanslaust.  Næstu helgi er áætluð laufabrauðsgerð og að fara í í leikhús - sjá Emil í Kattholti á Húsavík! Það verður nú gaman!!