fimmtudagur, desember 29, 2005

GLEÐILEG JÓL
Já gleðileg jól allir sama, vinir og vandamenn nær og fjær. Þetta er búið að vera rosalega gaman hjá mér. Ég átti afmæli á aðfangadag, og fékk ég margar góðar gjafir. Jólamaturinn var rosalega góður, og jólagjafirnar voru líka rosalega góðar og margar, og vil ég þakka öllum fyrir! Var gott að hafa mömmu heima og fékk ég að hafa hana hjá mér í 5 daga, vonandi verður hún í fríi á morgun, en hún fór í vinnu i dag.
Mánudag fórum við í mat til afa og ömmu í Mývó, hittum þar Þórhöllu og hennar fólk, borðuðum kalkún að hætti afa, sem er alltaf jafn góður, segir mamma, þar sem ég hef bara einu sinni smakkað hann, og þótti góður!
Ég fór svo á jólatréskemmtun með mömmu í gær. Þar voru fullt af börnum og fullorðnum, dansandi í kringum jólatréð. Mamma dansaði með mig í fanginu. Jólatréð var rooosalega fallegt, en ekki eins flott og heima hjá mér. Svo komu jólasveinar, og þeir eru bara hinir bestu kallar, gáfu mér mandarínur og þá er ég alveg viðræðuhæfur.
Þess má geta líka að í gær stóð ég sjálfur upp af gólfinu, án þess að styðja mig við eitthvað og tók 3 skref!! Ég varð svo hissa að ég baðaði út öllu öngum og datt á rassinn. Og mamma hoppaði upp af kæti - sem sagt - ég tók mín fyrstu alvöru skref í gær.
Ég vil óska öllum gleðilegt nýtt ár, og takk fyrir allt á mínú fyrsta ári, sem var rosalega viðburðarríkt, ánægjulegt og skemmtilegt.

miðvikudagur, desember 21, 2005

HÓ HÓ HÓ
Já sko nú eru jólin að koma, og ég er að verða 1. árs! Mikið líður tíminn hratt, mamma er alltaf jafn hissa á þessu.
Ég er farinn að hlaupa með, ekki bara labba heldur hlaupa og ég tek eitt og eitt skref án þess að halda mér í neitt. Mamma og pabbi eru voða montin af mér. Ég fer að labba mjög fljótlega, og þau eru að vona að ég flýti mér ekki við það því ég er svoddan óviti enn.
Það er búið að skrúfa lása á skúffur, nema viskustykkiskúffuna, og allt sem ég get meitt mig á eða skemmt er komið í örugga fjarlægð frá mér, og mamma er búin að ákveða hvar jólatréð verður. Og engir jóladúkar þetta árið í stofunni.
Annars er allt orðið jólalegt núna, seríur, jólamyndir, kertaskreytingar (í góðri fjarlægð) og jólatónlist. Fórum til afa og ömmu í Mývó sl helgi og þar var enn meira jólaskap í gangi. Kíktum í lónið, svakalega gaman þar, gaman í sturtu, gaman að skríða um allt, gaman að vera bleyjulaus, gaman að busla, það er bara svo gaman að vera til.
Tennur no 7 og 8 eru komar niður, ég er farinn að geta borðað að mestu sjálfur, vil drekka úr venjulegu glasi, farinn að kubba sjálfur, og kann að rífa mig úr buxum og peysu, er kominn með uppáhalds bangsa - Gogga úr Íslandsbanka, vil hafa hann hjá mér alltaf!
Ég er hættur öllu sem heitir ungbarnamatur, drekk mína stoðmjólk með venjulegri léttmjólk, og borða það sem mamma og pabbi borða. Mér finnst allur matur góður!

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Halló halló!!
Mamma biðst inninlegrar afsökunnar á þessu skrifleysi í sér.
það er rosalega marg búið að gerast - eins og alltaf. Mamma er byrjuð að vinna, vinnur hjá Bechtel við fjarðarál, er semst að borga reikn fyrir þá, eða að vinna þá undir borgun öllu heldur. Við pabbi erum heima á meðan með Kítöru.
Ég er orðin svo stór. Ekki byrjaður að labba enn, en 2 tönnslur í viðbót að koma, þá er ég kominn með átta!! Ég er alveg hættur að borða barnagrauta nema á morgnana, hættur að drekka SMA blönduna, núna fæ ég stoðmjólk, og léttmjólk. Ég við bara borða það sem mamma og pabbi borða, fisk, kjöt og kartöflur, slátur, bjúgu og grjónagraut! Lýsið mitt tek ég alltaf samviskusamlega á morgnan.
Ég er aldrei kjurr. Ég reyni að ganga með öllu sem ég næ í, og vil skoða allt. Allt er svo spennandi. Til dæmis veit ég að ef ég kasta fiskibollubita á gólfið þá sækir Kítara það!!!

föstudagur, október 28, 2005

Halló halló allir saman!
Rosalega mikið hefur gerst síðan síðast. Við mamma fórum í viku til afa og ömmu í Mývó á meðan pabbi og Gunni frændi drógu nýtt rafmagn í húsið okkar. Það var rosalega gaman að fá að vera svona lengi hjá afa og ömmu því þá náðu þau að kynnast mér og ég þeim almennilega.
Ég byrjaði þar að ganga með, og að drekka sjálfur úr pelanum mínum. Smakkaði þar kjöt, lifur og hjörtu og þótti gott - Guðmundur langafi hefði verið rosalega stoltur af mér!
Þar fékk ég að leika mér í snjó í fyrsta skipti. Rosalega var hann furðulegur - kaldur og blautur, en rosalega gaman að skríða í honum. Mamma setur kannski inn myndir af því fyrir okkur.
Svo er ég núna farinnað klappa á fullu, og ég er farinn að geta sagt hvað ég er stór - ég er að stækka allt of hratt segir mamma.
Já - mamma mín er byrjuð að vinna, hún er farin þegar ég vakna, og kemur ekki heim fyrr en kl fimm á daginn. Mér fannst og finnst enn þetta rosalega erfitt og ég vil ekki sjá af henni þegar hún kemur heim, og ég vil heldur ekki fara að sofa - vil bara vera hjá henni.
En ég er stór strákur og ég hlýt að læra að svona verður þetta að vera - hún kemur alltaf heim - og ég fæ að hafa hana hjá mér um helgar.

mánudagur, október 03, 2005

Hæ hæ
Ég fór í sunnudagaskólann í gær. Mamma ákvað að fara með mig, þar sem Hartmann vinur minn fær að fara. Og það var rosalega gaman. Mikið sungið og trallað - akkúrat það sem mér finnst skemmtilegt.
Ég er farinn að skríða um allt á fullu. Skoða allt, hrista allt og tosa í allt. Helst vil ég smakka allt líka en mamma passar það vel. Það er búið að setja upp hlið í stiganum, kaupa skúffulæsingar, og fjarlægja allt sem ég get meitt mig mikið á og/eða brotið og skemmt.
Ég er afskaplega hress og hraustur, tek lýsið mitt á hverjum morgni og er farinn að borða kjöt! Guðmundur langafi myndi vera hrifinn af því að sjá mig borða - hve vel ég borða :o)

miðvikudagur, september 28, 2005

Komnar nýjar myndir úr ferðinni minni til Reykjavíkur!! Kíkið á hér!!
Halló halló !!!
Þá erum við komin heim - reyndar í sl viku. Það var svakalega gaman í Reykjavík!! Hitti fullt af fólki, skoðaði í Kringlunni, og það sem mér fannst gaman að sjá allt fólkið þar!! Mamma og pabbi gáfu mér nýja almennilega kerru sem ég get sofið í. Og það er gott að sitja í henni og fylgjast með öllu sem er að gerast í kringum mig.
Ég byrjaði að standa upp með í Reykjavík! Það var í ferðarúmi sem við fengum að láni hjá vinum okkar Kalla og Raggý! Þá vorum við gestir hjá Dóu vinkonu mömmu.
Svo fór ég í pass í fyrsta skipti! Ásta María, dóttir Kalla og Raggý passaði mig á sunnudeginum! Ég var rosalega þægur, og það var ekkert mál að skilja mig einann eftir í fyrsta skipti! Þarna gátu mamma og pabbi átt smá stund fyrir sig tvö ein. En það hafa þau ekki getað síðan ég kom í heiminn.
Svo hitti ég 3 gullmola! Tvíburana hennar Huldu og loksins hitti ég Sóldísi Ingu! Þau eru öll yngri en ég en ég hugsa að við getum áræðanlega brallað eitthvað saman í framtíðinni!!
Mamma var rosalega montin af mér, og pabbi líka, ég er svo rosalega góður í ferðalögum. Ekkert mál að sofa hér og þar. Ég vakna alltaf kátur og hress, alveg sama hvar ég er. Mamma og pabbi voru með regluna mína á hreinu svo ekkert raskaðist hjá mér, sama rútínan hvar sem við vorum.
En það var afskaplega gott að koma heim til mín.

þriðjudagur, september 13, 2005

Hæ hæ
Núna eru mamma og pabbi að skipuleggja ferð suður. Pabbi er þegar farinn suður, og við mamma erum að reyna að finna íbúð sem við getum verið í. Málið er að bróðir pabba líður ekki allt of vel og vildi pabbi fara og hitta hann áður en hann færi til Finnlands í fleiri aðgerðir. Svo kannski fæ ég að hitta ykkur fljótlega.

Í dag er sprautudagur. Ég á að fara í mína reglulegu skoðun og fá sprautu. Ég er nú svo duglegur að ég orga bara smá á hjúkkuna, svo er þetta búið. Ég læt ykkur vita stærð og þyngd í dag :o)

föstudagur, september 09, 2005

Halló halló! Í dag er merkisdagur hér á Fáskrúðsfirði, göngin verða opnuð í dag - hinn langþráði dagur loksins runninn upp. Hér verður mikið um húllumhæ í tilefni dagsins, og mamma segist aldrei ætla að keyra þessar (ljótt orð) skriður aftur.
En loksins komumst við í myndirnar af mér og mamma setti þær á netið - eitthvað er rugl á þessu því sumar eru ekki að koma í lagi - en myndirnar eru samt flestar í fínu lagi.

Ég vaknaði hress og kátur í morgun að vanda, heimtaði mitt slátur og graut. Kalt slátur í bitum er eitt það besta sem ég fæ - lifrapylsa og blóðmör - skiptir ekki máli. Mamma og pabbi rosa fegin því það er svo hollur matur.

Óska ykkur góðrar helgar - og núna verður styttra að koma og heimsækja mig !!

miðvikudagur, september 07, 2005

Jæja þá er nýja útlitið komið og mamma er býsna sátt. Vona bara að lesendur góðir hafi ekki gefist upp á okkur í blogginu.
Endilega kvittið i gestabókina - mér finnst svo gaman að lesa hana.
Kær kveðja
Gabríel
Halló halló!!!
Héðan er allt fínt að frétta. Ég er orðinn þokkalega stór og flottur strákur. Síðustu mælingar voru 70 cm og 10,9 kg! Það var 5. ágúst!

Ég er kominn með 4 tennur - komu 2 samtímis í efrigóm. Það var svolítið erfitt og var ein nótt sem við sváfum ekki mikið.

Ég er farinn að sitja sjálfur, og skríða, og vil núna skríða út um allt. Göngugrindin er þó svakalega vinsæl, þar get ég skoðað fleira sem ég næ ekki í skríðandi þar sem ég get ekki staðið með ennþá.

Ég fór í réttir í Mývó, var rosalega gaman og var ekkert hræddur. Þá helgi hitti ég Jóhann Karl, sem er sonur Eddu vinkonu mömmu. Við höfðum hist áður en sú heimsókn fór ekki vel þar sem við orguðum báðir í kór, en núna erum við stærri og flottari. Jóhann Karl fæddist 25. júni, 6 mánuðum á eftir mér, næstum upp á dag! Ég hugsa að við eigum eftir að gralla saman í framtíðinni eins og mæður okkar gerðu á sínum tíma. Hann er flottur strákur!

Ég fór í sund í Mývó, það var ekkert smá gaman. Mér finnst agalega gaman að busla í vatni, mamma er líka dugleg að leyfa mér það, þó svo hún komi jafn blaut frá því og ég. Kítara skilur ekkert í okkur.

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Halló kæru vinir og vandamenn. Við erum loksins komin heim. Vorum á Akureyri í viku hjá Herði afa. Reyndar var hann ekki heima, en hitti hann samt smá. Gott að vera komin heim, þó svo ég hafi ekkert verið leiður á ferðalaginu. Hins vegar máttu tennurnar sem eru að koma núna alveg mátt bíða þar til eftir ferðalagið. Hiti og tennur eiga ekki vel saman.
En allavega - við fórum suður í Varmaland og hittum fullt af fólki. Ættarmót ættar pabba og Harðar afa. Þar fékk ég loks að hitta fólk sem hefur sent mér gjafir, skrifað í gestabókina hérna, og fylgst með mér frá því ég kom í heiminn. Það var rosalega gaman að hitta allt þetta fólk. Vona að ég fái að hitta fólkið oftar í framtíðinni.
Afi Hörður gaf mér ferðarúm í skírnargjöf, og það var rosalega gott að sofa í því, mamma og pabbi geta sem sagt flakkað með mig og ekki haft neinar áhyggjur af því hvar og hvernig ég muni sofa! Og svo fékk ég hlaupagrind, og ég er sko búinn að fatta hvernig ég kemst áfram í henni, og núna er mamma búin að fjarlægja alla dúka og teipa niður snúrur. Hendurnar mínar eru sko alveg virkar! Gaman að vera til!!

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Hér eru nokkrar skemmtilegar af mér þar sem ég er að lesa blöðin......
Jæja - mamma mín er eitthvað blogglöt þessa dagana. Það er reyndar ekki mikið búið að vera að gerast. Ég var skírður með öllu tilheyrandi 2. júlí í Kolfreyjustaðarkirkju, af frænku minni séra Þóreyju. Var rosalega gaman, og ég var rosalega þægur. Fengum gesti, og það var smá veisla í tilefni dagsins. Var virkilega gaman, og notaleg stund.
Ég fór í afmæli til Hartmanns félaga míns 9. júlí, hann er orðinn 1. árs - stór strákur og rosa flottur. Mamma hans var með veislu í tilefni afmælisins og fékk ég að leika mér með dótið hans og lullaði aðeins í vagninum hans.
Við fórum líka saman í sund á sunnudaginn uppi á Egs. Það var rosalega gaman. Mér finnst ekkert smá fjör að busla og sulla í vatninu, og vakti mikla athygli.
Ég vona að mamma mín fari nú að smella inn myndum handa ykkur að skoða !!!

mánudagur, júní 27, 2005

Halló halló! Fór í sund í dag. Í fyrsta skipti!! Fórum einn rúnt á Djúpavog, þar er svo rosalega góð innilaug, með frábærri buslulaug. Mér fannst þetta alveg frábærlega gaman! Ég buslaði og sullaði og frussaði af öllum kröftum. Fannst þetta rosalega gaman - svaka stuð! Svo stoppuðum við í sjoppu til að borða - auðvitað var mamma mín með krukku af epla/bláberjamauki (uppáhaldið mitt) Ég lék á alls oddi í sjoppunni, hló og skríkti af kátínu. Enda slokknaði svo á mér í bílnum á leiðinni heim.
Þetta var svolítið annað en þegar við ætluðum á skógræktarhátíðina í Hallormsstað á laugardaginn sl. Rosalega gott veður, tókum vagninn með, og ætluðum sko að eiga ánægjulegan dag. Sem við jú gerðum, en ekki þarna. Ég tók það ekki í mál að stoppa þarna, á þessum stað, með öllu þessu fólki. Og einhver kona að gaula uppi á sviði, og ég tók bara undir tónana hjá henni og gargaði eins og lungun mín leyfðu. Svo var einhver kall að grilla heilt naut yfir eldi og mér leist heldur ekkert á það og gargaði enn meir. Svo mamma og pabbi sáu þann kostinn vænstan að fara með mig aftur. Við sem sagt stoppuðum kannski í 10 mín. Og pabbi fékk ekki heilgrillað naut..... En þetta var mjög skemmtilegur rúntur :o)
Svo á að skíra mig um næstu helgi. Lítil athöfn með nánustu ættingjum. Verð skírður hér á Kolfreyjustað. Presturinn séra Þórey frænka mín mun framkvæma gjörninginn. Þetta verður svaka fjör.....
Þar til næst hafið það gott.

þriðjudagur, júní 21, 2005

Halló halló halló!
Í dag á hann Valgeir afi minn afmæli!
Til hamingju með afmælið elsku afi minn!

Mamma setti inn myndir af mér, ég er að lesa blöðin og fleiri skemmtilegar - endilega skoðið þær. Annars er allt gott að frétta, ég er dálítið pirraður stundum út af tönnunum, en ég harka af mér og græt aldrei, nöldra bara smá.
Mamma og pabbi eru farin að gefa mér meira af venjulegri fæðu, já ef venjulega skildi kalla, þessa frá Gerber úr krukkum, allaveganna gúmmulaði og mér finnst það afskaplega gott. Enda stækka ég og stækka. Núna bíðum við í ofvæni eftir því að Edda frænka verði mamma, hlakka svoo til og mamma er alltaf að skoða símann sinn ef ske kynni að sms skilaboð væru komin með tilkynningu um fjölgun..

fimmtudagur, júní 16, 2005

Hæ hæ kæru vinir. Héðan er allt gott að frétta. Pabbi er búinn að vera svo duglegur uppi á hæð 2 að ég varla sé hann. Enda er sú hæð mega flott núna. Ætlunin er að mamma og pabbi flytji tölvurnar sínar upp, og ég fái svo herbergið hennar mömmu sem mitt herbergi. Ég er kannski enn of lítill til að sofa einn í herbergi, en ég hlakka allavega til að eignast mitt eigið herbergi. Stór strákur ég!.
Það hefur verið frábært veður undanfarið, og höfum við verið úti í garði. Ég sit í vagninum mínum, með sæng til stuðnings þar sem ég er ekki alveg farinn að sitja sjálfur (stutt samt í það) og það er svaka gaman að fylgjast með öllu.
Svo eignaðist ég fyrstu bókina mína í vikunni. Hún var rosa góð, á alla máta. Mamma las hana fyrir mig, og hún fjallar um heimsókn afa og ömmu. Alveg frábærlega litskrúðug og ég varla gat hamið kátínuna sem braust fram við lesturinn. Þessi bók líka endist lengur en dagskráin....

miðvikudagur, júní 08, 2005

Sælinú - ég er alltaf jafn hress og kátur. Mamma var loks að setja inn fleiri myndir af mér og okkur. Gengur ekki þegar dyggir lesendur fá ekkert nýtt í æð reglulega!
Við tókum rúnt til Akureyrar á mánudaginn. Ég var rosalega duglegur alla leiðina, þetta var löng ferð, en ég var svo þægur og góður. Við stoppuðum hjá Rósu ömmu og Valgeir afa svo mamma gæti gefið mér hádegisgraut. Þau pöntuðu nýjan bílstól handa mér. Mér finnst hinn vera orðinn óþægilegur, ég er bara að verða allt of stór í hann. Við kíktum í vinnunna til Siggu ömmu og Magnúsar afa. Ég var bara orðinn svo þreyttur að það var voða lítið hægt að ræða við mig. Enda sofnaði ég með pelann í stólnum mínum, í innkaupakerru, inni í Centro á Glerártorgi. Fékk graut á bakaleiðinni hjá afa og ömmu í Mývó, svaf alla leiðina austur, og sofnaði um leið og ég var lagður í rúmið mitt - já rúmið mitt er besta rúm í heimi.

laugardagur, júní 04, 2005

Góðan daginn gott fólk - í dag náði ég að velta mér í fyrsta skipti!! Lá á maganum og velti mér yfir á bakið!! Svaka duglegur - ég er alveg að verða stór strákur :o)
Mamma tók tímann á mér í gær þegar ég var að "tala" og ég samkjaftaði ekki í klukkutíma og 20 mín. Hmm.. ég er afar efnilegur!
Mér finnst ógurlega gaman að æfa mig í að sitja. Við æfum okkur oft og ég er farinn að geta setið smá óstuddur. Það er rosalega gaman - enda var ég að finna nýja vini - tærnar á mér - þær eru rosalega skemmtlegar - hlakka til að kynnast þeim betur!
Smáhlutir, já þeir eru líka afar skemmtilegir. Ef mamma situr með mig við skrifborðið sitt þá mega engir hlutir vera nálægt - puttarnir mínir virka sko alveg! Held meira að segja að það sé smá tannafar eftir mig í strokleðrinu hennar mömmu!

mánudagur, maí 30, 2005

Tennur
Í dag fann mamma 2 tennur í neðri góm. Hún er rosalega montin af mér, og ég skildi að hún var rosa hrifin þannig ég sýni þær óspart!

laugardagur, maí 28, 2005

Hæ hæ
Héðan er allt gott að frétta. Mamma er komin heim aftur - var voða gott að fá hana heim. Annars leið mér rosalega vel hjá pabba. Hörður afi kom í heimsókn og það var mjög gaman. Ég var duglegur að sofa og borða á mínum tímum þrátt fyrir að mamma væri ekki heima. Hún skrapp norður í 2 nætur til að hitta vinkonur sínar og keyra Rósu ömmu til Akureyrar.
Ég er orðinn 5 mánaða gamall. Ég fór í skoðun í sl viku og viti menn ég er 66 cm langur og 8,8 kg þungur. Ég fékk sprautu og tók varla eftir því.
Mér líður svo rosalega vel að ég sofna alveg sjálfur í rúminu mínu. Mamma og pabbi leggja mig bara í rúmið, setja spiladósina mína af stað, ég syng aðeins með og svo er ég sofnaður. Og sef í einum dúr til morguns. Já mér líður rosalega vel.
Núna bíð ég bara spenntur eftir að fá að vita með "litla frænda eða frænku" sem er væntaleg/ur í heiminn 20. júni. Edda frænka er að verða mamma, og ég hlakka rooosalega til. Mamma er svo spennt yfir þessu öllu saman. Hún biður að heilsa elsku Edda mín, og vonar að ykkur gangi rosalega vel!!!

sunnudagur, maí 22, 2005

Halló gott fólk. Ætla bara að láta vita að héðan er allt gott að frétta. Mér líður svakalega vel. Enn eru ekki komnar tennur. Ég er farinn að borða Oatmeal með bönunum og þurrkuðum ávöxtum frá Gerber. Einn daginn sagði ég hingað og ekki lengra - ég borða ekki meir af þessum rísmjölsgraut. Svo gáfu mamma og pabbi mér að smakka gulrótarmauk og það var voða furðulegt í fyrstu en svo núna finnst mér það alveg hreint ágætt. Fínt að geta borðað svoleiðis á ferðalögum þar sem sumarið nálgast og vonandi fæ ég að sjá meira af ættingjum mínum í sumar.
Ég sef á hverjum degi núna úti í vagni fyrir hádegi. Mér þykir það afskaplega notalegt. Vakna endurnærður og sprækur, til í allt.
Bið að heilsa ykkur öllum - kær kveðja Gabríel Alexander

fimmtudagur, maí 12, 2005

Jæja þá eru loksins komnar myndir inn af fermingunni hennar Sylvíu Ósk. Það þarf ekki að taka fram að hún leit stórglæsilega út stelpan, og fermingin og veislan tókust frábærlega vel. Það var rosalega gaman að hitta alla, fullt af fólki sem ég veit að kíkja reglulega á síðuna mína en ég hafði aldrei hitt. Ég skemmti mér allavega rosalega vel, og var afskaplega þægur og prúður.
Núna er allt gott að frétta nema ég er frekar pirraður í munninum núna. Það er greinilega fullt að gerast þar og rek ég upp sársaukagrátur reglulega. Mömmu og pabba finnast ég standa mig rosalega vel og eru hreykin af mér.

miðvikudagur, maí 04, 2005

Í dag á hún Rósa amma mín afmæli.
Hún er 55 ára í dag og viljum við óska henni innilega til hamingju með afmælið elsku besta amma mín!!!!
Hlakka svo til að hitta þig um helgina og ég hlakka svo til að hitta alla ættingja mína sem ég hef ekki hitt. Ég vona að fólk sjái sér fært um að mæta.
kær kveðja Gabríel Alexander

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Sæli nú kæru vinir og vandamenn nær og fjær. Biðst afsökunar á hve mamma hefur verið löt að skrifa undanfarið, en það er allt gott að frétta af okkur.
Það sem á daga mína hefur drifið er að við fórum til Egs á föstudaginn að versla. Fórum í æðislega gönguferð í Hallormstaðaskóg á sunnudaginn. Þó sumarið sé komið þá er enn frekar grámyglulegt um að litast, en með sólskini og fuglasöng þá var þetta rosalega ljúft. Mér þótti virkilega gaman að sjá svona fullt af nýjum hlutum og starði um allt.
Í gær fór mamma með mig til ljósunnar hérna til að vigta mig og mæla þar sem ég er orðinn 4 mánaða stór strákur. Ég mældist 8.2 kg og 64 cm, og telst það vera nokkuð gott. Ég fylgi meðaltalinu á lengdina, en er dulítið of þungur. En hún (þe ljósan) vildi ekki að mamma og pabbi breyttu neinu þar sem hún veit að þegar ég fer á fullt þá verður ágætt fyrir mig að hafa smá forða.
Í dag fékk ég frábæra sendingu frá Florida. Rosalega falleg föt. Þau passa flott á mig, takk takk kærlega fyrir mig Hafdís frænka!

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Gleðilegt sumar
og takk fyrir veturinn!!!!
Það er yndislegt veður hérna á Fáskrúðsfirði. Mamma ætlar með mig í göngu á eftir, og vonandi fæ ég að sitja uppréttur og horfa í kringum mig. Mér finnst það rosalega gaman.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Hæ hæ hæ!! Við erum komin heim. Og pabbi er kominn heim, það var svo gott að sjá hann í gær, að ég vildi alls ekki sleppa honum!
Við vorum hjá Valgeir afa og Rósu ömmu og Herkúlesi. Það var alveg meiriháttar. Afi minn er skemmtilegur kall, ég var ekki alveg viss um hvernig ég átti að taka honum fyrst, en núna ef ég bara heyri í honum nálægt mér þá fer ég að hlæja! Hann setur upp svo skemmtileg andlit fyrir mig og ég hreinlega ræð ekki við mig og fer að skellihlæja! Hann líka passaði mig aðeins á laugardaginn, og hann hengdi upp dót handa mér í ljósakrónuna í eldhúsinu, bjó til smá óróa handa mér, duddan mín, dótabækling frá Leikbæ, bleyjuklútinn minn, og ég hló og hló!
Við fórum öll til Akureyrar á föstudaginn. Ég var afskaplega duglegur og þægur. Það var svo margt að sjá og svo mörg ný hljóð. Enda var ég alveg uppgefinn eftir daginn. En ég náði ekki að hitta Siggu ömmu né Hörð afa eða Magnús afa, vonandi hitti ég þau næst.
Svo bauð afi okkur í morgunkaffi í vinnuna til sín. Það var rosalega gaman að sjá hvar afi vinnur. Meira að segja Herkúles og Kítara máttu koma með inn! Og mamma og amma fengu dýrindis morgunkaffi hjá afa.
Afi og amma fengu lánað rúm handa mér. það var frábært og rosalegur munur. Enda svaf ég vel allar nætur, var hins vegar ekki alveg á því að sofa á daginn, dottaði svona inn á milli. Það var alltaf svo mikið skemmtilegt um að vera.
Pabba fannst ég hafa stækkað þessa viku sem hann var í burtu. Ég er miklu meira vakandi fyrir umhverfinu, hendurnar mínar grípa í allt sem er nálægt og ég vil kanna allt með að setja í munninn og smakka. Það er allt svo spennandi og flott, svo gaman að uppgötva eitthvað nýtt, get setið og talað við allt sem ég sé.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

hæ hæ allir saman! Héðan er allt gott að frétta. Allir hraustir og kátir. Pabbi minn er farinn suður í vikudvöl og sakna ég hans mikið! Hlakka til að fá hann heim aftur. Ég líka lofaði honum að vera þægur á meðan - sem ég er reyndar alltaf. Lítið ljós!
Ég er farinn að borða smá graut í hádeginu líka. Það hjálpar mér að sofa almennilega á daginn. Og núna er föst regla, grautur klukkan tólf og ég er sofnaður um eitt, og sef vel í 3-4 tíma á daginn. Enda líður mér rosalega vel. Ég stækka vel, er hraustur og kátur! Ég er mikið í hoppirólunni minni. Ég leik mér mikið í leikgrindinni minni eftir að mamma og pabbi gerðu hana þannig að ég get setið uppréttur í henni. Ég nefnilega vill alls ekki liggja á bakinu og sjá ekki neitt í kringum mig!
Svo er á planinu að fara í sveitina til Valgeirs afa og ömmu Rósu í vikunni. Alltaf gott að kíkja þar við og hafa það náðugt! Svo er held ég formúlan um helgina og kannski maður klæði sig uppá og horfi á formúluna með afa mínum!!!
Já og mamma var að setja inn myndir af mér.
Hafið það rosalega gott og mamma biður kærlega að heilsa öllum!!!
Kveðja Gabriel Alexander

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Hæ aftur en mamma var að setja inn nýjar myndir af mér! Núna þegar ég er orðinn 3 mánaða þá er um að gera að búa til nýtt albúm fyrir næsta mánuð! Sem sagt Mánuður 4 er kominn í loftið.
En hún tók líka eina spes mynd handa Sunnefu frænku minni sem býr í Danmerku. Hún sendi mér svo flotta flugu og ég er svo rosalega hrifinn af henni. Hún er létt og litskrúðug, hún er með skrjáfandi glitrandi vængi og það hringlar í henni. Svo smakkast hún rooosalega vel!! Sjáið myndina hér!
Svo átti hún Sunnefa afmæli núna 2. Apríl!! Hún varð 15 ára skvísa - til hamingju með daginn kæra Sunnefa!!
Sælt veri fólkið. Ég átti góða og rólega helgi. Fór með mömmu og pabba í mat til vina þeirra á laugardagskvöldið og þau eiga eina litla stelpu sem er 7 mánaða og heitir Halldóra. Ég er svolítið minni en hún, og get ekki enn leikið við hana, en hún var samt rosa skemmtileg. Svo hitti ég vinkonu mömmu á sunnudaginn og fór í kaffi til Hartmans á mánudaginn. Svo kannski er ég búinn að vera nokkuð upptekinn. Hartmann reyndi að fá mig líka til að leika, en ég starði bara á hann. Hann er orðinn svo duglegur, hann labbar með öllu, opnar skúffur og tekur til fyrir mömmu sína. Ég hlakka mikið til að geta farið að leika við hann!
Mér finnst afskaplega gaman að hitta nýtt fólk, og er næstum hættur að setja upp skeifur þegar ég sé nýtt fólk, eða þegar ókunnugt fólk reynir að tala við mig. Takið eftir ; næstum - ekki alveg.

föstudagur, apríl 01, 2005

Hæ hæ og gleðilegan 1. Apríl !!! Vonandi skemmtið þið ykkur vel í dag!
Annars er flott að frétta af mér. Við fórum í skoðun í gær, og ég er eins og áður mega flottur, sterkur og stinnur gaur. Stækka hratt og vel, ekkert of feitur, lít rosalega vel út og er hraustur. Ég er 61,5 cm og 7,3 kg.
Ég fékk sprautu, ég var alls ekkert hrifinn af því, sprautað í lærið og mér fannst það hrikalega vont. En það liðu bara nokkrar sekúndur þangað til ég sá rosalega fallega rauða tösku sem hjúkkan átti og það lagaði allt, og ég steingleymdi öllu varðandi sprautuna og sársaukann.
Mamma fór svo til Egilstaða í sund og smá afslöppun. Við pabbi létum fara vel um okkur á meðan og slöppuðum af.

fimmtudagur, mars 31, 2005

Halló halló !!
Páskamyndir komnar inn!! Páskarnir voru alveg frábærir. Við fórum í sveitina til Valgeirs afa og Rósu ömmu. Við fórum á föstudaginn langa í bústaðinn til Siggu ömmu og Magnúsar afa. En Hörður afi var að vinna svo mikið að ég náði ekki að hitta hann.
Ég var svo heppinn að Guðmudur langafi og Guðrún langamma komu frá Reykjavík, þannig að ég hitti þau í fyrsta skipti - og þau eru yndisleg!! Þau voru svo brún og sæt - voru að koma frá Kanarí eyjum. Langamma kunni sko alveg á mér lagið og gerði sér lítið fyrir og svæfði mig hvað eftir annað, ég hugsa að það séu nokkuð mörg krílin sem hafa sofnað hjá henni!
Langamma átti afmæli núna 29. mars, ásamt Hirti Smára frænda mínum, og óska ég þeim innilega til hamingju með daginn!!
Ég fer í 3 mánaða skoðun á eftir - úff fæ víst sprautu, svo ég segi ykkur frá því síðar.

laugardagur, mars 26, 2005

Hann pabbi minn á sko afmæli í dag!!! Ég ætla að knúsa hann og vera svo þægur og ljúfur - eins og ég er alltaf!!!
Til hamingju með daginn elsku pabbi minn!!!

miðvikudagur, mars 23, 2005

Hæ aftur - langaði til að segja ykkur frá því að í dag þá er ég ekki aðeins farinn að grípa hluti, heldur er ég byrjaður á að skoða þá með munninum. Ég á nokkur fallega lituð létt dót, sem ég er farinn að fatta, og setja upp í mig!
Mér finnst núna lang skemmtilegast að vera í hoppirólunni minni. Get hangið þar lengi, rétt næ með táslunum niður til að hreyfa mig til. Svaka stuð!
Svo er mamma byrjuð að lesa fyrir mig. Okkur finnst afar notalegt að sitja í lazy boy og skoða litríkar bækur. Það er svo gaman - ég hlæ og hjala við myndirnar!
Halló halló! Dagurinn í dag er merkisdagur. Hún mamma mín er 30. ára í dag! Ég er líka búinn að knúsa hana alveg síðan ég vaknaði í morgun, og er búinn að vera x-tra þægur við hana í dag.
Amma mín á Akureyri sendi mér föt og dót frá Bandaríkjunum í dag. Ég verð rosa flottur þegar ég fer í þetta - takk æðislega fyrir mig elsku Sigga amma og Magnús afi.
Ég verð þriggja mánaða á morgun. Ég fæ reyndar ekki 3 mánaða skoðunina mína fyrr en eftir páska þar sem hjúkrunarfræðingurinn er farinn í páskafrí. Þá fæ ég sprautur.
Annars eru mamma og pabbi að spukulera að fara til Mývatnssveitar með kíkiferð til Akureyrar um páskana. Dagsetningar eru ekki komnar á hreint, en það væri gaman að sjá sem flesta!
Annars hafið það sem allra best um páskana
kveðja Gabríel Alexander

fimmtudagur, mars 17, 2005

Sælt veri fólkið! Og takk fyrir kveðjurnar í gestabókinni! Snjólaug frænka mín og dóttir hennar Sunnefa sendu mér afskaplega fallegt dót í dag - og langar mig til að þakka kærlega fyrir mig!
Mamma og pabbi gáfu mér leikgrind í gær og hoppirólu. Ég er kannski enn svolítið lítill fyrir hoppiróluna en ég fékk að prufa, með góðri stillingu svo ekkert álag er á litlu fótunum mínum. Og það er meiriháttar gaman að dingla þarna í þessu dóti. Get hreyft mig eins og ég vil (enda er ég aldrei kjurr) og það er meiriháttar þegar einhver nennir að ýta mér svo ég róli til og frá!
Leikgrindin er snilld. Þar fæ ég að vera í friði fyrir Kítöru, þó hún sé ofsalega góð við mig, þá er ágætt að fá stundum að liggja með dótinu mínu og þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að fá hundstungu framan í mig í tíma og ótíma. Auk þess sem dótið mitt er orðið óhult fyrir henni!

laugardagur, mars 12, 2005

Hæ hæ allir saman. Mér líður afskaplega vel þessa dagana, sef vel og borða vel. Í morgun er ég búinn að vera hjá mömmu niðri í tölvuherbergi. Ég dunda mér við að tala við dótið mitt, tala við mömmu og tala við Kítöru þegar hún nennir að vera hjá okkur.
Það er leiðinlegt veður úti, líkt og í gær, svo við förum sennilegast ekkert út í vagninn í dag. Ég læt mér líða vel inni í staðinn.
Vona að þið öll eigið góða helgi,
kær kveðja Gabríel Alexander

fimmtudagur, mars 10, 2005

Í gær var ofboðslega fallegt veður. Við fórum öll fjögur á rúntinn og rúntuðum alla leið til afa og ömmu í Mývatnssveit. Mamma og pabbi stoppuðu á leiðinni til að taka myndir og dást að útsýninu, en það var afskaplega fallegt á öræfunum í gær. Og auðvitað var gaman að hitta afa og ömmu svona fljótt aftur. Vona að það líði ekki langt á milli heimsókna, en fólk er auðvitað velkomið að kíkja í kaffi til okkar :o)

mánudagur, mars 07, 2005

Hæ hæ aftur!
Guðmundur langafi og Guðrún langamma eru úti á Kanarí með Guddú frænku minni. Hún Guddú er afasystir mín og á hún afmæli í dag! Hún er 50. ára í dag og viljum við mamma og pabbi óska henni innilega til hamingju með daginn í dag!! Til hamingju með daginn elsku Gúddú - vonandi fæ ég að hitta þig fljótlega!!
Ástarkveðja Gabríel Alexander, Guðrún K. og Hjörleifur
halló halló!!
Vitið þið hvað það var gaman um helgina hjá mér! Ég og mamma og Kítara fórum til Mývatnssveitar í heimsókn til Valgeirs afa og Rósu ömmu! Það var rosalega gaman. Ég var reyndar fyrst afskaplega feiminn því ég er svo lítill enn að ég þekkti ekki andlitin þeirra, þó þau höfðu komið í heimsókn 29. janúar. Svo ég sendi þeim nokkrar vel valdar skeifur fyrst. Og amma fékk að sjá mig vondan, og henni fannst það undarlegt hvað svona lítill búkur gæti gefið frá sér mikil og sterk org. En ég kreppi hnefann og kreppi mig saman til að ná sem mestum krafti í hvert org. Ég er með ágætis skap :o) En nóg um það.
Auðvitað hætti ég að senda þeim skeifur þvi þau eru voða góð, og gott að kúra hjá þeim, td sofnaði ég í fanginu á ömmu minni þegar hún og mamma voru að skoða gamlar myndir.
Ég átti reyndar frekar erfitt með að sofa fyrst. Ný hljóð, ný andlit og nýjar raddir, svo var pabbi ekki með (hann var heima að mála) En ég vandist þessu og var farinn að leika á alls oddi á sunnudeginum.
Þórhalla móðursystir kom og kíkti á mig, og ég hitti Hjört Smára og Sylvíu Ósk. Reyndar þurfti Sylvía að fara til Reykjavíkur að keppa á frjalsíþrótta móti, svo ég hitti hana lítið, vonandi meira næst! Svo kom Jón í Belg í heimsókn á sunnudeginum til að sjá mig. Það eru allir voða hrifnir af mér - ég er líka svo rosalega flottur strákur!!!
Væri líka gaman að sjá fleiri spor í gestabókinni. En þangað til seinna - hafði það rosalega gott elskurnar mínar!!

miðvikudagur, mars 02, 2005

Góðan daginn allir saman!
Ég fór í ungbarnaeftirlitið í gær, og var svakalega duglegur. Ég reyndar var alls ekkert sáttur við að vera klæddur úr á þessum stað, var kalt og óþægilegt. En við kynntumst nýjum hjúkrunarfræðing sem heitir María og hún var afskaplega yndæl. Ég var mældur í bak og fyrir, og mældist 58 cm og 6260 gr. Mömmu finnst þessi tala 58 cm ekki alveg stemma miðað við fötin mín. En það var kannski ekki alveg hlaupið að því að mæla mig því ég var orðinn fjólublár af reiði þegar María var að reyna að mæla mig, og ég kreppti mig allan saman til að hafa meiri kraft í lungunum til að garga á hana. En hún sagði mig vera afskapleg hraustan og flottan gaur. Talar um að ég sé stinnur og sterkur, með fæturnar á réttum stað, og góða hreyfigetu og greinilegt að ég hreyfi mig mikið. Mamma og pabbi alveg að springa úr monti.
Núna er ég búin að fá graut í 3 kvöld í röð. Fyrsta kvöldið var ég ekki alveg á því að sofna og sofa. En næstu tvö þá borðaði ég grautinn með fýlusvip (er enn ekki búinn að sætta mig við skeiðina) ropaði og leið svo rosalega vel á eftir (fýlusvipur alveg horfinn) að ég er sofnaður klukkan tíu, og vakna ekkert aftur fyrr en um níu daginn eftir!! Og þá líður mér svo vel að ég er ekkert að vekja mömmu strax, ligg og hjala við bangsana mína og læt fara vel um mig.

sunnudagur, febrúar 27, 2005

Hæ hæ
Í dag er alveg yndislegur dagur, Dóa vinkona mömmu á afmæli í dag, til hamingju með daginn!
Við erum búin að fara á rúntinn, leika við tíkina, fara í fjöru (nema ég svaf í bílnum allann tímann)
Mamma setti inn myndir í tilefni dagsins. Ég er í svo flottum fötum frá langömmu og langafa í Reykjavík, og svo stór strákur í nýjum skóm!! Endilega kíkið á!
Vonandi eru allir hressir og hraustir. Biðjum að heilsa frá Fáskrúðsfirði!

laugardagur, febrúar 26, 2005

Hér er mynd sem tekin er alveg spes fyrir Valgeir afa í Mývatnssveit!!
Kíkið á hér
Og mamma bætti við myndum af mér og Kítöru aðallega. Kítara er svo hrifin af mér, og dótinu mínu, hún er aldrei langt undan til að passa að allt sé í lagi hjá mér.
Það er búið að vera svo gaman í dag. Ég er búin að vera fyrir framan myndavélina hennar mömmu, og er búin að vera að spjalla við Röggu frænku og fleiri í dag. Og allir hafa getað séð mig!! Vildi bara óska að allt þetta fólk kæmi svo ég gæti hitt það líka!!
Mamma fékk sendar myndir frá Rósu ömmu frá því að mamma var lítil. Hún setti inn myndir af sér, svo fólk gæti athugað hvort einhver svipur sé með okkur mömmu. Svo gæti ykkur bara þótt gaman að sjá hvernig mamma var þegar hún var lítil!! Hérna eru þær
Hæ hæ
Í gær fékk ég í fyrsta skipti graut að borða! Hrísmjölsgrautur blandað saman í formúlumjólkina mína eftir ströngustu reglum sem gefnar eru upp aftan á pakkanum frá Gerber. Ég varð afskaplega reiður þegar mamma og pabbi fóru að gefa mér að borða með skeið! Þetta gekk ekki nógu hratt fyrir sig, ég fékk ekki nógu mikið nógu hratt, ég gat ekki sogið þetta - þetta var alveg ómögulegt og ég varð alveg hoppandi reiður, mamma sagði að ég hafi orðið fjólublár af reiði. Allavega eru lungun mín í fínu lagi, og það er nóg loft í mér!
En þetta var samt sem áður ágætt á bragðið, og loks þegar ég náði mér niður af reiðinni var afskaplega gott að sofna með fullan mallann af þessu gumsi.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Hæ hæ - ég er tveggja mánaða í dag!!
Héðan er allt gott að frétta. Búið að vera yndislegt veður og við erum búin að fara mikið út að labba. Má segja að það sé svolítill vorfílíngur í loftinu.
Ég stækka bara og stækka. Duglegur að borða og sofa, og er alltaf jafn glaður og hraustur. Mamma setti inn nokkrar nýjar myndir af mér sem þið getið skoðað hér. Þetta eru 2 mánaða myndir af mér, ég ligg á gólfinu í tölvuherberginu hennar mömmu og er að leika mér, mér finnst svo gaman að tala við dótið mitt. Svo eru myndir hér þar sem við erum td að máta nýja kengúrupokann minn!

mánudagur, febrúar 21, 2005

hæ hæ - ég er svo flottur strákur - ég er nefnilega farinn að grípa hluti!!! Mamma sá í gær að ég var að skoða puttana, var ekki alltaf með kreppta hnefa og var að fálma eftir pelanum. Svo í morgun þá sýndi hún mér dót sem auðvelt er að taka utan um, sem er afskaplega fallega rautt á litið og ég tók það af henni!! Mamma er svo stolt af mér að hún getur varla beðið með að monta sig við fólk!
Svo var konudagurinn í gær. Rosalega gott veður og mamma og pabbi fóru með mig í góðan labbitúr um bæinn. þar sem ég var vakandi þegar þau komu aftur að Hótel Bjargi þá tóku þau mig með inn í konudagskaffið sem pabbi bauð mömmu í af tilefni dagsins. Þar sat ég í fanginu á þeim (til skiptist á meðan þau snæddu kökur) og horfði í kringum mig. Varla að ég hafði tíma til að borða (drekka pela) sjálfur, en það var ofboðslega gaman að fylgjast með öllu fólkinu.

laugardagur, febrúar 19, 2005

Ég bara varð að deila því með ykkur að ég er rosalega hrifinn af litum. Og í dag sá ég eitt sem mér finnst afskaplega fallegt, bara með því fallegra sem ég hef séð. Það eru jólaseríur. Mamma er með rauðar seríur í tölvuherberginu sínu og hún kveikti á þeim fyrir mig í dag. Núna sit ég og tala við seríurnar. Rauð ljósin eru svo ofboðslega falleg.
Halló allir saman!
Héðan er allt gott að frétta. Ég stækka og stækka. Fullt af fötum sem eru orðin of lítil á mig! Mamma tínir reglulega úr kommóðunni, þvær og stetur í kassa. Ég er meira að segja að verða of stór í Ferrari gallann sem afi og amma í Mývatnssveit gáfu mér!
Ég er alveg svakalega duglegur að borða, æli aldrei, ropa og held áfram að sofa. Mér líður alveg afskaplega vel. Sef núna nær allar nætur, vakna eldhress á morgnana, svo gaman að tala við og knúsa mömmu. Vona líka að veðrið fari að hlýna svo ég geti farið oftar út að lúlla í vagninum. En undanfarið er varla hægt að fara út vegna kuldans. Mamma og pabbi fara með mig í hvert skipti sem veður leyfir, út að labba. Þau finna hvað ég er miklu hressari eftir að hafa fengið að sofa úti í góða loftinu. Það er kannski ekkert skrýtið að ég sé að stækka svona eins og ég geri. Mér líður svo afskaplega vel!

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Hæ hæ
Þetta líf er dásamlegt! Ég sef vel á næturnar núna, líður svo vel þegar ég vakna að ég tala við allt sem ég sé; teppið mitt, stólinn minn dudduna og pelann. Mest er þó gaman að tala við mömmu þar sem hún svarar mér og mér finnst alveg snilld að láta tala við mig.
Ég er alveg súper í mallanum núna, og er svo duglegur að sofa. Mér finnst samt gaman að fá að vaka aðeins á kvöldin, í rólegheitum, bara sitja í stólnum mínum og fylgjast með því sem er að gerast í kringum mig. Vil samt ekki að mamma fari langt í burtu frá mér, ég vil hafa hana í sjónmáli, annars verð ég frekar fúll.
Mér finnst líka alveg ágætt að fá að sitja í stólnum mínum niðri í tölvuherbergjunum, annað hvort hjá pabba eða inni hjá mömmu. Ég er allavega alveg "yndislega meðfærilegur þegar ég er vakandi" segir mamma mín.
Fórum til Egilstaða í gær. Mér finnst svo ágætt að sofa í bílnum. Versluðum í Bónus, bleyjur - þær kosta 1000,- minni í Bónus heldur en í búðinni heima á Fásk!! Mömmu blöskraði og keypti 210 bleyjur handa mér! - ætti vonandi að duga eitthvað!
Annars finnst mömmu og pabba bara ágætt að gera sér dagamun og skreppa til Egilstaða til að versla bleyjur handa mér - en það borgar sig fyrir þau.
Mamma setti inn 2 nýjar myndasíður - önnur er af fæðingardeildinni hin er þegar afi og amma úr Mývó komu í heimsókn

laugardagur, febrúar 12, 2005

Hæ hæ
Í dag fengum við skemmtilega heimsókn úr Mývatnssveitinni. Þórhalla móðursystir og Lárus maðurinn hennar kíktu á okkur. Ég vaknaði aðeins til að sýna mig, annars svaf ég nær allann tímann sem þau voru hjá okkur. En mömmu fannst rosa gaman að fá þau í heimsókn - takk fyrir komuna!!
Ég og Kítara erum bestu vinir. Hún passar mig allavega þegar ég ligg og hef það náðugt með dótinu mínu. Eins og sjá má á myndunum.

föstudagur, febrúar 11, 2005

Halló halló!
Bara að láta vita að mamma var að bæta inn myndum af mér - svaka flottur gaur!!! Kíkið á þær hérna

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Halló halló!!
í dag var svokallaða 6 vikna skoðun - þó að ég sé reyndar orðinn 7 vikna. Og þá skoða bæði ljósmóðirin og læknirinn mig. Og viti menn, ég er orðinn ekkert smá stór! Ég er 57 cm, og 5320 gr! Þetta þýðir að ég hef verið að stækka um einn cm á viku og er 2 kg þyngri en ég var þegar ég fæddist!! Annars fékk ég flotta skoðun, læknirinn var mjög ánægður með mig og hvernig ég stækka og dafna.
Annars er allt við það sama. Ég er farinn að sofa oftar úti í vagni, þegar veður leyfir. Og mamma og pabbi eru duglega að fara út með mig að labba, einnig þegar veður leyfir. Mér finnst afskaplega gott sofa úti.
Ég er fínn núna í maganum. Sef vel á næturnar. En er svolítið frekur á að vilja vera vakandi, og oft er ég ekkert á því að sofna, vil bara að það sé haldið á mér.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Sælt veri fólkið!!
héðan er allt gott að frétta. Er búinn að vera pirraður í maganum, en svo hættu mamma og pabbi að gefa mér þessa Minifom dropa sem allir segja að séu ómissandi ef maður er að drekka þurrmjólk, og viti menn - ég snögg skánaði í maganum, ropa eðlilega, og er að ná upp svefninum á næturnar aftur. En við áttum nokkrar strembnar nætur í sl viku.
En ég fer oftar núna út í vagninum, þe þegar það er ekki brjálað rok. Og mér finnst afskaplega gott að sofa úti í vagninum.
En ég verð að monta mig af fallegu peysunni sem amma og afi í Mývó færðu mér um helgina og smellti mynd af henni inn á myndasíðuna mína. Svo setti ég inn myndirnar sem mamma tók af mér þegar við vorum í tískusýningarleik, og ég er að máta gasalega gæjalegar buxur frá Þórhöllu frænku. En mamma fattaði að ég er að stækka og er að stækka hratt. Föt sem hún hélt að ég myndi ekki nota nærri þvi strax eru alveg passleg á mig núna. En hverjum líkist ég? Það hafa komið margar skoðanir á því!!
Svo eru myndir sem mamma stalst til að taka af mér sofandi. En ég hreyfi mig mikið í svefni. Er mikið að spyrna mér í og stundum vek ég mömmu á næturnar bara til að færa mig aftur á sama stað í rúminu. En stundum (eins og sést á myndinni) er ég komin alveg út í horn, en sofna í miðju rúminu!
Takk fyrir allar kveðjurnar í gestabókinni! Gaman að sjá þegar fólk skilur eftir sig spor á síðunni minni :-)

laugardagur, janúar 29, 2005

Rosalega gaman í dag!! Afi minn og amma í Mývatnssveit komu í heimsókn í dag!! Þau komu um hádegisbil, en ég svaf heillengi þótt þau væru komin, amma var meira að segja komin á það að vekja mig svo hún sæi eitthvað af mér vakandi. Það var eins og ég fyndi það á mér og ákvað að vakna. En sl nótt var frekar strembin þar sem ég er með eitthvað í mallanum - kallast ungbarnakveisa, og hélt pabba vakandi alveg fram undir morgun.
Ömmu og afa finnst ég svaka flottur, og amma segir að ég sé orðin rosalega myndarlegur og mannalegur miðað við hve ungur ég er. Hrósaði því hve vel ég held haus, og að ég sé að reyna að grípa hluti, hve vel ég fylgist með og hreyfi augun til að fylgjast með. Og svo hló hún þegar hún komst að því hve mikill mömmustrákur ég er. En ég vildi helst bara vera hjá mömmu minni, og ef ekki þá vildi ég helst að hún héldi um hendurnar á mér, eða væri þar sem ég sæi hana.
Svo er ég líka enginn smá gaur í rauða flotta Ferrari gallanum sem hann afi minn gaf mér þegar ég fæddist en gallinn er keyptur í Ferrari búð í Dublin!
Amma og afi færðu mér rosalega fallega peysu og húfu. Hún er prjónuð af ömmu Sylvíu og Hjartar Smára. Mamma ætlar að setja mynd af henni á netið því hún er svo montin með hana! Vonandi setur hún myndir af mér í Ferrari gallanum líka með afa og ömmu!! Pabbi vill taka það fram að þó að ég sé í Ferrari galla þá endurspegli það ekki allar skoðanir á heimilinu.

föstudagur, janúar 28, 2005

Halló halló
Í gær var fyrsti baðdagurinn minn. Þá á ég við að ég fór í fyrsta skipti í "baðkar" sem reyndar er bali og var staðsettur á eldhúsborðinu okkar þar sem við erum ekki með baðkar. Mér fannst þetta fínt til að byrja með, en varð frekar fljótt þreyttur á þessu. Má þá heldur biðja um að fara í almennilega sturtu með pabba. En mér leið afskaplega vel á eftir. Fékk vel að borða og sofnaði svo sæll og glaður með þetta allt saman og svaf vel. Og að sjálfsögðu voru teknar myndir af þessu sem eru komnar í albúm no 2. Pabbi tók líka vídeó af okkur en það er til sýnis fyrir þá sem nenna að koma alla leiðina austur til að heimsækja okkur :-)

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Halló allir nær og fjær
Í dag kom ljósmóðirin til okkar. Hún vigtaði mig og ég er núna 4690 gr!! hef þyngst nær um heilt kíló á hálfum mánuði. Ljósmóðirin sagði að ég væri svo flottur, sterkur og hraustur, og henni brá þegar hún sá mig og hve mikið ég hafði stækkað. Hún sagði að ég væri alls ekki feitur, en mamma og pabbi skyldu passa það samt að ég færi ekki að fitna of mikið. Ég sem sagt fæ flotta einkunn hjá henni - og mamma og pabbi voru rosa stolt af mér.
Ég svaf í fyrsta skipti úti í vagni í gær. Var svo gott veður að mamma og pabbi ákváðu að prófa. Og mér leið svo vel, svaf svo vel úti í hreina loftinu. Enda vil ég fara aftur út í dag. Og núna fer að verða göngufæri um bæinn svo mamma getur farið með mig í göngutúra.

mánudagur, janúar 24, 2005

Hæ hæ
stór og skemmtilegur dagur í dag. Í dag er ég mánaðar gamall! Og hef ég stækkað svo mikið á einum mánuði!!
En það er ekki allt. Ég byrjaði daginn á að vakna, horfa í augun á mömmu og senda henni mitt blíðasta bros sem ég átti til. Það var svo gott að sjá hana koma til mín, og þetta er í fyrsta skipti sem ég geri þetta! Hún var rosa hamingjusöm með mig!
Og það fynda er að akkúrat í dag fékk ég sendingu frá uppáhalds frænda mínum og frænku í Mývatnssveit, Hirti Smára og Sylvíu Ósk. Þau sendu mér svona leikfanga óróa sem getur verið í rúminu mínu, og seinna meir á gólfi og ég legið undir því, og leikið mér. Mamma og pabbi pússluðu þessu saman fyrir mig og settu í rúmið mitt, og ég lá heillengi undir og starði á þessa fallegu hluti og þessa fallegu liti. Ég er nefnilega farinn að skynja litina, og finnst gaman að sjá þetta allt hreyfast! Þið getið séð myndir af mér og flotta óróanum mínum á myndasíðunni minni. Í pakkanum voru líka ofboðslega flottir skór, ég verð enginn smá gaur þegar ég fer að nota þá - þá verð ég líka orðin svolítið stærri - þeir eru enn of stórir á mig. En ég gruna mömmu mína um að hlakka svolítið til að geta farið að klæða mig í flottu fötin sem ég er búinn að fá, en þau eru öll of stór enn. Verð þvílíkur töffari þegar ég stækka!!
Takk kærlega fyrir mig - æðislega gaman að fá svona flottar sendingar!

sunnudagur, janúar 23, 2005

Hæ hæ
Í dag fór ég í fyrsta skipti í sturtu! Pabbi fór með mig og mér þótti það rosalega notalegt. Volgt vatnið, og svo hlýtt og mjúkt handklæðið hjá mömmu á eftir. Og svo fylgdi góður peli í kjölfarið. Enda sofnaði ég vel og lengi á eftir. En ég hef verið svolítið pirraður í maganum undanfarið og verið að vakna oftar.
Ég er farinn að vaka lengur núna, finnst gaman að sitja í stólnum mínum (bílstólnum sem ég vil helst allaf vera í) og horfa í kringum mig. Það er margt svo spennandi að gerast og ég sit og brosi að því öllu saman.

föstudagur, janúar 21, 2005

Fjórar vikur! Í dag er ég búin að vera til í heilar fjórar vikur!! Tíminn er búinn að vera fljótur að líða - enda hef ég verið sofandi mest allann tímann. Mömmu finnst ég hafa stækkað rosalega mikið, og hún hefur áhyggjur af því að ef hún loki augunum þá missi hún af mér svona litlum og sætum (en ég er náttla obbosslegt krútt)
Og við settum inn áðan restina af myndum sem teknar voru af mér á mínum fyrstu fjórum vikum! Það er satt - ég er fljótur að stækka. Við biðum og biðum eftir ljósmóðurinni í gær, en hún kom aldrei. Enda var veðrið ekkert til að hrópa húrra yfir. Svo í rauninni þá vitum við ekki nákvæmlega hvað ég er þungur. En mamma segir að ég hljóti að vera komin yfir 4kg, hún segir að ég hafi þyngst svo mikið.
Aumingja Kítara bíður bara eftir því að ég verði nógu stór til að leika við hana með boltann - en hún vill oft vera góð við mig og gefur mér boltann sinn (leggur hann ofur varlega í stólinn minn) það verður gaman þegar ég get farið að leika við hana!!!

þriðjudagur, janúar 18, 2005

hæ hæ
það er allt gott að frétta af okkur. Ég þyngist og þyngist, fer bráðum að fá smá bumbu. En ég er duglegur að vakna til að drekka. Er með þétt prógramm við að vakna, láta skipta um bleiu, drekka og sofna aftur. Ég hins vegar læt líða lengra á milli á næturnar.
Mamma heldur að augun mín verði blá eins og augun hans pabba, þau eru farin að lýsast svo mikið núna. Hárið mitt er enn ljóst svo sennilegast fæ ég ljósu krullurnar og bláu augun hans pabba. Svo fer jafnvel að líða að því að ég fari að halda haus sjálfur! Það verður svo miklu þægilegra því ég er alltaf að fá meiri og meiri áhuga á því sem er að gerast í kringum mig. Mér finnst rosalega gaman að sitja í fanginu á mömmu og pabba og horfa í kringum mig.

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Hæ hæ !
Þórey ljósmóðir sem sinnir ungbarnaeftirlitinu hérna kom til okkar í dag. Ég var vigtaður og mældur í bak og fyrir, og hef ég þyngst um 240 gr á viku. Ég sem sagt mælist 3790 gr í dag. Og hún var afskaplega ánægð með okkur öll. Ég er mjög duglegur að borða (finnst gott að borða enda hef ég ekki langt að sækja það) og ég er búinn að vera mjög duglegur að sofa, finnst gott að sofa (hef sennilegast heldur ekki langt að sækja það). Ég er afskaplega rólegur og góður, en get látið heyra í mér ef mér finnst eitthvað ekki eins og það á að vera!

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Hæ hæ !
þá er síðan loksins komin í loftið með link yfir á aðra síðu sem hefur að geyma flottar myndir af mér! Þar sem ég bý svo langt frá öllum ættingjum og vinum þá er best að hafa góða síðu þar sem allir geta fylgst með mér og séð mig stækka og þroskast.
En ég heiti sem sagt Gabríel Alexander, eða kem til með að heita það. Mamma og pabbi hafa ekki ákveðið enn skírnardaginn minn, og eiga í smá vandræðum með að ákveða hvar eigi að skíra mig. En þau eru þó komin með skírnarkjólinn. Það er kjóll sem amma Rósa saumaði og hafa margir verið skírðir í þeim kjól.
Ég ákvað að koma í heiminn og byrja að upplifa þetta ævintýri sem lífið er 24. desember 2004 kl: 13:38 á Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar. Ég er jólabarn Akureyrar þar sem ég var sá eini sem kom í heiminn á Akureyri þann dag. Pabbi minn var viðstaddur fæðinguna og var algjör stoð og stytta fyrir mömmu.
Ég var 13 merkur og 50 cm þegar ég kom í heiminn.
Ég fékk smá gulu og léttist svolítið og vorum við mamma þar af leiðandi heila viku á fæðingardeildinni. En það fór afskaplega vel um okkur. Starfsfólkið þar er alveg yndislegt í alla staði. Td var dekrað við okkur á aðfangadag þar sem ég var eina barnið á deildinni.
Tveggja vikna gamall var ég kominn vel yfir fæðingarþyngd mína og er alltaf að þyngjast og stækka.