mánudagur, desember 29, 2008

Jólamyndir á netið

Hæ hæ !

Mamma er búin að setja jólamyndir á netið:

Afmæli og aðfangadagur.

Jólaball 28. desember í Skjólbrekku.

Dimmuborgir 29. desember.

Og fleiri á leiðinni !!

 

DSC04454

fimmtudagur, desember 25, 2008

Takk fyrir mig

Gleðileg jól og takk fyrir mig!! Við mamma viljum þakka ykkur öllum fallegu gjafirnar sem við fengum !

Ykkar 4 ára gamli strákur

Gabríel Alexander

DSC04391

ps: þessi mynd er tekin 24. desember kl 07:52 við opnun fyrstu afmælispakka... pakkaflóðið entist svo allan daginn :o)

miðvikudagur, desember 24, 2008

Til hamingju með afmælið Gabríel

HÆ hæ !!! ég á afmæli í dag !!! Loksin skom þessi stóri dagur og það er búið að vera rosalega gaman!! Hraunbergsfólkið kom í kaffi og ég er búinn að fá fullt af flottum pökkum !! Hjörtur hjálpaði mér að kubba flottan bíl sem þau gáfu mér í afmælisgjöf og systkinin í Hraunbergi og Hjörtur kenndu mér að spila UNO :o)

Takk fyrir mig og Gleðileg jól!!!

DSC04455

fimmtudagur, desember 18, 2008

Kartafla í skóinn...

Umræður um háttatíma. Áttu sér stað um 20:20 í kvöld:

Mamma: Gabríel minn ef þú verður ekki þægur og ferð að sofa núna þá gefur jólasveinninn þér kartöflu í skóinn"

Gabríel: mamma, þá borða ég hana bara...

- og málið útrætt...

Christmas_Toys

þriðjudagur, desember 16, 2008

hor og skóli

hæ hæ! ég er hress og kátur.  Og ég fór í skólann í morgun! Og ég mætti í Arsenal bolnum.  Mamma sagði að það væri allt of kalt til að mæta í stuttbuxunum, jafnvel þó ég væri í sokkabuxunum innanundir.  Hún setti mig meira að segja í rauðan rúllukragabol innanundir Arsenal bolinn! En ég sætti mig við það þar sem ég vissi að ekkert þýddi að ræða þetta frekar. 

Mamma sækir mig svo í dag - hún er hætt að vinna til 6  og við ætlum að sækja 2 seríur og setja upp heima í síðustu gluggana! Ég fékk að skreyta baðherbergisspegilinn okkar í gær með jólasveinunum sem amma Rósa gaf mér í fyrra :o)

Jámm ég er alveg eins og ég á að mér að vera með fjöldaframleiðslu af hori :o)

DSC04373

mánudagur, desember 15, 2008

Arsenal strákur

hæ hæ !! afi minn kom og sótti mig á föstudaginn í skólann og ég var svo ánægður að þegar ég heyrði röddina í honum kom ég hlaupandi fram kallandi "afi afi afi afi minn" - spurði svo afa hvar amma mín væri, hann svaraði að hún væri heima, og þá svaraði ég um hæl "afi þá skulum við fara heim til ömmu"

mikið var ég glaður!

mamma kom svo eftir vinnu á laugardag.  Kannski var þetta bara síðasti laugardagurinn hennar í vinnu !! i nýju vinnunni er engin helgarvinna og hún er annað hvort að vinna til 4 eða 5 - en allavega þá aldrei til 6 !

Hjörtur frændi kom í heimsókn um kvöldmat. og vitiði hvað.. hann gaf mér Arsenal fótboltabúning.  Og ég er búin að vera í honum nánast alveg síðan!! Vá hvað ég var hrifinn.  Hjörtur frændi og Sylvía halda sko með Arsenal, og þau eru byrjuð að kenna mér ýmislegt og til dæmis það að halda með Arsenal!  Og ég er svo hrifinn af þeim að ég er mjög fljótur að tileinka mér þeirra kennslu :o)

Við mamma erum heima.  Ég kvartaði um í eyrum um helgina. Og mamma mældi hita í mér í gær svo hún ákvað að halda mér heima í dag.  Og við erum búin að hafa það rosalega gott.  En hún telur mig það hressan að ég fari í skólann á morgun. 

Hérna er mynd af mér í Arsenal:

DSC04366

mánudagur, desember 08, 2008

Emil í Kattholti

hæ hæ!!

við mamma fórum í sveitina um  helgina og var afskaplega gaman!! Ég hafði hlakkað svo til að hitta afa og ömmu og ég lék á alls oddi þegar við komum.   Byrjuðum á að fara með súbbann upp í Grænar til að leyfa honum að standa inni og þiðna.  Svo var hann þrifinn með bónsápu og er hann svona líka glimrandi flottur á eftir !!

það var laufabrauðsgerð hjá afa og ömmu.  Og við mamma og amma fórum á Emil í Kattholti á Húsavík á laugardag.  Þetta var í fyrsta skipti sem ég fer í leikhús og ég skemmti mér konunglega.  Sátum á fremsta bekk sem var afskaplega gott - amma gat teygt úr löppunum, og mamma fékk næstum súpuskálina í hausinn, en það voru engir fyrir okkur.  Ég hélt reyndar fyrir eyrun þegar pabbinn gargaði "Eeeemiiiil strákskratti" En ég var afskaplega duglegur og skemmti mér rosalega vel!!!

Við mamma mælum með þessari sýningu!!

Svo var haldið áfram að skera og skemmtilega fólkið úr Lynghrauni kom! Ég fékk að vaka lengur! og var ég að horfa á fótboltann með Hirti! Sylvía og Áslaug komu líka og ég var afskaplega kátur að hitta alla.  Mamma og Áslaug klipptu mig svo á sunnudag! Sylvía frænka er alltaf svo vel klippt, Áslaug á heiðurinn af því. Mamma byrjaði og Áslaug kom henni til bjargar :o)

Auðvitað var farið í fjárhúsin  um helgina og kíkt á Jenna.  Gaf Rindli brauð og Lukku minni.  Hún vonandi gefur mér lömb í vor!

Já ég var alsæll með helgina og mamma líka.  Við áttum góða og notalega stund heima í gær.  Ég fékk td að opna dagatalið mitt - átti 3 óopnaða daga he he !

Vonandi áttuð þið góða helgi líka - ykkar Gabríel Alexander

gah_23.11.08

fimmtudagur, desember 04, 2008

Kakóferð

hæ hæ !

Ég var þreyttur í morgun. Svaf ekkert allt of vel í nótt og auðvitað vakti ég mömmu líka :o) Er farinn að telja niður dagana í jólin, og í dag eru 20 dagar :)

Það var kakóferð í gær í skólanum.  Fórum á Bautann í kakó og kleinuhringi og það var rosalega gaman! Fórum með strætó!! og svo fengum við að leika okkur í fiskaherberginu.  Og og svo horfðum við á Nemo.  Ég færði mömmu rosalega fallegt hjarta sem ég hafði litað sjálfur á þegar hún sótti mig í gær :)

Ég á súkkulaðidagatal sem við mamma gleymum að opna á morgnana.  Það er líka gaman að opna þegar ég kem  heim á daginn. 

Mamma fékk lánaða mynd af síðunni úr leikskólanum til að setja inn hérna af okkur í kakóferðinni:

IMG_6093

þriðjudagur, desember 02, 2008

Foreldrakaffi

hæ hæ

aftur lætur mamma líða heila viku án þess að setja inn smá pistil.  Kannski vegna þess að að það er lítið að frétta.  22 dagar í jól, sem þýðir 22 dagar í afmælið mitt og ég er farinn að telja niður með aðstoð jóladagatals :o)

Við erum hress og hraust, og nóg að gera.  Það var foreldrakaffi á föstudaginn síðasta með kaffi og bakstri sem við krakkarnir gerðum.  Mamma og pabbi mættu bæði.  Ég varð rosalega ánægður með að hafa þau bæði þarna og var alltaf að skipta um læri til að sitja á.  Og það endaði þannig að ég neitaði að fara og leika bolann í "Baulaðu nú Búkolla mín"

Og þá um helgina var ég hjá pabba.  Og við fórum til Reykjavíkur að sækja hana Þrumu.  Ég er voða hrifinn af henni og búinn að segja mömmu minni allt um hana.  Og vonandi er í lagi að hún noti mynd sem pabbi á af mér hérna með henni :)

þrumuferð 019

Annars er ég bara kátur.  Við mamma settum upp smá aðventudót - þe mamma setti upp og ég snérist í hringi.  Og talaði stanslaust.  Næstu helgi er áætluð laufabrauðsgerð og að fara í í leikhús - sjá Emil í Kattholti á Húsavík! Það verður nú gaman!!

mánudagur, nóvember 24, 2008

Jólasveinar í Dimmuborgum

Hæ hæ! Mánudagur og ég er mættur í leikskólann eftir góða og skemmtilega helgi.  Við mamma fórum í sveitina á föstudaginn.  Hún skoraði mörg stig þegar hún var með nesti handa mér- popp í poka!! Ég svangur eins og alltaf; hámaði í mig og var sofnaður áðurn en við komum að Víkurskarðinu!

Lék á alls oddi.  Var búinn að hlakka svo ofboðslega til að hitta afa og ömmu.  Og á laugardag þá byrjuðum við á að fara öll saman í Belg.  Kindurnar eru orðnar heldur frekar á brauðið og standa með framlappir í garðanum þannig þær ná höfðinu hærra en ég og eru allar í kringum okkur.  Ég bara fór ekkert inná garðann.  Mamma var þar með brauðið og þær voru farnar að narta í úlpuna hennar til að láta vita af sér :)

Eftir hádegi voru jólasveinarnir í Dimmuborgum með uppákomu. Við mamma og amma fórum, Þórhalla frænka, Lárus og Hjörtur Smári mættu líka.  Það var rosalega gaman.  Einn jólasveinninn sagði mér að amma mín hafi nú ekki alltaf verið þæg lítil stelpa, hafi oft fengið kartöflu í skóinn!  En hún hafi nú farið batnandi með árunum.  Ég sko gleypti þetta hrátt og starði með mínum stóru bláu augum á ömmu mína og jólasveininn. Alveg hissa á þessu. Ég fékk íþróttanammi hjá þeim og svo var haldið í Skjólbrekku i heitt kakó og flatbrauð með hangikjöti.  Var reyndar fleira á boðstólnum en brauðið var það sem ég vildi :o)

Sunnudag byrjuðum við á að fara í fjárhúsin og sama sagan var með frekjuna í kindunum :o) Og við kíktum í reykhúsið sem er gamla eldhúsið í Belg, þegar Belgur var torfbær! Jenni man meira að segja eftir sér í þessu gamla húsi! Og afi reykir núna hangikjöt og silung yfir gömlu hlóðunum.  Það eru að meira að segja gömlu pottarnir sem voru notaðir í þessu gamla eldhúsi!

Það eru myndir á flikkrinu okkar af þessu öllu saman!!!

Við mamma fórum í jólahúsið.  Ég fékk að velja mér eitthvað fallegt í boði afa og ömmu og valdi mér flugvél og gröfu, sem eru smíðuð úr tré og eru í gamaldagsstíl. Ég var rosa sæll með þetta allt saman.  Og við mamma settum upp seríur í 3 glugga þegar við komum heim !!

Góð helgi sem við áttum saman!!!

gah_dimmuborgir

fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Löt að skrifa

hæ hæ !!!

afsakið mömmu en hún er löt að skrifa. Það er bara ekki mikið í gangi hjá okkur.  Ég var hjá pabba síðustu helgi og kom sæll heim með það að vanda.  Það snjóar úti, og mamma er farin að tala um jóla þetta og jóla hitt. 

Okkur líður mjög vel.  Ekkert sem er að stressa okkur, tökum hlutunum eins og þeir eru. 

Ég er rosa duglegur, góður og hlýðinn, tek auðvitað skorpur inn á milli, en að mömmu mati þá geri ég það alls ekki oft.  Er stundum að reyna að vera á móti- bara til að ath hvað ég kemst langt, en sé svo að það er ekki að skila mér neinu svo ég bara hætti þvi :)

Við mamma ætlum í sveitina um helgina. Jólasveinarnir i Dimmuborgum verða með húllumhæ og svo heitt kakó á eftir í Skjólbrekku!  Og auðvitað gefa Rindli mínum og Lukku minni brauð. 

Er farinn að tala um að hitta afa og ömmu mína, þó svo ég sé ekki mikill símakall þá tala ég mikið um þau. 

Vona þið eigið góða helgi! 

DSC00451

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

sveitin og pass

hæ hæ !!

Nú snjóar úti, það verður gaman að fara út að leika í dag! 

Ég var í passi hjá afa og ömmu á föstudag á meðan mamma var í vinnunni á laugardaginn.  Hún síðan kom uppeftir þegar hún var búin.  Ég var rosalega duglegur á meðan.  Fór í fjárhúsin með afa, á rúntinn, upp í Grænar, í búðina og fullt fullt fleira.  En gott var nú að fá mömmsu aftur :o)

Við fórum snemma heim á sunnudag. Ég var að tala mikið um bílana mína, og hlakkaði til að leika mér með þá þegar við kæmum heim.  Og það var ósköp notalegt hjá okkur mömmu. 

í gær sótti pabbi mig í skólann og mamma sótti mig þangað þegar hún var búin að vinna.  Og við fórum í appelsínubúðina (Hagkaup) til að kaupa nammi og snakk.  Ég var að fá gesti um kvöldið.  Vinnan hennar mömmu bauð starfsfólkinu á James Bond myndina nýju og Sylvía og Áslaug ætluðu að vera hjá mér á meðan.  Vá hvað ég hlakkaði til . Og það var svo gaman!!

Þegar mamma kom heim úr bíó, var ég enn vakandi. Að leira með stelpunum.  Og það var svo gaman hjá okkur.  Ég sofaði svo sæll og sáttur þegar þær voru farnar.  Útkeyrður bað ég mömmu um að syngja Bubbi Byggir og ég sofnaði út frá því. 

Takk fyrir skemmtilegt kvöld elsku bestu Sylvía og Áslaug :o)

IMG_5141

föstudagur, nóvember 07, 2008

Lukkuláki í gær

hæ hæ !

Allt gott að frétta af okkur!  Mér var boðið í bíó í gær, fór á Lukku Láka með Huldu, Tinnu og Töru.  Ég kom hrikalega sáttur heim, rosalega þreyttur með súkkulaði bros hringinn!

Mér finnst svo gaman í bíó! Mamma knúsaði mig, ánægð með hve ég skemmti mér vel. 

Í dag er stuttur dagur.  Mamma sækir mig í hádeginu og við ætlum í sveitina.  Mamma þarf að vinna á morgun líka, við að telja búðina.  Svo kemur hún í sveitina til mín á morgun :o) ég fæ að vera einn hjá afa og ömmu - sem er alltaf jafn gaman !

IMG_4316

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

49 dagar í afmælið mitt !!

hæ hæ !! já það styttist óðum í afmæli og jól! Við mamma erum byjuð að telja niður og ég er búinn að tilkynna að ég ætli að skreyta jólatréð heima og hjá afa og ömmu.  Er ekki alltaf alveg sáttur á að þurfa að sofa soldið margar nætur í viðbót.  En mamma man að biðin er löng þegar maður er lítill og talar við mig um jólin og afmælið og róar mig. 

Var  hjá pabba um helgina.  Var gaman, kom sáttur heim.  Hljóp í fangið á mömmu í leikskólanum þegar hún sótti mig á mánudaginn.  Og er búinn að skríða uppí mömmuból rétt áður en klukkan hringir á morgnana.  Þetta er eitthvað sem ég er farinn að gera fyrstu dagana eftir ég kem heim. 

Í gær þegar hún sótti mig til pabba var ég hins vegar erfiðari - hann hafði fundið fullt af Lego kubbum, litlum, og vildi ég ekki fara.  Og var með leiðindi.  En ég var fljótur að jafna mig í bílnum og sagði mömmu frá því að pabbi kubbaði mótorhjól, og við vorum að kubba saman.  Pabbi lofaði að kubbarnir yrðu ennþá þegar ég kæmi á morgun :)

Ég er alveg hættur að spyrja um dudduna.  Ekkert vesen!

Það er alltaf jafn gaman á leikskólanum. Snæbjörn vinur minn er mættur á undan mér og kemur alltaf fram skellihlæjandi að taka á móti mér. Yfirleitt kemur hann með dót og við hlaupum inn til að leika ! Jóhannes kemur svo stuttu seinna og erum við farnir að leika okkur. 

IMG_4171

Og takk takk fyrir kveðjurnar í gestabókinni !! gaman að sjá ykkur !

mánudagur, október 27, 2008

Duddulaus stór strákur

hæ hæ ! Já mikið er búið að gerast hjá okkur mömmu.  Mamma er ekki búin að vera mikið í bloggstuði vegna líðandi stunda þar sem ákveðnar breytingar fylgja því að missa vinnuna. 

En við erum kát.  Og mamma sótti mig mikið í síðustu viku og fórum við á snjóþotu og áttum góðar stundir.  Hún segir að þegar henni líður ekki sem best þá sé það besta sem hún veit um að vera með mér.  Þar sem ég er alltaf svo kátur og glaðlyndur.  Við fórum snemma á föstudag til afa og ömmu í sveitinni.  Náðum á undan veðrinu !

Á laugardaginn fórum við með afa að sækja rollu í Voga.  Þar hitti ég hana, hænur, kálfa og kindur allt inni í sama húsinu! Mér fannst þetta alveg frábært!!

Svo kom Hjörtur frændi með okkur í Belg, og þar gaf ég Rindli dudduna mína með athöfn! Og hef varla spurt um hana síðan! Þannig ég er orðinn duddulaus stór strákur!!!

Við mamma komum svo í bæinn í morgun.  Það var allt kolófært í gær og vont veður svo mamma tók enga áhættu og við biðum af okkur vonda veðrið í góðu yfirlæti hjá afa og ömmu!

Takk fyrir okkur elsku afi og amma!

DSC00640

 ps - þið megið alveg kvitta meira í gestabókina :) - það er svo gaman að sjá hverjir skilja eftir kveðu - eins og fá lítin pakka...

fimmtudagur, október 16, 2008

Alltaf nóg að gera

hæ hæ!

það er sko alltaf nóg að gera hjá mér!  Farið að kólna hjá okkur á Akureyri og eftir að afi kíkti á súbbann okkar þá hefur hann ekki klikkað á því að fara í gang  - sama hve kalt er :o)

Við mamma erum búin að eiga góða viku.  Rólóvöllurinn hérna fyrir utan blokkina okkar er klár! Það var verið að endurgera hann, setja gúmmí undir leiktækin, og það komu ný leiktæki.  Nýjar rólur, nýr kastali með rennibraut, nýtt vegasalt.  Allt alveg rosalega flott!! Nú við mamma sóttum hjólið mitt og við fórum út á róló að leika okkur.  Mikið var það gaman!!!

Í gær þá fékk ég að fara heim með Snæbirni besta vini mínum.  Þeir eru reyndar tveir bestu vinir mínir Snæbjörn og Jóhannes. Mamma hans sækir hann alltaf kl fjögur og hún hafði hringt í mömmu og spurt hvort ég mætti fara með þeim heim að leika.  Og það var svo gaman!! Við vorum rosalega stilltir.  Mamma  Snæbjarnar meira að segja gat lært á meðan við vorum að leika, svo stilltir vorum við! Fengum popp og alles!!

Og á eftir fórum við í heimsókn til Önnu og Heiðars. Mamma var að fá uppskriftir af kryddbrauði og bananabrauði hjá henni.  Ég fékk að leika mér í dótinu hans Heiðars á meðan þær spjölluðu.  Heiðar var ekki heima.  Og ég svo duglegur og stilltur!

IMG_4298

Þessi mynd er fengin að láni hjá Flúðum.  Þar eru sko skemmtilegar myndir af guttunum!  Það er greinilega ýmislegt brallað á þeim stað! (frá hægri Aðalsteinn Óli, Gabríel, Snæbjörn Atli og Jóhannes Geir)

endilega kíkið á myndirnar: Flúðir myndir Risaland.

mánudagur, október 13, 2008

Í sveitinni

Halló halló!!

gah_is2Mamma kom og sótti mig snemma á föstudag!  Mér finnst svo rosalega gott þegar hún sækir mig svona snemma.  Vikan búin að vera erfið, mamma var að vinna 3 daga í röð til 18:00.  Ekki misskilja, mér finnst gaman þegar pabbi sækir mig, en ég var farinn að sýna mótþróa við mömmu, fannst hún ekki vera nógu mikið með mér.  Þess vegna fyrirgaf ég henni allt fullkomlega á föstudaginn þegar hún sótti mig klukkan 16:00 og við fengum okkur ís!

Fórum svo til afa og ömmu í Mývatnssveitina!  Ég vildi ekki bíða til laugardags, heldur fara strax! Og það er svo gaman að koma.  Afi go amma eru alltaf jafn yndsleg og ég var búin að segja mömmu að ég hlakkaði til að hitta þau!

rindill_gabrielaÁ laugardag fórum við svo með afa í fjárhúsin! Rindill og Gabríela (Lukka) voru komin heim!! Og þau mundu sko eftir mér - komu hlaupandi á móti mér og vildu fá brauð! Hinar kindurnar mundu líka eftir mér - þær allavega hreyfðu sig ekki þótt ég hlypi um garðana.  Ekkert styggar við mig.  Mér fannst þetta alveg frábært!! Og hitti ég Jenna líka, fékk mér mjólk og kex.  Á myndinni eru afi, Rindill (svartur og hvítur) og Gabríela (Lukka) sem er kindin mín :) - svört og hvít líka :o)

Svo höfðum við það ljómandi gott.  Ég fékk að horfa á barnaefnið uppí í rúminu hans afa á meðan ég beið eftir kvöldmatnum.  Fór að leika íþróttaálfinn, datt úr rúminu og fékk kúlu á ennið.  En ekkert sem ég gleymdi næstum strax.  Fékk reyndar plástur.  En það var meira plástur á sálina en hitt.  (kom ekkert sár)

Í gær horfðum við á formúluna hjá afa go ömmu.  Með tilheyrandi snakki og ídýfu! Algjör lúxus! Og á eftir fórum við mamma heim á Akureyri. 

Við mamma nefnilega fórum í bíó!!  Fórum að sjá Grísina þrjá, og það var svo gaman!!  Mér finnst svo gaman að fara í bíó.  Þá fæ ég alltaf popp og kók og smá nammi.  Og ég er rosalega þægur! Og hlæ hjartanlega þe gar eitthvað skemmtilegt kemur.  Í hléinu þá fæ ég að hlaupa um og hlæja, meðan mamma bætir aðeins í poppið mitt og svo hlýði ég strax þegar myndin er að byrja og ég á að setjast! Ég var og er svo sæll með þetta allt saman! Og mamma svo montin af mér fyrir hvað ég var þægur og góður í bíó!

Í morgun þá var nú nóg að gera! Ég fór í fyrsta skiptið til tannlæknis! Mamma fann tannlækni í gegnum vinnufélaga sinn sem á 3 stráka sem eru hressir eins og ég og hann mælti með þessari konu.  Hún var líka rosalega fín.  Náði til mín um leið, greinilega mjög barngóð, og vissi alveg hvað hún var aðgera þegar hún talaði við mig.  Tennurnar mínar eru rosalega fínar og vel burstaðar.  Og hún hrósaði okkur fyrir það.  Henni finnst gaman að sjá svona fínar tennur í barni. En ég er með krossbit.  Sem þýðir að gómurinn er aðeins skakkur.  Það er ekki duddunni að kenna, þetta er í hliðinni á tanngarðinum.  Mamma spurði hvort þetta væri vegna duddunnar en hún sagði nei.  Hins vegar er ég með smá duddufar í framtönnum, og við ákváðum í sameiningu að ég myndi gefa Rindli dudduna mína´! Og ég var svo duglegur !! Ég settist í stólinn, opnaði, leyfði henni að skoða tennurnar og allt!!

J'amm ég er sko að fullorðnast!!!

laugardagur, október 04, 2008

Pabbahelgi

hæ hæ !

IMG_4015

Vá hvað tíminn líður hratt.  Ég skal sko segja  ykkur að ég tilkynnti mömmu minni í vikunni að ég ætlaði sko að skreyta jólatréð hjá afa og ömmu.  Mamma bara starði á mig og spurði mig hvað í ósköpunum fengi mig til að hugsa um jólin... svaraði henni ekki.  En ég held að hún hafi orðið svolítið kát því ég veit að hún er farin að hugsa til jóla sjálf :o)

Við áttum góða viku.  Mamma fann Spiderman myndir til að líma yfir holurnar á veggnum sem komu þegar hún var að reyna að setja upp hilluna mína þarna um daginn.  Ég hef ekki hætt að minna hana á holurnar "mamma mín það eru enn göt í veggnum mínum"  - málið var að hún þurfti höggborvél til að setja upp hilluna en okkar gula er ekki svo mikil græja.  Svo hún setti upp hilluna á öðrum vegg í staðinn.  En eftir voru göt í veggnum. 

Jamm það er sem sagt búið að setja rosalega flotta spiderman límmiða yfir þá :o) - og hún kom með svona glóir í myrkri stjörnur og tungl líka sem ég setti sjálfur upp! Núna er dimmt þegar ég fer að sofa, svo við pössum að láta ljósið skína lengi á stjörnurnar go tunglið svo það glói þegar ég fer að sofa.  Og við settum batterí í jólahúsið mitt.  Mér finnst svo notalegt að horfa á það þegar ég fer að sofa. 

Við mamma fórum í heimsókn til konu sem býr á Fáskrúðsfirði.  Hún er að passa barnabörnin sín hérna á Akureyri.  Hún var bæði með hund og kött og hún gaf mér kex og pönnukökur!! Hún Lára er rosalega góð kona.  Ég bara man ekkert eftir henni, sem er skiljanlegt.  En mömmu fannst rosalega gott að hitta hana.  Þessi kona reyndist mömmu minni rosalega vel þegar hún var ein fyrir austan. 

Annars gengur lífið okkar bara sinn vanagang.  Ég er hjá pabba mínum þessa helgi, og hann skutlar mér í skólann á mánudaginn og mamma sækir mig.  Er án vafa að eiga góða helgi.

Og mamma heyrði í afa  mínum áðan og það sást til kindinnar minnar í Belg :o) - rosalega verður gaman næstu helgi að hitta þær - ef þær þá ákveða að koma heim... en það er ómögulegt að vita þar sem um forystuféð í Belg á í hlut :o)

eigið góða helgi - ykkar Gabríel Alexander

þriðjudagur, september 30, 2008

Snjór snjór snjór!

ég bíð spenntur eftir snjónum !!

Hlakka til að fara á snjóþotu í skólann!!!

IMG_3853

sunnudagur, september 28, 2008

Gaman í sveitinni!!

halló !!!

já það var gaman í sveitinni.   Hjörtur Smári frændi minn gisti hjá okkur á laugardaginn.  Og það var kubbað og leikið.  Mér finnst hann svo skemmtilegur.  Við kíktum aðeins í berjamó í dag og mamma er búin að setja inn myndir á flikrið okkar frá því :o)

hér erum við Hjörtur með ömmu okkar :o)

DSC04106

fimmtudagur, september 25, 2008

Leir og frí í skóla

hæ hæ!

Hér er allt við það sama.  Var hjá pabba síðustu helgi, og mamma sótti mig í skólann á mánudag.  Var að vanda hress og kátur þegar hún sótti mig. 

Við erum búin að eiga góða viku.  Fékk Birnu bangsastelpu með mér heim úr skólanum á mánudag og var það rosalega gaman. Þetta er ekki sama bangsastelpan og býr á Undralandi svo þessi hefur aldrei komið heim með mér áður.  Og við lékum okkur að dótinu hennar sem voru lítil plast dýr.  Og lásum bækurnar hennar.  Við reyndar fórum fyrst með mömmu á fund í vinnunni hennar og vorum svo þæg að sitja og hlusta, mamma var rosalega montin af okkur, og fengum við kleinur og kakómjólk í verðlaun :o) Mamma skrifaði svo í bókina hennar Birnu bangsastelpu sem þau í leikskólanum lásu svo daginn eftir ! Það er alltaf gaman að fá bansastelpuna heim með sér :)

DSC00549Í gær fórum við heim og leiruðum eftir skóla.  Sátum í stofunni heima og leiruðum og hlógum mikið.  Ég fékk að nota piparkökuformin okkar og bjó ég til alls kyns fígúrur, báta og bíla.  Og endaði með að búa til pizzaveislu ha ha ha - þá spurði mamma mig hvort ég væri svangur og ég hélt nú það og borðaði vel af þorskbollunum og hrísgrjónunum sem mamma eldaði handa okkur!!

Sátum svo og kúruðum yfir Simpsons. 

Í dag sækir svo pabbi mig.  Ég gisti þar í nótt þar sem það er frí í skólanum mínum á morgun og mamma mín er að vinna. Við finnum okkur  örugglega eitthvað skemmtilegt til dundurs :o)

Og þegar mamma sækir mig til pabba á morgun þá ætlum við í SVEITINA!!!!

ps elsku mamma viltu pakka dýrunum sem Dóa frænka gaf mér í jólagjöf með í sveitina, ég fann þau öll til í morgun og setti í litlu bílatöskuna mína.  :o)  

fimmtudagur, september 18, 2008

Snjór í fjalli

hæ hæ !!

Ég er alltaf jafn hress. Vaknaði ekkert í rokinu!! mamma var hissa. 

Og þetta sem ég var að æfa mig í er alveg komið á fast skrið.  Garga bara núna "BÚINN"  þegar mamma á að koma og aðstoða mig !! Ekker væl um bíla.  Bara geri mitt og búið mál.  Ég er svo stór!

Við mamma fórum í Fellshlíð síðustu helgi.  Mikið var ég glaður að koma þangað.  Borðaði hellings af kjöti og Hermann gaf mér hrúgu af sultu með kjötinu!! vá hvað ég var sæll með þetta allt!

Var duglegur að fara að sofa og vaknaði kátur daginn eftir.  Við mamma fórum niður og kúldruðumst í leti.  Hermann frændi fór snemma í vinnu og Önnu frænku finnst gott að sofa ha ha ha !

Fórum svo út að skoða alla vélsleðana sem eru til í Fellshlíð og þeir eru sko ekkert fáir!! og Auðvitað varð ég að prufa að setjast á þá alla! Og Trambólín! Guðni Páll - systursonur Önnu á trambólin þarna og ég auðvitað hoppaði og skoppaði þar!.  Og sandkassinn, þar lék ég mér líka !  Það er svo gaman í Fellshlíð!

Og rúsínan í pysluendanum er að þegar Hermann kom heim úr vinnunni þá bauð hann okkur í jeppaferð! Vá hvað ég var ánægður með það! að hossast um í jeppa uppi "fjalli" var rosalega gaman! Fundum gamlar rústir, og uppsprettu!!!

Gistum  hjá afa og ömmu á laugardagskvöld og fórum að smala í Belg.  Horfðum á formúlu og borðuðuðm snakk.  Við Hjörtur frændi minn erum afskaplega duglegir við að borða snakk :)

Já og ekki má gleyma að segja að við mamma kíktum á Sylvíu frænku á þriðjudaginn - hún á froska og salamöndru!!! ég varð solidð hrifinn af þessu.  fannst gaman að sjá þetta hreyfa sig og synda!

gkv_fellshlid

miðvikudagur, september 10, 2008

Skemmtilegur strákur

hæ hæ ! Mamma sótti mig í skólann á mánudag og hljóp ég til hennar og knúsaði.  Við tókum rúnt og ákváðum að kikja inn í Dótakassann og heilsa upp á páfagaukana þar.  Og mamma fann spil handa okkur og ég ætla sko að kenna Önnu frænku og Ömmu minni þetta spil - tilkynnti ég mömmu minni í gær.  Þetta er Bubba Byggir minnisspilið.  Mamma notar ekki öll spjöldin svo þetta er ekki of erfitt fyrir mig.  Og við spiluðum þetta vel og lengi og hlógum mikið.  Merkilegt hvað við kveikjum sjaldan á sjónvarpinu nú orðið.   Tókum einmitt spil í morgun áður en við fórum af stað í skólann náðum ekki að klára svo við geymdum það á borðinu og ætlum að klára þegar við komum heim. 

Annars er ég bara kátur og glaður.  Vakna hress og syngjandi.  Er með fastar skoðanir á hlutunum, td það að kisur geta ekki pissað í grasið/sandinn því þær eru ekki með bibba.  Og svo heita öll útlönd Holland í dag - það gæti breyst á morgun reyndar.  Og ég er alveg ákveðinn í að við mamma förum bæði til Hollands saman. 

Ég ætla í Fellshlíð um  helgina.  Og ég ætla í afabíla.... og þetta tvennt verður ekki samið um....

Ykkar Gabríel.

flottir2

föstudagur, september 05, 2008

Alltaf jafn gaman

hæ hæ !

það er alltaf jafn gaman að vera til! Ég er alltaf jafn duglegur og góður! Er alltaf jafn kátur og ánægður með lífið og tilveruna :O9

Í gær bökuðuðm við mamma skúffuköku og ég fékk skreyta með smartís það var rosalega gaman hjá okkur.  Mamma settir myndir inn fyrir ykkur að sjá á flikkrið okkar!

Um helgina er ég hjá pabba og mun að vanda eiga góða helgi. 

Óska ykkur sömuleiðis góðar helgar!

gah_smartis

þriðjudagur, september 02, 2008

Réttir í sveitinni

hæ hæ!!

Helgin var rosalega skemmtileg! Mamma sótti mig snemma í skólann á föstudag þar sem skólinn lokaði klukkan tólf.  Við mamma nutum dagsins og fórum upp í sveit.  Mamma fór svo inneftir aftur seinnipartinn þar sem Anna frænka og Dóa frænka voru að koma í heimsókn til hennar. Þær hafa örugglega átt gott kvöld vinkonurnar :o)

borda saman Ég allavega átti frábært kvöld hjá afa og ömmu minni.  Enda nýt ég mín alltaf þar! Mamma kom svo uppeftir daginn eftir og þá var gaman! Það kom fullt af fólki í heimsókn, þar sem afi minn ákvað að hafa afmælismatinn sinn.  Langafi og langamma enn fyrir norðan og Reynir langafi! Og svo Jenni kom líka.  Ég naut mín hjá þeim.  Að sitja við borðið og borða með langöfunum og Jenna (þeir gömlu allir komnir yfir áttrætt) Enda kom ekkert annað til greina en að sitja við hliðina á Jenna mínum og borða! Þórhalla frænka, Lárus og Hjörtur Smári. 

Þetta var eini dagurinn sem í raun kom til greina að ná öllum saman! Langafar og langamma á leiðinni suður aftur.  þetta var rosalega gaman! Langamma spilaði við okkur frændurna.  Hjörtur kenndi henni Hrútaspilið og amma mín reyndi að kenna mér veiðimann en ég tók ekki alveg tilsögn þó svo við notuðum barnaspil.

Sunnudag voru réttir.  Voðalega gaman var að sjá allar kindurnar okkar aftur.  Og viti menn þær mundu sko eftir brauði og komu og borðuðu hjá mér brauð þó það væri með tómatsósu og steiktum lauk! Þær voru svo hvítar og fallegar, hlakka svo til að fara í húsin í vetur og gefa þeim.  Ég er svoddan bóndi í mér!

rettir

Mamma er búin að setja inn myndir: Réttarhelgin í sveitinni. Og þess má geta að það er rosalega gaman að skoða myndirnar í "slideshow" sem síðan býður uppá - þá koma þær stærri fram og í réttri röð :o)

fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Þreyttur í dag

Hæ hæ ! Ég átti erfitt með að vakna í dag.  Mamma varð að vekja mig oft til að ég fór á fætur.  Var heldur órólegur í nótt, sem skýrir hve þreyttur ég var í morgun.  Stuttur kveikjuþráður og lítill í mér.  En ég grét samt ekki þegar mamma fór.  En hún varð að koma aftur inn í skóla og kyssa mig bless aftur.  Svo vildi ég bara sitja í fanginu á kennaranum mínum þegar ég veifaði henni bless í gegnum gluggann. 

Mamma hugsar núna örugglega "ég vona að hann sé ekki að verða veikur.... " Ég ætla sko ekkert að verða veikur - verð samt að passa mig þar sem ég er með hornös.  Varð nefnilega rennandi í gær, hafði slitnað bandið á pollabuxunum sem fer niðurundir stígvélin, og farið uppfyrir í stígvélunum.  Svo mamma gróf ofaní poka frá Hafdísi frænku og Jóhanni Haraldi og fann þar aðrar Latabæjar pollabuxur og ég fékk með mér í skólann í dag.  Vonandi helst ég þá þurr.  En mamma hefur horft á mig uppstrílaðan í útifötum og í raun ekki fræðilegur að blotna - en ég næ samt að verða rennandi blautur í gegn... Við erum bara svona við púkarnir á þessum aldri :o)

GAH_ad borda ber

Hérna er ég að borða ber í berjamó.  Mamma fékk myndina að láni frá Risalandsmyndasíðunni.

miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Hress strákur

Hæ hæ !!!

það er kominn miðvikudagur og mamma mín er barasta alls ekkert að standa sig í þessum skrifum hérna!  Biðst afsökunnar á því :o)

En það er bara allt gott að frétta, nóg að gera og fullt af dóti og ekki nægur tímí til að leika með allt dótið! ha ha !

Ég var hjá pabba um helgina og fórum við út í Hrísey með Litlu Hetjunum.  Það var rosalega gaman! Fórum á bát, keyrðum um í kerru aftaní traktor og fékk hamborgara.  Mamma og pabbi og Hulda ákváðu svo að prufa að taka helgina alveg þannig að pabbi myndi skutla mér í skólann á mánudaginn og mamma sækir mig svo þangað eftir vinnu.  Þannig læri ég að það er líka skóli og daglegt líf hjá pabba, ekki bara leikur og leti :o)

Ég tók þessum breytingum vel, og mömmu fannst ég jafnvel í betra jafnvægi með þessu móti þar sem ég er erfiður að ná mér niður og slappa af þessi sunnudagskvöld þegar ég kem  heim. Þá vil ég gleypa dótið mitt, leika mér og gera allt, og sofna bara seint og um síðir og er svo enn þreyttari daginn eftir.

Við mamma fórum og keyptum smá "skóladót"... Ég talaði um skóladót þetta og skóladót hitt og mig langaði svo í smá skóladót. Svo mamma fór með mig í Office 1 eftir skóla á mánudag og ég fékk Leiftur McQueen stílabók með Leiftur McQueen límmiðum, súperman gormabók ásamt blýöntum, strokleðri, yddara og reglustiku.  Og tréliti.  Ég var svo sæll með þetta, er búinn að vera að leika mér með skóladótið mitt síðan ég fékk þetta.  Meira að segja þegar mamma vaknaði á þriðjudag þá var ég vaknaður með skóladótið mitt uppi í rúmi að lita og teikna!

 

Lítið gleður ungt hjarta!

GAH3_160808

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

EJS Fjölskyldudagur

hæ hæ! Það er alltaf jafn gaman að vera til!

Við mamma áttum skemmtilega helgi síðast.  Á laugardeginum var Akureyrardeild EJS með fjölskyldudag og var mætt úti í sveit heima hjá einum samstarfsfélaga mömmu og þar var hoppikastali og hestar!

Það var rosalega gaman að þurfa ekki að bíða í röð til að fá að hoppa í 5 mínútur heldur vorum við krakkarnir þar mest af tímanum sem við vorum þarna úti í sveit! Ég var ekkert að leitast eftir að fara á hestbak - fannst það ekkert eins spennandi og að fá að vera óáreittur í hoppikastalanum. 

Síðan var ratleikur og vorum við mamma í vinningsliðinu og ég fékk verðlaunapening!!! ég var / er ekkert smá montinn af honum!!

Svo var grillað og ég lék mér við hina krakkana og borðaði prinspóló!  Ég var afar sæll með þetta þegar ég hitti svo ömmu mína seinnipartinn.  Ég gisti hjá þeim um nóttina og mamma kom svo og sótti mig á sunnudaginn. 

Mamma er búin að setja myndir á netið bæði af deginum sjálfum og svo frá kvöldinu hennar: EJS Dagur

 GAH5_160808 .

Auk þess uppfærði mamma linkana hér til hliðar :o) Auk þess sem hún setti slóðina á myndirnar hennar frá Hollandi ef ykkur þætti gaman að skoða :o)

fimmtudagur, ágúst 14, 2008

Vika liðin

Já mamma mín er ekki að standa sig í blogginu... En af okkur er allt ljómandi að frétta. Ég er búinn að sætta mig við að sumarfríið er búið og það er bara gaman að fara í skólann.  Hættur að gráta á eftir mömmu. 

Mamma er farin að vinna 2 daga í viku til 18:00 og sækir Hulda mig þá daga.  Sem er fínt - gaman að hitta þau oftar. 

Það er alveg að koma helgi.  Við erum að fara með starfsfélögum mömmu í sveitartúr á laugardaginn.  Fyrir börnin um daginn - hoppikastali og hestar :) hlakka mikið til.  Á eftir er áætlað að fara til afa og ömmu og gista þar!

Er farinn að spyrja svolítið eftir afa mínum, ömmu minni, hjólinu og fótboltanum.  Langar í sveitina.

Eigið góða helgi

ykkar Gabríel

gah_myvo

fimmtudagur, ágúst 07, 2008

Þreyttur strákur

hæ hæ !!

Núna er skólinn byrjaður aftur á fullu.  Við mamma áttum rólegan og notalegan dag síðasta dag frísins.  Bökuðum kanilsnúða og ég fékk að strá sykrinum og skera í snúða og það var rosalega gaman! Mér finnst svo gaman að baka - já og elda. 

Ég var heldur þreyttur fyrsta daginn og grét þegar mamma fór.  Og hljóp í fangið hennar þegar hún kom og sótti mig og sagði hreint út við hanan "mamma mín ég saknaði þín".  Við áttum notalegt kvöld og fórum jú á normal tíma að sofa en það var bara heldur seint fyrir mig.  Ég er núna hættur að sofa eftir hádegi.  Fæ hvíld á Risalandi en sef ekki neitt.  Og í gær þegar ég vaknaði var ég hrikalega þreyttur.  Var sofnaður í fanginu hennar mömmu áður en Simpsons byrjaði.  Við höfðum splæst á okkur hamborgara á Búllunni, og áttum ís heima og fengum okkur smávegis.  Og það var bara nóg fyrir mig.  Ég datt alveg út.  Það er líka svoddan notalegt að kúra hjá mömmu í stólnum með Goggann minn, dudduna og sængina.

í morgun ætlaði ég að vera rosa stór strákur.  Ætlaði sko ekkert að gráta þegar mamma færi og labbaði inn til að vinka hennir úr glugganum.  En þegar ég sá hana út um gluggann þá fór ég að gráta.  Mér finnst svo erfitt að kveðja hana svona stutt eftir frí.  Þetta gerðist um jólin, um páskana svo mamma var alveg viðbúin þessu núna. 

Þetta lagast.  Ég er fljótur að jafna mig og er jafn kátur og alltaf!!!

kanilsnudarhér er mynd af kanilsnúðunum sem ég bjó til !!það var svo gaman!  

mánudagur, ágúst 04, 2008

Sumarfrí á enda

hæ hæ !!! Núna byrjar skólinn minn aftur á morgun.  Ég sagði mömmu að ég hlakkaði til að hitta Jóhannes Geir og hina krakkana aftur.

Við erum búin að hafa það svo notalegt í sumarfríinu.  Mamma kom heim frá Hollandi á föstudaginn og fórum við upp í sveit.  Ég var hjá pabba í bústað á meðan mamma var í Hollandi og var ég svakalega ánægður með þá dvöl.  Mamma fékk nokkrar myndir af mér í sms þar sem ég er skælbrosandi og ánægður með lífið og tilveruna. 

Í gær sagði ég svo við mömmu að ég vildi fara heim og finna dótið mitt.  Og við komum heim seinnipart í gær og er ég búinn að leika mér siðan.  Við þurfum aðeins og koma rútínunni okkar í lag aftur og vöknuðum við klukkan 7 í morgun.  Vá hvað það var erfitt.  En þegar ég fattaði hvar ég var þá rauk ég fram og fann dótið mitt aftur sem ég hafði sofnað út frá í gær (þegar ég átti að vera uppí rúmi að sofna)

Takk fyrir okkur í sumarfríinu !!

DSC00351

Mamma fékk þessa mynd í sms úr bústað :o)

mánudagur, júlí 21, 2008

Mikið að gerast

hæ hæ allir saman!!! Það er enn sumarfrí hjá okkur mömmu.  Við tókum rúnt í sl viku til Akureyrar með ömmu - bara að slæpast. 

Á miðvikudag fórum við mamma svo í Útilegu í Ásbyrgi - og það var rosalega gaman hjá okkur.  Fengum æðislegt veður og það var svo fallegt þarna og mikið af fuglum, engir ljótir mávar, ungar allstaðar!  Meira að segja eru þeir svo hugrakkir að þeir borða af borðum okkar þegar við erum staðin á fætur :o) Við gengum inn í botn á Ásbyrgi og fórum að tjörninni.  Lékum okkur á leiksvæðinu, grilluðum, lásum, og höfðum það svo notalegt.  Mér finnst meiriháttar gaman í útilegu!!

Helgin var skemmtileg.  Hitti pabba á laugardaginn - stutt stopp þar sem ég fer þangað til þeirra á morgun líka og verð alveg til 1 ágúst! Fórum svo með afa út á vatn á sunnudag og það var yndislegt veður - var á latabæjarbolnum mínum í pollabuxum - svo heitt var úti og við fengum fiska!!

Mamma er að fara til Hollands og ég ætla í bústað með pabba og co í viku!!

Mamma er búin að setja inn myndir á myndasíðuna okkar : MYNDIR

Eigið góða daga og ég bið að heilsa - ykkar Gabríel

DSC02806

mánudagur, júlí 14, 2008

Húsavík í dag - veiði um helgina

hæ hæ hó hó

við mamma erum að njóta lífsins.  Áttum rosalega skemmtilegan dag með ömmu, Þórhöllu frænku og Hirti Smára frænda á Húsavík.  Svona "njótaþessaðveratil" dagur og skoða, labba, gefa öndunum brauð, Þórhalla móða að búða og í smá heimsókn til langafa og langömmu.  En skemmtilegast þótti mér að gefa öndunum brauð. 

Fór á netin með afa um helgina og í fyrsta skipti sem ég veiði fisk!!  Það var svo gaman! Ég er alveg óstöðvandi núna og tala um að fara á bát í tíma og ótíma við afa núna!!

Mamma er búin að setja inn myndir frá helginni og Húsavíkurferðinni á flikkrið okkar: MYNDIR.

Eigið góða daga - ykkar Gabriel Alexander.

DSC02595

laugardagur, júlí 12, 2008

Út á vatn!!

Ég fór út á vatn í fyrsta skipti í morgun.  Svaf til níu og mundi svo strax eftir því að afi hafði talað um það í gær að fara með mig út á vatn!! og ég tók hann á orðinu!!

Svo við mamma fórum og afi lagði netin.  Það var rosalega gaman!!! Ég hló og talaði allan tímann.  Mamma náði nokkrum myndum af mér en engum almennilegum þar sem hún var alltaf að passa mig.  Myndirnar eru komnar á netið okkar: MÝVATNSBÁTSFERÐ.

DSC02501

miðvikudagur, júlí 09, 2008

Gaman í sumarfríi!!

Það er rosalega gaman hjá okkur - gott veður og sól og sumarylur.  Mamma setti inni myndir á flikkrið okkar - og takið eftir hvað það er heiðskýrt hjá okkur. 

Langar að óska Töru - fóstursystur minni til hamingju með stóra 10 ára afmælið sem hún átti í gær !! Vonandi fékkstu góðar kökur og skemmtilega pakka!!

Kær kveðja úr sveitinni

Gabríel Alexander!

DSC02371

fimmtudagur, júlí 03, 2008

Frábær sumardagur

DSC02199Hæ hæ !! Við mamma erum búin að vera í viku í sumarfríi. Byrjuðum á að fara í algjöra aflslöppun til afa og ömmu í sveitinni.  Þar lék ég lausum hala og naut þess að vera til.  Það var frekar kalt svo það var ekki mikið um útiveru en samt fórum við mamma í hjólatúr.  En það var aðallega rúntað. 

Hjörtur og Sylvía komu heim frá Danmörku um helgina og það var frábært að hitta þau.  Þau færðu mér rosalega flottan Legobol frá Legolandi!! með mynd af sjóræningja!! Við mamma skruppum til Þórhöllu frænku og Hjörtur var að kubba rosalega flotta þyrlu - ég fékk að leika mér með hana og ég var með stjörnur í augum þegar ég talaði um hana og geri reyndar enn! Hjörtur er svo skemmtilegur.  Hann fór með mig á trambólínið og lék við mig!

Við mamma komum í bæinn í gær.  Ég fór í seinni hlutann af skoðuninni. Mamma var búin að tala við mig um að vera duglegur og ég stóð mig rosalega vel.  Ég er með góða sjón, og ég er 102 cm go 18 kg.  Held mig við minn stað fyrir ofan meðallínuna.  Svo þegar læknirinn skoðaði mig þá hafði hann hlustað á mig á biðstofunni og sagði mig með flottan málþroska- hafði ekkert athugavert við það.  Svo fylgdist hann með mér og sagði mig mjög duglegan og hreyfingar og fínhreyfingar væru mjög góðar, jafnvel á undan mínum aldri í þessum þroska. 

Mamma notaði gömlu mútuaðferðina á mig til að fá mig til að gera það sem ég átti aðgera hjá hjúkkunni.  Og ég fékk að velja mér dót í Toys R'Us, og ég valdi mér rosalega flott lögguhjól með sírenum og ljósum og alles! Og núna þeysist þetta hjól um allt með mér.

Dagurinn í dag var frábær.  Við mamma  byrjuðum á að sofa út. Og svo smurðum við okkur nesti og fórum í Kjarnaskóg. Frábært veður - sólin var reyndar nú eitthvað að stríða okkur en samt fengum við rjóðar kinnar :) Í kjarna var hlaupið og leikið út um allt.  Borðuðum nestið okkar og nutum þess að vera saman.  Hittum þar fyrir frændur mína Bjarka og Trausta sem eru synir Sifjar.  SIf og pabbi minn eru bræðrabörn.  Þeir voru þarna með ömmu sinni Rósu (ha ha fyndið að þeir eiga ömmu sem heitir Rósa líka)  Við lékum okkur og fórum í rólurnar saman!

Eftir Kjarna fórum við í Flugsafnið. Það voru sko mega flottar vélar!! Og þyrla - maður lifandi -þyrla - ég fékk að skoða þyrlu!!!

Svo fórum við í Jólahúsið og það er alltaf jafn gaman.  Ég skoða bökunnarofninn og get dundað mér endalaust þarna.  Mamma getur líka dundað þarna endalaust enda erum við bæði jólabörn !  haha ég náttla er ekta jólabarn þar sem ég á afmæli 24. des :o) Svo fæ ég alltaf að velja mér nammi þarna - fæ poka hjá manninum og týni ofaní nokkur jólanammi. 

Já og dagurinn er ekki búinn enn. Við fórum og fengum okkur ís í Brynju og enduðum í Sundlaugargarðinum.  Þar fékk ég að keyra um á rafmagnsbíl og moka í rafmagnsgröfu! Vá það var rosalega gaman!!

Enda er ég þreyttur strákur.  Fór í bað, borðaði - horfði á SImpsons og fór að sofa.  mamma var búin að búa til handa mér Disney sögudisk.  Svo þegar hún var búin að lesa fyrir mig, syngja Draumahöllina og biðja bænirnar okkar - þá gat ég sofnað við að hlusta á Mugga Mörgæs!

Mamma er búin að setja myndirnar inná flikkrið okkar: Sumardagur.

Já í dag var gaman að vera til - reyndar eins og alla aðra daga.  Óska ykkur góðrar helgar

Ykkar Gabríel Alexander! DSC02259

mánudagur, júní 30, 2008

Sumarfrí í sveitinni

Við mamma erum í sveitnni.  Fer vel um okkur og við höfum það rosalega gott.  Það er reyndar kalt á okkur núna svo við erum ekki mikið úti og erum ekki að hanga í sundi - rok líka. 

Út að hjóla, smá útí í garði, horfa á Latabæ, knúsast og slappa af.  Lita, teikna og kubba.

Vona að þið eigið góða daga líka.  DSC00389

föstudagur, júní 27, 2008

3 og hálfs árs skoðun

3 og hálfs árs skoðun

Já ég fór í hana núna á fimmtudaginn.  Hafði fengið rosalega flotta umsögn frá fóstrunum mínum á Flúðum.  Og mamma að springa úr monti.  Fékk ís og alles í verðlaun fyrir þessa umsögn.  Já svo á fimmtudagsmorgun - hittum við hjúkrunarfræðing.  Ég hesthúsaði heila skyrdollu áður en við fórum - þar sem skýrt var tekið fram "æskilegt er að börnin séu búin að fá morgunmat áður en mætt er" - en það er ekkert nýtt að ég borða 2x á morgnana; heima klukkan sjö og svo í skólanum hálf níu.

En jæja.  Mér leist nú bara ekkert á þessa konu.  Hún bað mig um að teikna mömmu og jú ég gerði það.  Svo heimtaði hún hendur - og ég teiknaði þær - og svo fætur??? pfft ég var sko búinn að teikna fæturna - hún bara fattaði það ekki - svo spurði hún "er mamma ekki með augu og munn? " - nei hættu nú kona góð og snéri upp á mig "jú það er hér" og bendi á myndina! Hún var sko bara ekkert að fatta myndina. 

Svo vildi hún að ég benti á einhver dýr - sá nú ekki mikin tilgang í því - þegar hún fór að halda að ég þekkti ekki kött þá hló ég bara - fannst þetta svo heimskulegt.  Og að benda á einhverjar myndir - ef hún þekkir ekki sjálf stelpur frá strákum þá er hún ekki í lagi konan - mér fannst þetta bara heimskulegt og neitaði að gera þetta.  Hún teiknaði svo einhvern kross og vildi að ég gerði það líka .. ég sá nú ekki tilgang í því og neitaði. 

Svo hún mumlaði eitthvað um góða umsögn og sagðist ekkert ætla að stressa sig yfir þessu. En ég fer til hennar aftur í hæð og þyngdarmælingu. Þá ætlum við að prófa sjónmælinguna aftur.  Ég svaraði fyrstu 5 línunum á sjónprófinu en þá var hún hætt að vera spennandi og þessi kona var sko ekkert að ná að fanga athyglina mína og hætti.  Fannst þetta ekkert gaman. En mamma var sammála henni í því að við verðum að vera með sjónprófið á hreinu þar sem bæði mamma og pabbi eru með slæma sjón, auk þess sem Atli Freyr bróðir minn var farinn að nota gleraugu þegar hann fór í skóla.

En í dag erum við mamma að fara í frí.  Mamma sækir mig, amma keyrir á móti okkur og mamma kemur svo í sveitina á morgun. Ég minni hana reglulega á útileguna, og hvað við ætlum að hafa það notalegt í sumarfríinu okkar!!! Hlakka svo til !

Þar til næst óska ég ykkur gleðilegrar helgar

Knús Gabríel Alexander!

DSC00382

þriðjudagur, júní 24, 2008

Útilega EJS - Fossatún 20-22 júni 2008

DSC02120 Halló!! Ég er útilegustrákur - með rauðar sætar kinnar, brosandi kátur syngjandi glaður, þreyttur og sáttur og er farinn að bíða eftir sumarfríinu.

Við mamma áttum æðislega helgi.  Fórum í útilegu á Fossatún með vinnufélögum mömmu í EJS.  Þar mættust starfsmenn úr þessum tveimur útibúum - Akureyri og Reykjavík.  Það var rosalega gaman.  Og ekki skemmdi fyrir að við mamma fórum með Önnu - sem vinnur með mömmu á Akureyri og syni hennar Heiðari Erni sem er að fara í 3ja bekk! Ég lít rosalega mikið upp til svona stórra stráka og fannst það frábært að fá að vera með svona stórum strák. 

Við mamma vorum í litlu tjaldi tvö og vorum með aðstöðu fyrir mat og annað í stóra tjaldinu hennar Önnu.  Fór rosalega vel um okkur.  Gott að kúra hjá mömmu og ég sönglaði "útilega útilega"  Mér fannst svo spennandi að sofa í tjaldi!

Fannst gaman á laugardeginum þegar kom rigning og við urðum að flýja inn í tjald fá okkur kakó og svo fórum við mamma í okkar tjald með bækur og nammi!! Var gaman að slaka á þar með mömmu. 

Fórum í sund í Borgarnesi og þar eru rennibrautir.  Alli pabbi Elísu Helgu fór með mig í stóru grænu fyrst og svo fór Anna með mér.  Mamma beið alltaf og greip mig :)  Og ég tók svo hringinn í litlu gulu rennibrautina upp, renna, mamma grípa, upp, renna, mamma grípa...

Og allir húsbílarnir... þeir voru svo flottir.  Og Fellihýsin.  Ég afrekaði að skoða þetta allt saman.  Bankaði bara hjá fólki og spurði hvort ég mætti koma inn. 

Svo fékk ég að fara í leikkastalann! Og þar voru rennibrautir og rólur.  Undirgöng og fullt af príli.  Trambólín voru líka á leiksvæðinu og ég fékk algjöra útrás þar!

Það er sko gaman að vera lítill strákur í svona ferðalögum.  Því þegar ein úr Reykjavík kom á pallbílnum sínum með fjórhjól á pallinum!! Vá hún leyfði mér að sitja á  hjólinu sínu - en ég vildi ekki að hún setti það í gang.  En ég var rosa ánægður  með þetta allt. 

Ég er sko farinn að tala um aðra útilegu við mömmu !!!  Mamma er búin að setja myndir inn á flikkrið okkar: EJS Útilega Fossatún 2008 

DSC02142

föstudagur, júní 20, 2008

Afi 60 ára!!

Á morgun verður afi minn 60 ára!!!

afi_gah

Til hamingju með afmælið elsku afi minn!!

hlakka til að sjá þig og fá afaknús!

þriðjudagur, júní 17, 2008

17.júní 2008

Hæ hæ !!! Í dag var rosalega gaman!! Við komum í sveitina í gær.  Það var svo gott að koma í sveitina og hitta afa og ömmu.  Amma fann hvað ég var hamingjusamur með að vera kominn og vildi bara knúsast hjá þeim.  Vildi gleypa þau og allt dótið mitt hjá þeim.  Mætti halda að það hefði liðið langur tími síðan ég sá þau síðast. 

Við vöknuðum um átta við mamma, afi löngu farinn á fætur.  Við mamma fengum okkur morgunmat, og amma kemur fram stuttu síðar.  ´Þegar afi kom heim ákváðum við að kíkja í Voga í heimsókn.  Þar býr jú ömmubróðir minn hann Jón, konan hans Ólöf og tvíburarnir Skarphéðinn og Arnþrúður. Og stóru flottu frænkur mínar Þórhalla Bergey og Halldóra Eydís.  Halldóra er einmitt að læra tískuhönnun á skóm úti í London - og gerir frábæra skó að mati mömmu - ég hef nú ekki mikið vit á þeim - ef það er ekki Spiderman er mér alveg saman :o)

DSC01853En jæja - við fórum í Vogafjós sem er kaffihús bland fjósi.  Fólk getur sest inn og fylgst með mjöltum yfir kaffibollanum eða matnum .  það getur séð mjólkina fara í gegnum leiðslu inni í fjósinu.  Það er rosalega gaman að fara þangað.  Við hittum alltaf jólasveinana þarna í desember !!

En við förum alltaf inn og heilsum kúnum og kálfunum líka.  Ég hef svo gaman að því að gefa þeim að borða og klappa kálfunum.  Jón frændi sýndi okkur svo hreiður í dráttarvélinni þeirra.  Þau höfðu keyrt vélina nokkrum sinnum áður en hreiðrið fannst - maríuerlan hafði bara flögrað með dráttarvélinni og passað uppá þetta.  En hún yfirgaf ekki hreiðrið og eru flottir ungar í því núna!! Vélin var kyrrsett þegar hreiðrið fannst - maríuerlunni til mikillar gleði.

þar einmitt hittum við líka heimalingana tvo - þeir þóttust vera svangir, en þeir litu nú ekki út fyrir að vera vannærðir ha ha ha !!!

Jón frændi átti líka þennann flotta vélsleða.  Ég mátti skoða hann og fikta smá í honum, en vildi ekki að Jón setti hann í gang.  Ég var eitt sólskinsbros þegar ég sat á þessum sleða! - mamma settir myndir á flikkrið okkar af mér á sleðanum.

Eftir heimsóknina í Voga kíktum við mamma til Þórhöllu og Lárusar.  Þar fann ég dótið hans Hjartar, fullt fullt af flottum bílum, gröfum, flugvélum og svo ótalmörgu sem ég gæti verið endalaust að leika mér með - Hjörtur á svo flott herbergi.  En ég hitti þau Sylvíu ekki þar sem þau eru í Danmörku. 

DSC01917Og eftir hádegi var farið niður að búð og ég fékk blöðru með Superman - og fékk Súperman merkið málað framan í mig!  - ég er sko SÚPEMAN í dag!!  Þaðan hófst skrúðgangan uppá Krossmúlavöll og við mamma fórum með henni.  Ég fékk að hafa hjólið mitt með og hjólaði ég því uppeftir!   

En ég var ekki  með orku í mikið meir og vildi fara fljótlega heim eftir að þangað var komið.  Enda búin að gera mikið í dag. 

Við mamma komum svo aftur inn á Akureyirar hálf fimm, fengum okkur köku og lékum okkur í "pikknikk leik" með útilegudiskatöskuna sem afi og amma eiga - ég var sko að hella uppá kaffi með mjólk handa mömmu.  Mamma reyndar drekkur ekki mjólk í kaffið sitt - nema hjá mér - ég bý til svo gott þykjustunnimjólkurkaffi :o)

Myndir dagsins: 17. Júní 2008

Þar til næst eigið góða daga !

- ykkar Gabríel Alexander

sunnudagur, júní 15, 2008

Pabbahelgi

hæ hæ hó hó !!! ég er orðinn hress og kátur.  Er hjá pabba um helgina og eflaust í góðu yfirlæti!!

Mamma setti mig með læknisráði aftur í skólann á föstudag.  Var hrikalega hress á fimmtudag og var úti um alla íbúð og búinn að leggja hana alveg undir mig.  Rosalega gaman!!

Svo er planið að fara á 17. júní upp í sveit með mömmu og njóta hátíðarhaldanna þar, ekki eins mikið af fólki, þarf ekki að bíða í klukkutíma eftir að fá eina blöðru sem kostar svo þúsund kall.  Og Þar verða andlitsmálun, pylsur og svali og fleira skemmtilegt. Auk þess sem ég get verið á hjólinu mínu.  Verið ég sjálfur úti um allt!

Og útilega í vinnunni hennar mömmu næstu helgi- það verður sko fjör! Ég skemmti mér svo vel í fyrra í útilegu að það verður gaman að fara aftur !!! Mér fannst svo gaman að vakna og geta barið farið beint út að leika :o)

En þar til næst - eigið góða helgi

Ykkar Gabríel Alexander

DSC01730

miðvikudagur, júní 11, 2008

minni blöðrur

hæ hæ

í dag eru blöðrurnar minni, ég er með smá hita - samt hrikalega hress og hamingjusamur :o) Mamma gaf mér Latabæjar DVD í gær fyrir að vera svo duglegur hjá lækninum og ég er búinn að horfa á það út í eitt.   Og er meira að segja farinn að leika og herma eftir þeim.  Hrikalega fyndið að fylgjast með mér ha ha ha !!

Mamma setti inn nýjar myndir á flikkrið okkar : Myndirnar okkar.

þriðjudagur, júní 10, 2008

Vírus á höndum og fótum

já já við mamma erum heima.  Mamma fékk símal frá Flúðum í dag og hún sótti mig.  Ég var og er með blöðrur á höndum sem læknirinn kallaði Handa- fóta- og munnsjúkdómur

Ég var rosalega duglegur í dag á heilsugæslustöðinni að bíða.  Og ég var líka rosalega duglegur að tala við lækninn og skoða dótið hennar.  Ég var líka duglegur að sýna lækni númer tvö sem yngri læknirinn kallaði "reynslubolta sér til aðstoðar"  En hann sagði þetta pottþétt þennann vírus sem er smitvírus og hann bað mömmu um að hafa mig heima á meðan þetta gengi yfir.  Sérstaklega þar sem ég fæ sennilegast hita með þessu. 

Ég er hress í dag en það komu stundir sem ég var frekar lítill í mér og vildi bara sitja hjá mömmu og horfa á Latabæ.  Ég finn samt stundum smá orku til að stríða aðeins td; vilja ekki þvo mér í framan eða klæða mig í sokka svo eitthvað sé nefnt.

Látum hérna mynd með sem mamma tók af mér um helgina :o)  

DSC01765

sunnudagur, júní 08, 2008

Helgi í sveitinni

hæ hæ !! Við mamma fórum í sveitina á föstudaginn.  Ég heimtaði að fara í sveitina strax á föstudag - mamma bauð mér að vera heima á laugardagsmorgun til að leika mér með dótið mitt en nei - ég sko vildi fara strax til afa og ömmu!

Fórum með hjólið mitt og mótorhjólið. Þegar ég vaknaði klukkan átta á laugardag var ég sko alveg til í að fara að leika mér .  Mér fannst afskaplega gott að hafa mömmsu þarna fyrst, við spjölluðum saman um mótorhjólin og bílinn minn. Vildi ekki fara fram, bara vera þarna með henni og spjalla. 

Mamma varð svo að fara og hjálpa afa við að ferja rollurnar á fjöll. Langamma og langafi voru með líka.  Við amma fórum á rúntinn líka í Belg og heilsuðum upp á lömbin.  því næst fórum við á róló við amma, og á trambólínið hennar Þórhöllu frænku! Rosalega gaman.  Og þegar mamma kom heim þá fórum við í sund með langafa og langömmu.  Þórhalla frænka var að vinna og ég fæ stundum að laumast í skápinn á bakvið hjá henni - þar geymir hún stundum ís... mér finnst ís svo góður!

Ég fékk að vaka smá frameftir.  Ég svaf svo vel um daginn - og svaf til átta á sunnudag líka.  Fékk monster trukk hjá afa og hann setti spotta í hann og ég dró hann á hjólinu mínu á rólóinn.  Mamma fór með mér og við lékum okkur þar! 

Svaf svo þrjá tíma eftir hádegi í dag líka.  Svo dagurinn fór í voða lítið nema bara afslöppun.  Kíktum á Sylvíu frænku áður en við fórum heim.  Merkilegt - hún á svona skemmtilegan ísskáp líka í vinnunni sinni :o)   Mér finnst svo skrýtið þetta með Lynghraunsfjölskylduna að þau eru bara aldrei heima.  Og ég spyr alltaf svo eftir þeim.  Það nýjasta er að ég ætla að verða eins stór og Lárus því þá má ég fá mér alvöru mótorhjól með svona hjálm sem er með fyrir augun. Og þegar ég verð eins stór og Hjörtur Smári þá ætla ég í sumarbúðir líka - alveg eins og hann!!!

Jámm helgin var góð - og við hlökkum til að fara í sumarfrí - en fyrst förum við í útilegu með vinnunni hennar mömmu !!! það verður sko gaman!!!

þar til næst - ykkar Gabríel Alexander

DSC01749