laugardagur, janúar 29, 2005

Rosalega gaman í dag!! Afi minn og amma í Mývatnssveit komu í heimsókn í dag!! Þau komu um hádegisbil, en ég svaf heillengi þótt þau væru komin, amma var meira að segja komin á það að vekja mig svo hún sæi eitthvað af mér vakandi. Það var eins og ég fyndi það á mér og ákvað að vakna. En sl nótt var frekar strembin þar sem ég er með eitthvað í mallanum - kallast ungbarnakveisa, og hélt pabba vakandi alveg fram undir morgun.
Ömmu og afa finnst ég svaka flottur, og amma segir að ég sé orðin rosalega myndarlegur og mannalegur miðað við hve ungur ég er. Hrósaði því hve vel ég held haus, og að ég sé að reyna að grípa hluti, hve vel ég fylgist með og hreyfi augun til að fylgjast með. Og svo hló hún þegar hún komst að því hve mikill mömmustrákur ég er. En ég vildi helst bara vera hjá mömmu minni, og ef ekki þá vildi ég helst að hún héldi um hendurnar á mér, eða væri þar sem ég sæi hana.
Svo er ég líka enginn smá gaur í rauða flotta Ferrari gallanum sem hann afi minn gaf mér þegar ég fæddist en gallinn er keyptur í Ferrari búð í Dublin!
Amma og afi færðu mér rosalega fallega peysu og húfu. Hún er prjónuð af ömmu Sylvíu og Hjartar Smára. Mamma ætlar að setja mynd af henni á netið því hún er svo montin með hana! Vonandi setur hún myndir af mér í Ferrari gallanum líka með afa og ömmu!! Pabbi vill taka það fram að þó að ég sé í Ferrari galla þá endurspegli það ekki allar skoðanir á heimilinu.

föstudagur, janúar 28, 2005

Halló halló
Í gær var fyrsti baðdagurinn minn. Þá á ég við að ég fór í fyrsta skipti í "baðkar" sem reyndar er bali og var staðsettur á eldhúsborðinu okkar þar sem við erum ekki með baðkar. Mér fannst þetta fínt til að byrja með, en varð frekar fljótt þreyttur á þessu. Má þá heldur biðja um að fara í almennilega sturtu með pabba. En mér leið afskaplega vel á eftir. Fékk vel að borða og sofnaði svo sæll og glaður með þetta allt saman og svaf vel. Og að sjálfsögðu voru teknar myndir af þessu sem eru komnar í albúm no 2. Pabbi tók líka vídeó af okkur en það er til sýnis fyrir þá sem nenna að koma alla leiðina austur til að heimsækja okkur :-)

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Halló allir nær og fjær
Í dag kom ljósmóðirin til okkar. Hún vigtaði mig og ég er núna 4690 gr!! hef þyngst nær um heilt kíló á hálfum mánuði. Ljósmóðirin sagði að ég væri svo flottur, sterkur og hraustur, og henni brá þegar hún sá mig og hve mikið ég hafði stækkað. Hún sagði að ég væri alls ekki feitur, en mamma og pabbi skyldu passa það samt að ég færi ekki að fitna of mikið. Ég sem sagt fæ flotta einkunn hjá henni - og mamma og pabbi voru rosa stolt af mér.
Ég svaf í fyrsta skipti úti í vagni í gær. Var svo gott veður að mamma og pabbi ákváðu að prófa. Og mér leið svo vel, svaf svo vel úti í hreina loftinu. Enda vil ég fara aftur út í dag. Og núna fer að verða göngufæri um bæinn svo mamma getur farið með mig í göngutúra.

mánudagur, janúar 24, 2005

Hæ hæ
stór og skemmtilegur dagur í dag. Í dag er ég mánaðar gamall! Og hef ég stækkað svo mikið á einum mánuði!!
En það er ekki allt. Ég byrjaði daginn á að vakna, horfa í augun á mömmu og senda henni mitt blíðasta bros sem ég átti til. Það var svo gott að sjá hana koma til mín, og þetta er í fyrsta skipti sem ég geri þetta! Hún var rosa hamingjusöm með mig!
Og það fynda er að akkúrat í dag fékk ég sendingu frá uppáhalds frænda mínum og frænku í Mývatnssveit, Hirti Smára og Sylvíu Ósk. Þau sendu mér svona leikfanga óróa sem getur verið í rúminu mínu, og seinna meir á gólfi og ég legið undir því, og leikið mér. Mamma og pabbi pússluðu þessu saman fyrir mig og settu í rúmið mitt, og ég lá heillengi undir og starði á þessa fallegu hluti og þessa fallegu liti. Ég er nefnilega farinn að skynja litina, og finnst gaman að sjá þetta allt hreyfast! Þið getið séð myndir af mér og flotta óróanum mínum á myndasíðunni minni. Í pakkanum voru líka ofboðslega flottir skór, ég verð enginn smá gaur þegar ég fer að nota þá - þá verð ég líka orðin svolítið stærri - þeir eru enn of stórir á mig. En ég gruna mömmu mína um að hlakka svolítið til að geta farið að klæða mig í flottu fötin sem ég er búinn að fá, en þau eru öll of stór enn. Verð þvílíkur töffari þegar ég stækka!!
Takk kærlega fyrir mig - æðislega gaman að fá svona flottar sendingar!

sunnudagur, janúar 23, 2005

Hæ hæ
Í dag fór ég í fyrsta skipti í sturtu! Pabbi fór með mig og mér þótti það rosalega notalegt. Volgt vatnið, og svo hlýtt og mjúkt handklæðið hjá mömmu á eftir. Og svo fylgdi góður peli í kjölfarið. Enda sofnaði ég vel og lengi á eftir. En ég hef verið svolítið pirraður í maganum undanfarið og verið að vakna oftar.
Ég er farinn að vaka lengur núna, finnst gaman að sitja í stólnum mínum (bílstólnum sem ég vil helst allaf vera í) og horfa í kringum mig. Það er margt svo spennandi að gerast og ég sit og brosi að því öllu saman.

föstudagur, janúar 21, 2005

Fjórar vikur! Í dag er ég búin að vera til í heilar fjórar vikur!! Tíminn er búinn að vera fljótur að líða - enda hef ég verið sofandi mest allann tímann. Mömmu finnst ég hafa stækkað rosalega mikið, og hún hefur áhyggjur af því að ef hún loki augunum þá missi hún af mér svona litlum og sætum (en ég er náttla obbosslegt krútt)
Og við settum inn áðan restina af myndum sem teknar voru af mér á mínum fyrstu fjórum vikum! Það er satt - ég er fljótur að stækka. Við biðum og biðum eftir ljósmóðurinni í gær, en hún kom aldrei. Enda var veðrið ekkert til að hrópa húrra yfir. Svo í rauninni þá vitum við ekki nákvæmlega hvað ég er þungur. En mamma segir að ég hljóti að vera komin yfir 4kg, hún segir að ég hafi þyngst svo mikið.
Aumingja Kítara bíður bara eftir því að ég verði nógu stór til að leika við hana með boltann - en hún vill oft vera góð við mig og gefur mér boltann sinn (leggur hann ofur varlega í stólinn minn) það verður gaman þegar ég get farið að leika við hana!!!

þriðjudagur, janúar 18, 2005

hæ hæ
það er allt gott að frétta af okkur. Ég þyngist og þyngist, fer bráðum að fá smá bumbu. En ég er duglegur að vakna til að drekka. Er með þétt prógramm við að vakna, láta skipta um bleiu, drekka og sofna aftur. Ég hins vegar læt líða lengra á milli á næturnar.
Mamma heldur að augun mín verði blá eins og augun hans pabba, þau eru farin að lýsast svo mikið núna. Hárið mitt er enn ljóst svo sennilegast fæ ég ljósu krullurnar og bláu augun hans pabba. Svo fer jafnvel að líða að því að ég fari að halda haus sjálfur! Það verður svo miklu þægilegra því ég er alltaf að fá meiri og meiri áhuga á því sem er að gerast í kringum mig. Mér finnst rosalega gaman að sitja í fanginu á mömmu og pabba og horfa í kringum mig.

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Hæ hæ !
Þórey ljósmóðir sem sinnir ungbarnaeftirlitinu hérna kom til okkar í dag. Ég var vigtaður og mældur í bak og fyrir, og hef ég þyngst um 240 gr á viku. Ég sem sagt mælist 3790 gr í dag. Og hún var afskaplega ánægð með okkur öll. Ég er mjög duglegur að borða (finnst gott að borða enda hef ég ekki langt að sækja það) og ég er búinn að vera mjög duglegur að sofa, finnst gott að sofa (hef sennilegast heldur ekki langt að sækja það). Ég er afskaplega rólegur og góður, en get látið heyra í mér ef mér finnst eitthvað ekki eins og það á að vera!

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Hæ hæ !
þá er síðan loksins komin í loftið með link yfir á aðra síðu sem hefur að geyma flottar myndir af mér! Þar sem ég bý svo langt frá öllum ættingjum og vinum þá er best að hafa góða síðu þar sem allir geta fylgst með mér og séð mig stækka og þroskast.
En ég heiti sem sagt Gabríel Alexander, eða kem til með að heita það. Mamma og pabbi hafa ekki ákveðið enn skírnardaginn minn, og eiga í smá vandræðum með að ákveða hvar eigi að skíra mig. En þau eru þó komin með skírnarkjólinn. Það er kjóll sem amma Rósa saumaði og hafa margir verið skírðir í þeim kjól.
Ég ákvað að koma í heiminn og byrja að upplifa þetta ævintýri sem lífið er 24. desember 2004 kl: 13:38 á Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar. Ég er jólabarn Akureyrar þar sem ég var sá eini sem kom í heiminn á Akureyri þann dag. Pabbi minn var viðstaddur fæðinguna og var algjör stoð og stytta fyrir mömmu.
Ég var 13 merkur og 50 cm þegar ég kom í heiminn.
Ég fékk smá gulu og léttist svolítið og vorum við mamma þar af leiðandi heila viku á fæðingardeildinni. En það fór afskaplega vel um okkur. Starfsfólkið þar er alveg yndislegt í alla staði. Td var dekrað við okkur á aðfangadag þar sem ég var eina barnið á deildinni.
Tveggja vikna gamall var ég kominn vel yfir fæðingarþyngd mína og er alltaf að þyngjast og stækka.