laugardagur, mars 31, 2007

Í dag var Sylvía besta frænka í 3 sæti í Íslandsglímunni!! Hún er bara snillingur! Hún er svo flott og dugleg að keppa og stendur sig svo vel!!!!

Bróðir hennar Hjörtur Smári er líka svo duglegur, hann var í 2 sæti í skíðakeppninni sem hann var að keppa á um daginn á Dalvík! Ég vona að ég verði svona duglegur líka!

Hjörtur Smári átti 10 ára afmæli núna 29. mars!! Við mamma óskum honum til hamingju með daginn!!

Amma min, reyndar langamma mín átti líka afmæli 29. mars og Þórhalla amma og langalangamma mín líka ef þær hefðu nú verið á lífi blessaðar. Þetta er greinilega góður dagur til að fæðast á!!

föstudagur, mars 30, 2007

Hæ hæ !! hérna eru tvær spes myndir handa langömmu minni í Reykjavík!
--


Það er einmitt svo fyndið með það að mamma lætur mig nota þessa peysu mikið, því okkur finnst hún svo falleg og húfan með, en einhvern veginn hefur það aldrei náðst almennilega á mynd. Þessar eru teknar um jólin, og ég hef auðvitað stækkað síðan þá. Mamma verður bara að bæta úr því!!

fimmtudagur, mars 29, 2007

Hæ hó! Kominn fimmtudagur og mamma ekkert búin að skrifa í vikunni.. þvílíkt og annað eins!


Héðan er allt gott að frétta. Ég er reyndar búinn að vera dáltítið erfiður við mömmu, reyni að komast upp með alls kyns ósiði, td að lemja og segja nei við öllu og hlýða engu. En mamma haggast ekki og ég fæ ekki neitt áframgengt með frekjunni minni. Svo í morgun þá sá ég að það væri bara betra að vera þægur og þá gekk morguninn miklu betur fyrir sig og allir voru ánægðir. Þetta með að lemja er eitthvað sem ég er að pikka upp á leikskólanum. Mamma fékk gott ráð við því í gær og ætlar að nota það á mig.


En ég er samt alltaf góður og yndislegur segir hún. Við knúsumst og erum miklir vinir. Reyndar hurfu kubbarnir mínir, semst litlu kubbarnir, það er afleiðing óþægðar í mér, og ég sennilegast fæ þá ekkert á næstunni aftur.


Annars eru komnar nýjar myndir á netið. Þær eru frá sl helgi, þegar við mamma fórum loksins í sveitina til afa og ömmu. Þar áttum við góða daga. Fórum í fjárhúsin, lék mér með dótið mitt þar, fórum í göngu og höfðum það rosalega gott!
---

Við verðum þar um páskana í góðu yfirlæti :)

föstudagur, mars 23, 2007

í dag á mamma mín afmæli! Aldur er afstætt hugtak - við erum alltaf jafn gömul og okkur finnst við vera - svo ég segi ekkert um aldur hennar. Við erum að fara í sveitina á eftir. Skólinn lokar 12:15 þar sem það er starfsmannafundur þar í dag. Svo við mamma brunum í sveitina í lambalærið til afa og ömmu :o)

Mamma setti niður meira að segja fjárhúsarföt ef við skyldum fara í húsin og hún tekur með sunddótið okkar :)

Hlakka svo til að fara og hitta afa og ömmu. Ég er farinn að spyrja mömmu um afa og ömmu, farinn að sakna þeirra. !

Eigið góða helgi og ég ætla að knúsa mömmu mína í tilefni dagsins
Til hamingju með daginn elsku mamma mín!!

miðvikudagur, mars 21, 2007

Og svo á Þórhalla frænka mín afmæli í dag!!! Viljum við mamma óska henni hjartanlega til hamingju með daginn!!
--
hæ hó! ég er á leikskólanum og hef það gaman!
Fór samt ekki á mánudag þar sem ég fékk í eyrað mitt!! Svaf ekkert um nóttina, og fann rosalega til. Fékk að kúra hjá mömmu alla nóttina. Hitti svo ömmu Siggu á mánudag, en afi Magnús komst ekki að skoða mig svo voða fín kona fékk að skoða mig í staðinn. Gróa heitir hún og hún var rosa fín.
Það sem sagt sprakk á himnunni, og gröftur og bjakk sullaðist út, þess vegna fann ég svona til. Típísk eyrnabólga. Mamma alveg miður sín, hún hefur passað eyrun mín frá því ég kom í heiminn, aldrei húfulaus, er ekki í reykumhverfi, ligg ekki með pela (pftt ég er líka orðinn sko allt of stór fyrir svoleiðis smábarnadót) Svo Gróa læknir sagði að mamma væri að gera allt rétt, þetta gæti komið vegna flensunnar sem ég fékk, komið frá einhverjum í leikskólanum, við værum öll með sýkil í nebbanum.
En góðu fréttirnar eru þær að ég er svo hraustur að eðlisfari að ég þarf ekki sýklalyf, ekkert, og strax á þriðjudag var ég orðinn ég sjálfur aftur og fór á leikskólann!
Við fengum góða gesti um helgina. Þórhalla móðursystir mín og Hjörtur Smári sonur hennar komu í heimsókn og voru hjá okkur alla helgina! Hjörtur var að keppa á skíðum á Dalvík og til að stytta keyrslu á milli gistu þau að sjálfsögðu hjá okkur. Hjörtur meira að segja fékk silfurpening á mótinu!! Rosalega duglegur! Hann líka kubbaði fyrir mig og sýndi mér fullt af skemmtilegu til að kubba :) svo gaman að fá gesti! Nokkrar myndir af þeim hér!!

miðvikudagur, mars 14, 2007


Halló halló!

í dag var danssýning hjá okkur á Flúðum! Mamma kom að horfa á ! Var rosalega gaman, þó svo ég var ekki alveg til í að sleppa henni og dansa sjálfur. Svo við dönsuðum saman. Svo á eftir var foreldrum boðið í kaffi og kökur sem við krakkarnir bökuðum ! Þá reyndar virkuðu fæturnir mínir alveg. Svo sýndi ég henni dótið sem mér finnst gaman að leika mér með, bílabrautina, kubbana, eldavélarnar sem við krakkarnir bardúsum mikið við. Þetta var svo gaman. Við sátum svo heillengi og nutum þess að fá okkur kaffi saman, og spjölluðum heilmikið. Svo þurfti hún að fara aftur í vinnuna, en ég er svo stór strákur að það er allt í lagi. Mér finnst svo gaman á leikskólanum, ég hljóp inn að leika, vitandi að ég sæi hana þegar hún kæmi úr vinnunni. Við dundum okkur alltaf eitthvað á kvöldin, þá eigum við alltaf góðar stundir.

Mamma tók nokkrar myndir í dag og er meira að segja búin að setja þær inn á netið: Dansdagur Undralands.

mánudagur, mars 12, 2007

Hæ hó!
Alveg yndisleg helgi að baki. Við mamma voru heima og létum fara vel um okkur. Hittum Þórhöllu frænku og Hjört Smára þar sem þau voru á fótboltamóti hér á Akureyri! Hjörtur var að keppa og gekk þeim rosalega vel :)
Já við mamma áttum góða helgi. Leiruðum, kubbuðum og mamma reyndi að kenna mér að kasta bolta að vegg og grípa en það gekk ekki alveg. Ég skemmti mér svo vel með þann leik að ég fór klukkan hálf sjö í morgun - vel úthvíldur - og náði í boltana og ætlaðist til að mamma kæmi þá á fætur til að kasta með mér :) en það gekk ekki alveg upp hjá mér.
Afi minn gaf mér skó á föstudaginn, þeir eru með ljósum í sólanum og það þurfti ekki mikið að dextra mig til að fara í þá. Og ég vildi sofa í þeim, og vera í þeim alltaf. Mamma náði að tala mig inná að þeir ættu ekki að fara í leikskólann, ég á aðra inniskó til að vera með þar. En ég er rosalega ánægður með skóna, og vil bara vera í þeim :)

föstudagur, mars 09, 2007

Halló halló! þá er helgin loks að nálgast :) gaman gaman. Við mamma plönum rólega og góða helgi hérna heima! njóta þess að vera saman og engin veikindi í gangi.
Ég alltaf jafn hress, og þegar ég mætti í morgun í leikskólann voru andlitsmálningar í gangi! Svo voru bakaðar möffins! Og mamma fann myndir af mér, og smellti þeim á síðuna mína handa ykkur!

miðvikudagur, mars 07, 2007


vá - getur sonur minn setið svona kyrr ! ?? !!

þriðjudagur, mars 06, 2007

Halló halló!! þá er gaman að vera til eins og alltaf! Ég er orðinn frískur og hress og meeega hress! mamma kom í sveitina á föstudag, lasin enn, en afi go amma voru að veikjast svo mamma varð að koma og ná í mig. Um leið og ég sá hana þá vildi ég fara heim "bílinn bílinn" og æddi fram að útihurð og fór í skóna mína, tók sæng mína og Gogga og var tilbúinn að fara. Varð dálítið reiður þegar ég fattaði að við værum ekki að fara strax, og að við færum ekki fyrr en daginn eftir.


Svo við mamma komum heim á laugardaginn, og ég var svo kátur ég hljóp um alla íbúð, hjólaði, kubbaði, brunaði á bílnum mínum, kubbaði meira, horfði á Bubba Byggir, allt á fyrstu 10 mín! Mamma mín enn lasin, go hún réði ekkert við mig, ég var bara svo ofboðslega kátur að koma heim.


Sunnudag var mamma mín lasin enn, go ég var rosa þægur og góður, duglegur að leika mér sjálfur, ekkert að vesenast, ekkert að böggast eða með leiðindi. Ég var bara svo kátur að vera heima hjá mér. Mér finnst rosa gaman að koma til afa og ömmu, og vera hjá þeim en ég er afar heimakær gutti. Ég náttla tók til hjá okkur , nokkrum sinnum á sunnudaginn, endurinnréttaði íbúðina okkar, sko kubbarnir voru ekki á réttum stað, hjólið átti að vera á sínum stað, litirnir á borðinu og svo framv.


Sef núna alveg einn alla nóttina í rúminu mínu. Fæ að kúra hjá mömmsunni minni um sjö og þar til við förum á fætur :)


Ég hljóp inn á leikskólann í morgun, var heldur feiminn í gær, en í dag kyssti ég mömmu bless og hljóp inn að leika! Mér finnst svo gaman að vera orðinn frískur og hress.
Hér er ég að borða ávexti og rjóma á sunnudaginn! Þetta var sko nammi namm! ferskir ávextir, vínber, mandarínur, melónur og smá rjómi með - ég er sko sælkeri!

föstudagur, mars 02, 2007

Halló !! Ég er enn í sveitinni hjá afa og ömmu og mér líður vel! Þau eru svo góð! Þórhalla móða hefur verið að gauka að okkur dóti og það er svo margt fallegt sem Hjörtur og Sylvía hafa átt! Hjörtur á svo marga flotta bíla! Mamma mín er enn veik, og hefur ekkert getað komið til okkar. Hún vonast til að geta komið uppeftir í dag, henni líður betur núna en henni hefur gert í nokkra daga.


Ég er enn afastrákur, skil ekki af hverju afi þarf alltaf að fara út að vinna. Við amma látum fara vel um okkur og höfum það gott saman.


----
Ég er gítarsnillingur (með berjasultu)!!!