miðvikudagur, apríl 25, 2007


Hæ hæ ! mamma fann þessa líka flottu mynd af mér úr miðjum bílaleik á leikskólanum! Ég á bílavin þar - sem grenilega hefur bíladellu eins og ég !
Við mamma löbbuðum í skólann í morgun -svo frábært veður! Og það eru svo mörg flott mótorhjól sem keyrðu framhjá okkur og ég sat í kerrunni og benti í allar áttir alveg gáttaður..

þriðjudagur, apríl 24, 2007


Nóg að gera hjá litlum manni!

Nú - dagurinn byrjaði klukkan hálf sex, eitthvað vakti mig og ég skreið uppí til mömmu með legóbiblíuna mína sem kom í póstinum í gær. Mamma var nú ekki alveg á að fara á fætur og fékk mig til að lúlla til hálf sjö. Þá var ég búinn að kveikja öll ljós, kveikja á sjónvarpinu inni hjá henni, kveikja á útvarpsvekjaranum, er dulítið líkur afa mínum og langafa með það að vilja hafa alla fjölmiðla heimilisins í gangi. Svo hoppaði ég um rúmið hlæjandi.. ohh svo gaman!!

Sá hún sér þá þann kost vænstan að skipta á mér, setja Bubba Byggir í dvd og gefa mér seríós. Ég auðvitað hæst ánægður með það! En ég hélst ekki of lengi við - kláraði seríósið og fór að brasa inni í tölvu/leikherberginu okkar mömmu..

Mamma kallar "Gabríel ertu nokkuð að fikta?"... - hvurslags spurning er þetta - auðvitað svara ég sakleysislega "nei" En svo heyrði ég mömmu koma fram, og hún var við að góma mig með ilmvatnið hennar svo ég set upp englasvipinn og sýni henni hvað ég "fann" voða sætur og saklaus.. þó að hún finni lyktina af mér - og herbergið er ilmandi.... hún brosti bara, kyssti mig og tók ilmvatnið.

Svo skipti hún aftur á mér - líkamsstarfsemin mín er í góðu lagi skal ég sko ykkur segja! nema hvað - ég fer að príla og dett.... dett úr sófanum á glerborðið okkar, lendi á brúninni með eyrað mitt. Fæ skrámu, og fer að gráta. Mamma kyssir á báttið, og ég hætti að gráta. Mömmukoss er besti sálarplástur sem til er! Og ég þarf smá að láta tala mig til í að fara í fötin. Er dálítið lítill í mér eftir byltuna, varð dálítið hræddur. Málið er að mamma mín segir við mig oft á dag " ekki príla þú gætir dottið" ... ég hlusta aldrei, og núna datt ég... og sennilegast þá á ég eftir að príla meira og detta oftar áður en þetta síast inn í minn þykka haus :)

Rúsínan í pylsuendanum: við komum í skólann. Og var þá löggubíll í öllu sínu veldi staddur fyrir utan. Ég fékkst ekki til að fara inn fyrr en ég var búinn að skoða bílinn, klappa dekkjunum og löggustelpan meira að segja talaði við mig! Og ég í skýjunum yfir þessu - bíllinn var svo flottur!

Já það er sko nóg að gera hjá litlum manni!!!

föstudagur, apríl 20, 2007

Gleðilegt sumar!!!!
Og takk fyrir veturinn !!

Núna er gaman að vera til - það er reyndar alltaf gaman að vera til. - nema þegar ég tek frekjuköstin mín því mamma hún lætur ekkert undan. En nóg um það - í dag sækja afi og amma mig á leikskólann og ég fer í sveitina í afabíl!! Mamma er að vinna á morgun og kemur svo í sveitina. Það er búið að vera rosa gaman í vikunni. Þórhalla frænka, Hjörtur, Sylvía og Lárus eru í heimsókn vegna Andtrésar Andar leikanna. Hjörtur er að keppa og var í 9. sæti í gær - spennandi að sjá hvernig honum gengur í dag! En 9. sætið af öllu landinu er svo flott hjá honum!! Og ég lít svo mikið upp til hans - hann er svo duglegur að kubba, lesa og stór! Ég hermi allt eftir honum!!

miðvikudagur, apríl 18, 2007

hæ hæ !
í dag er snjór! Mamma ekki svo ánægð, ég hins vegar hæst ánægður með þetta. "bíla mína bíla mína" þegar ég vaknaði og "galla mína galla mína" enn hærra, og bendi á útigallinn minn. Ætla sko ekki að vera heima í dag, enda líður mér sko bara miklu betur!
Ég reyndar byrjaði á að segja mömmu að ég væri svangur, svo þegar ég var kominn með í mallann þá gat ég farið að hugsa um annað.

Ég var nefnilega hálf slappur í gær, svaf í 12 tíma, með rauð augu bullandi hor. Mamma ákvað að halda mér heima í gær. Sem var bara allt í lagi. Hafði það mjög gott. En einn dagur er nóg, sérstaklega þegar mér líður svona miklu betur.
Svo núna skelli ég mér á náttfataball í leikskólanum - ég segi ykkur frá því síðar - og eflaust taka fóstrurnar myndir af okkur !!
Sjáumst !

laugardagur, apríl 14, 2007

Halló halló!!! Núna er ég í passi hjá afa og ömmu í sveitinni! Mamma er að vinna en kemur á eftir. Við amma erum sko búin að fara út á róló í góða veðrinu og leika okkur!







í gær var ömmu og afa dagur í leikskólanum mínum og ég bauð Siggu ömmu og Magnúsi afa að koma og kíkja á mig ! Og það var rosalega gaman að fá þau í heimsókn. Var ólmur í að sýna þeim allt dótið mitt, skólann minn og það sem ég er vanur að gera hérna! Og svo auðvitað bauð ég þeim upp á kaffi og kökur, sem við bökuðum í vikunni! Þetta var rosalega gaman að hitta þau þar sem ég sé þau ekki oft.




Ég óska ykkur öllum góðrar helgar!!

föstudagur, apríl 13, 2007



Páskamyndir hérna:

Páskar 2007

fimmtudagur, apríl 12, 2007


Í dag á prinsessan hún Anna Valgerður Káradóttir afmæli!
Hún er 1. árs í dag!!
---
Til hamingju með daginn elsku vinkona!

þriðjudagur, apríl 10, 2007

Takk fyrir frábæra páska!!!

Við mamma fórum í sveitina til afa og ömmu á fimmtudaginn. Ég var búinn að vera rosalega duglegur hjá henni í vinnunni, þægur og góður, hjálpaði henni og var ekkert að mótþróast við hana - enda var rosalega gaman hjá okkur. Fékk að teikna á tússtöfluna í fundarherberginu og vandaði mig að fara ekki útfyrir töfluna :)

Fékk fyrsta páskaeggið mitt á fimmtudaginn, og minn fyrsti málsháttur er Kærleikurinn er Kröfuharðastur :) veit ekki hvort þetta eigi eitthvað við mig he he he.


Við fengum skemmtilega heimsókn á föstudeginum. Prinsessan Anna Vala kom í heimsókn - með mömmu sinni og pabba :) hún er svo skemmtileg, og ég reyndi að sína henni dótið. Var reyndar ekki sáttur þegar hún var að fikta í hjólinum mínu og mamma mín mátti sko alls ekki halda á henni. En hún var rosalega sæt og skemmtileg. Get sko alveg notað hana í prakkarastrik þar sem amma gómaði okkur í ísskápnum, ég með kók og Anna Valgerður með tómastósuna he he he :)

Fórum laugardagsrúnt til Akureyrar, við mamma, afi og amma, gaman í afabíl skal ég ykkur segja :) Afi keypti sér nýtt grill!!! Gamla grillið þeirra var orðið 15 ára gamalt og Guð einn veit hve mörg kg af kjöti hefur verið grillað á því grilli. En það var alveg búið og kominn tími á að leggja það til hinstu hvílu :)

Við mamma áttum yndislega páska. Vaknaði með afa og ömmu á formúluna - horfði allann tímann og var rosalega hrifinn það var svo gaman að sjá alla bílana. Lékum okkur og fórum á þríhjólið mitt út að labba! Ég hjólaði og hjólaði, vildi hjóla lengra en mamma sagði að við yrðum að snúa við þar sem vegalengdin til baka er jafnlöng og það var býsna langt. Fórum í heimsókn til Þórhöllu frænku, og Hjörtur á svo flotta bíla! og hann á hamstur!! Ég fékk að halda á henni og hún var svo sæt, og ég var svo góður við hana, var "aaaa" við hana og klappaði henni varlega.

Páskasteikin var Kalkúnn að hætti afa - og hann var svakalega góður! ég borðaði vel, og það var gaman að fá Þórhöllu frænku, Lárus og Hjört Smára í heimsókn, auk þess sem Jenni í Belg kom líka :) mamma og Þórhalla færðu svo Sylvíu frænku mat í vinnuna hennar - en ég sá hana voða lítið þar sem hún var að vinna alla dagana.

Mánudaginn fórum við í sund, afskaplega gott veður, sól og logn. Enda fengum við grillmat ! Og það var sko ekki slæmt!

Já Páskarnir voru hreint yndislegir. Reyndar varð mamma mín að fara í gær, og ég er eftir hjá afa og ömmu. Leikskólinn lokaður í dag og hún varð að vinna. Ég skildi hana í gær, vildi fara heim, var farinn að hlaupa um með skóna, þegar hún tók utan um mig go sagði að nú yrði ég að vera duglegur, hún yrði að fara að vinna og ég yrði að bíða hjá afa og ömmu. Hún knúsaði mig og kyssti. Ég varð dálítð svekktur, en ég hljóp þess í stað út í glugga og vinkaði henni bless. Fór ekkert að gráta! Ég er svo stór strákur, auk þess veit ég hún kemur aftur, hún kemur alltaf aftur :)



mánudagur, apríl 02, 2007


Hæ hæ !!! Núna er Þórey frábæra fóstran mín farin í páskafrí. Þannig að ef einhver á Akureyrinni gæti passað mig þessa 3 daga milli 5 og 6 endilega hafið samband við mömmsuna mína! Annars sennilega þarf ég að vera hjá henni í vinnunni ... það er kannski allt í lagi, svo framarlega ég fái eitthvað að borða á meðan þá er ég sennilegast bara sáttur!

En við mamma áttu frábæra helgi! Afi og amma komu á laugardag, og við fórum með þeim á Greifann. Afi go amma komu sko með sjónvarpsskáp sem Þórhalla frænka var hætt að nota og við björguðum honum frá bráðri hættu ruslahauganna! Það var fjör!

Ég var hins vegar ekki sá alþægasti á Greifanum. Var sko ekkert til í að sitja bara kjurr á einum stað. En það var rosalega gaman að hitta þau - og að fá að keyra í afabíl er sko toppurinn á tilverunni!!

Á sunnudagsmorgun vaknaði ég kl 6.. !! Mamma var sko ekki á því að fara með mér á fætur þá svo hún skipti á mér, gaf mér að borða og ég fór að leika mér - á meðan hún "vaknaði inni í rúmi" Ég var svo góður að ég leyfði henni bara að lulla áfram og lék mér þægur.

Klukkan átta fórum við í sund, þrifum svo bílinn, rúntuðum Akureyri endilanga til að skoða gröfur. Og enduðum í bókabúð, mamma gaf mér Bubba byggir bók, sjálf þurfti hún bara að labba í gegn til að finna lyktina.. Eftir þennan frábæra rúnt var ég þreyttur og sofnaði fljótlega eftir hádegi!

Svo máluðum við mamma leirinn sem við bjuggum til um daginn. Ég bjó til litla skál, sem reyndar mamma hjálpaði mér aðeins með, en ég sko málaði hana alla alveg sjálfur, og mamma skipti sér ekkert að.

Mamma var að kenna mér Bubba Byggir lagið, og ég segi alltaf Bubbi Byggir í einu orði... "bibdir" og það er víst rosalega fyndið að heyra mig syngja laglínuna.. :)

Já við áttum svo góða helgi, okkur líður svo vel. Það er svo gott veður, við erum svo kát. Lífið er frábært!!!

Myndir frá þessari helgi er komnar á netið-smellið hér!!!