mánudagur, júní 27, 2005

Halló halló! Fór í sund í dag. Í fyrsta skipti!! Fórum einn rúnt á Djúpavog, þar er svo rosalega góð innilaug, með frábærri buslulaug. Mér fannst þetta alveg frábærlega gaman! Ég buslaði og sullaði og frussaði af öllum kröftum. Fannst þetta rosalega gaman - svaka stuð! Svo stoppuðum við í sjoppu til að borða - auðvitað var mamma mín með krukku af epla/bláberjamauki (uppáhaldið mitt) Ég lék á alls oddi í sjoppunni, hló og skríkti af kátínu. Enda slokknaði svo á mér í bílnum á leiðinni heim.
Þetta var svolítið annað en þegar við ætluðum á skógræktarhátíðina í Hallormsstað á laugardaginn sl. Rosalega gott veður, tókum vagninn með, og ætluðum sko að eiga ánægjulegan dag. Sem við jú gerðum, en ekki þarna. Ég tók það ekki í mál að stoppa þarna, á þessum stað, með öllu þessu fólki. Og einhver kona að gaula uppi á sviði, og ég tók bara undir tónana hjá henni og gargaði eins og lungun mín leyfðu. Svo var einhver kall að grilla heilt naut yfir eldi og mér leist heldur ekkert á það og gargaði enn meir. Svo mamma og pabbi sáu þann kostinn vænstan að fara með mig aftur. Við sem sagt stoppuðum kannski í 10 mín. Og pabbi fékk ekki heilgrillað naut..... En þetta var mjög skemmtilegur rúntur :o)
Svo á að skíra mig um næstu helgi. Lítil athöfn með nánustu ættingjum. Verð skírður hér á Kolfreyjustað. Presturinn séra Þórey frænka mín mun framkvæma gjörninginn. Þetta verður svaka fjör.....
Þar til næst hafið það gott.

þriðjudagur, júní 21, 2005

Halló halló halló!
Í dag á hann Valgeir afi minn afmæli!
Til hamingju með afmælið elsku afi minn!

Mamma setti inn myndir af mér, ég er að lesa blöðin og fleiri skemmtilegar - endilega skoðið þær. Annars er allt gott að frétta, ég er dálítið pirraður stundum út af tönnunum, en ég harka af mér og græt aldrei, nöldra bara smá.
Mamma og pabbi eru farin að gefa mér meira af venjulegri fæðu, já ef venjulega skildi kalla, þessa frá Gerber úr krukkum, allaveganna gúmmulaði og mér finnst það afskaplega gott. Enda stækka ég og stækka. Núna bíðum við í ofvæni eftir því að Edda frænka verði mamma, hlakka svoo til og mamma er alltaf að skoða símann sinn ef ske kynni að sms skilaboð væru komin með tilkynningu um fjölgun..

fimmtudagur, júní 16, 2005

Hæ hæ kæru vinir. Héðan er allt gott að frétta. Pabbi er búinn að vera svo duglegur uppi á hæð 2 að ég varla sé hann. Enda er sú hæð mega flott núna. Ætlunin er að mamma og pabbi flytji tölvurnar sínar upp, og ég fái svo herbergið hennar mömmu sem mitt herbergi. Ég er kannski enn of lítill til að sofa einn í herbergi, en ég hlakka allavega til að eignast mitt eigið herbergi. Stór strákur ég!.
Það hefur verið frábært veður undanfarið, og höfum við verið úti í garði. Ég sit í vagninum mínum, með sæng til stuðnings þar sem ég er ekki alveg farinn að sitja sjálfur (stutt samt í það) og það er svaka gaman að fylgjast með öllu.
Svo eignaðist ég fyrstu bókina mína í vikunni. Hún var rosa góð, á alla máta. Mamma las hana fyrir mig, og hún fjallar um heimsókn afa og ömmu. Alveg frábærlega litskrúðug og ég varla gat hamið kátínuna sem braust fram við lesturinn. Þessi bók líka endist lengur en dagskráin....

miðvikudagur, júní 08, 2005

Sælinú - ég er alltaf jafn hress og kátur. Mamma var loks að setja inn fleiri myndir af mér og okkur. Gengur ekki þegar dyggir lesendur fá ekkert nýtt í æð reglulega!
Við tókum rúnt til Akureyrar á mánudaginn. Ég var rosalega duglegur alla leiðina, þetta var löng ferð, en ég var svo þægur og góður. Við stoppuðum hjá Rósu ömmu og Valgeir afa svo mamma gæti gefið mér hádegisgraut. Þau pöntuðu nýjan bílstól handa mér. Mér finnst hinn vera orðinn óþægilegur, ég er bara að verða allt of stór í hann. Við kíktum í vinnunna til Siggu ömmu og Magnúsar afa. Ég var bara orðinn svo þreyttur að það var voða lítið hægt að ræða við mig. Enda sofnaði ég með pelann í stólnum mínum, í innkaupakerru, inni í Centro á Glerártorgi. Fékk graut á bakaleiðinni hjá afa og ömmu í Mývó, svaf alla leiðina austur, og sofnaði um leið og ég var lagður í rúmið mitt - já rúmið mitt er besta rúm í heimi.

laugardagur, júní 04, 2005

Góðan daginn gott fólk - í dag náði ég að velta mér í fyrsta skipti!! Lá á maganum og velti mér yfir á bakið!! Svaka duglegur - ég er alveg að verða stór strákur :o)
Mamma tók tímann á mér í gær þegar ég var að "tala" og ég samkjaftaði ekki í klukkutíma og 20 mín. Hmm.. ég er afar efnilegur!
Mér finnst ógurlega gaman að æfa mig í að sitja. Við æfum okkur oft og ég er farinn að geta setið smá óstuddur. Það er rosalega gaman - enda var ég að finna nýja vini - tærnar á mér - þær eru rosalega skemmtlegar - hlakka til að kynnast þeim betur!
Smáhlutir, já þeir eru líka afar skemmtilegir. Ef mamma situr með mig við skrifborðið sitt þá mega engir hlutir vera nálægt - puttarnir mínir virka sko alveg! Held meira að segja að það sé smá tannafar eftir mig í strokleðrinu hennar mömmu!