miðvikudagur, apríl 29, 2009

Nýtt útlit á síðunni

hæ hæ !

mamma fékk kast og ákvað að breyta til !! Núna erum við komin með athugasemdaglugga líka við hverja færslu! Gaman væri að fá smá skoðanir á þessu nýja útliti – ef einvherjir eiga erfitt með að lesa smátt, eða lit.  Mamma getur breytt þessu öllu saman :)

Gestabókin er með sama sniði á sínum stað og væri rosalega gaman að fá kvitt þar :o)

Mamma tók út listann með öllum myndunum, og er nú bara ein slóð á öll myndaalmbúmin okkar :) einnig bætti hún inn slóð á myndböndin okkar.  Hún setti til gamans 2 jólamyndbönd þar sem ég er stjarnan að taka upp pakka :o)

Allavega er hérna rosalega gott veður – ég fór í skólann á bolnum – hrikalega ánægður með sjálfan mig !!

Mamma ætlar að kaupa hjól á morgun og ætlum við að fara að hjóla í skóla og vinnu í sumar !! það verður bara gaman!!!

Bið að heilsa
Gabríel Alexander

mánudagur, apríl 27, 2009

Sveitin um helgina – gullkorn

Við mamma áttum langa helgi saman.  Fórum í sveitina á miðvikudag, sumardagurinn fyrsti var á fimmtudaginn.  Og mamma fékk frí í vinnunni á föstudag.  Við áttum góða daga, fórum í sund og lónið.  Við  mamma keyptum okkur vatnsbyssur í tilefni sumarssins.  Flottar byssur úr rúmfó með pumpu.  Og við í sund með þessar og það var rosalega gaman hjá okkur! Amma mín kom með og við skemmtum okkur rosalega vel.  Fórum líka í lónið og þar var sko hægt að leika sér með vatnsbyssurnar !

þegar við vorum komin heim úr sundi á sumardaginn fyrsta var ég eitthvað að leika mér með byssuna og var með hana inni í sjónvarpsherbergi, og hvað haldiði ; ég óvart sprautaði á ömmu sem sat í mestu makindum þar inni og var að slappa af.  Hún gólaði ekkert smá mikið ha ha ha – en þetta var alveg óvart – það átti ekki að vera neitt vatn í byssunni. 

Seinna var ég að leika mér inni í herberginu þeirra ömmu og afa.  Amma var þar inni og var að lesa og ég að spjalla við hana.  Svo tala ég um að ég sé sybbinn og vill slökkva ljósin, og slekk á afa lampa, fer niður úr rúminu til að slökkva loftljósin og bið ömmu um að slökkva á sínum lampa.  Þá tek ég eftir því að amma á nýjan lampa.. “amma nýtt ljós.. “ og labba aðeins áfram en mundi svo ekki að ég var að fara að slökkva ljósin sjálfur og spyr með stóru bláu augun mín … “amma hvert var ég að fara… ???”

Þegar við mamma og amma vorum á leiðinni í Lónið þá erum við að spjalla um skóla og skólamál.  Ég td var alveg harður á því að Sylvía Ósk væri í leikskóla.  Og mamma var að útskýra fyrir mér að ég væri í leikskóla, svo þegar ég yrði stærri þá færi ég isvona stóru krakka skóla eins og Hjörtur Smári væri í, og því næst þegar ég yrði jafn stór og Sylvía þá færi ég í enn stærri skóla.  Og ég byrjaði að telja upp ferlið á skólunum og endaði svo á að segja: “Þegar ég verð hundur þá fer ég í hundaskóla..”

GAH i glugga

þriðjudagur, apríl 21, 2009

Pabbahelgi að baki – sveitin á morgun

hæ hæ !

Ég var hjá pabba um sl helgi og skemmti mér vel.  Allavega er ég kominn með sundskýlufar eftir sundið um helgina og er vel útitekinn. Ég var mikið þreyttur þegar mamma sótti mig í skólann í gær.  Og þegar heim var komið henti ég mér í fangið hennar og grét pínulítið, svo þreyttur var ég.  Vildi bara súrmjólk í matinn og fór í bað.  Lék mér reyndar heillengi í baði, horfði á Simpsons og sofnaði strax þegar mamma var búin að lesa fyrir mig.  Klukkan hefur kannski verið orðin 20:10. 

Ég vaknaði líka mikið hress í morgun.  Var búinn að leika mér slatta áður en ég vakti mömmu um hálf sjö.  Fuglarnir sungu og sólin skein. Og við vorum á góðum tíma úr húsi og við hlustuðum á Linkin Park fyrir utan skólann á meðan við biðum eftir að opnaði :o)

Á morgun förum við svo í sveitina.  Fer til pabba í fyrramálið og verð hjá honum á meðan mamma vinnur.  Svo er sumardagurinn fyrsti, og aftur lokað á föstudag í skólanum.  Við mamma ætlum að vera í sveitinni :o)

Þessi mynd er tekin í morgun á meðan við bíðum eftir skólanum:

DSC00846

“afagretta”

sunnudagur, apríl 12, 2009

Fyrsta skíðaferðin!

hæ hæ!

Í dag fór ég á skíði í fyrsta skipti og það var rosalega gaman!! ég reyndar varð svolítið hræddur við lyftuna en vildi renna mér og renna mér ! Sylvía frænka hjálpaði mér mikið og Þórhalla frænka reddaði okkur skíðum, klossum og hjálmi alveg frábært!!

Mamma er búin að setja myndir á flikkrið okkar smellið hér !

DSC05397

Gleðilega páska!

hæ hæ !! Við mamma erum í sveitinni.  Ég er búinn að opna annað páskaeggið mitt og er að horfa á Tímon og Púmba og maula eggið mitt.  Reyndar er ég bara með smá brot af því og rest í stórri skál frammi í eldhúsi.

Ég er svo heppinn að ég fékk tvö egg.  Eitt frá afa og ömmu og annað frá pabba.   Afi minn var svo óheppinn að eggið hans brotnaði og mér fannst það svo leiðinlegt afa vegna að í gær þá gaf ég honum annað eggið mitt.  Var næstum farinn að gráta fyrir hönd afa þegar hans egg brotnaði, mér finnst það ógurlega sorglegt.  Og auðvitað vildi ég vera góður við afa minn og gaf honum annað mitt.  Afi sagði að við ættum það saman og við tveir ætlum að opna það seinna í dag.  Mamma og amma táruðust í laumi yfir hvað ég er með gott hjarta og góður drengur í mér. 

Fórum í lónið i gær og ég fékk ekki þessi útbrot sem ég fékk síðast ! Það var rosalega gaman í lóninu!

DSC05373

Mamma er búin að setja páskamyndir á flikkrið okkar smellið hérna :o) 

miðvikudagur, apríl 08, 2009

Páskafrí

Hæ hæ ! ég er kominn heim úr Vestmannaeyjum.  Það var rosalega gaman! Hitti fullt af fólki. Atli Freyr bróðir minn var að fermast.  Ég var búin að tala um þetta ferðalag lengi og við mamma að telja niður.  Ég fór sem sagt með pabba mínum og þeim úr Grænugötu.  Keyrðum suður á föstudag, flugum í Eyjar á laugardag, gistum þar um nóttina, flugum í bæinn aftur á sunnudag og keyrðum heim á mánudag.  Ég fór til pabba á fimmtudag þar sem við fórum snemma á föstudag.  Og þar sem við komum seint heim á mánudag þá hitti ég ekki mömmsu mína aftur fyrr en á þriðjudag.  En mikið var nú gott að knúsa hana.  Og við lékum okkur með kubbana mína og dótið mitt.  Og ég sofnaði svo þreyttur og sæll með ferðina.  Sagði mömmu frá öllu því skemmtilega sem ég sá.

Á morgun förum við svo í sveitina til afa og ömmu.  Ég spurði mömmu strax í gær hvort hún hefði nokkuð gleymt að kaupa páskaegg.  En hún sagði að amma mín væri búin að græja það allt saman.  Mamma er með eggið heima og ég fékk að sjá það! og það er svo flott!! með Býflugu með “kakóbolla”

En þetta verður rosalega gaman!

Við mamma óskum ykkur gleðilegra páska!

DSC00809

föstudagur, apríl 03, 2009

Pabbahelgi – Vestmannaeyjar

hæ hæ! Já loksins kom þessi dagur sem ég er búinn að bíða eftir.  Pabbi kom og sótti mig í skólann í gær.  Og ég er að fara í ferðalag með honum og öllum í Grænugötu í dag og komum ekki heim fyrr en á mánudag!  Atli Freyr stóri bróðir verður nefnilega fermdur á laugardaginn úti í Vestmannaeyjum og ætlum við að vera viðstödd :)

Mamma sótti mig á miðvikudag og við fórum og leituðum að heyrnatólum á mp3 spilararnn hennar.  Hún setti inn í hann fullt af Disney sögum; krókur á kreiki (Cars) og Bolt, Valla Vélmenni og Mugga Mörgæs svo eitthvað sé nefnt.  Verður fínt að hafa þetta á eyrunum td þegar ég fer í flugvélina þar sem ég er svo hávaðahræddur.   Já ég fer í flugvél út í eyjar !
Og svo hafði mamma keypt handa mér nýja skó.  Verð auðvitað að vera fínn í veislunni og hún keypti handa mér svona góða strigaskó og það er mynd af fótbolta á hliðinni á þeim og viti menn ; það koma ljós á þá! ég hljóp í þeim  um alla íbúð frá því við komum  heim þar til ég fór að sofa.  Og þeir fengu heiðurssess við rúmið mitt yfir nóttina.  Mamma segir ég megi nota þá inni á meðan snjórinn er og svo í sumar þá geti ég farið í þeim í skólann!

Ég er allavega kátur strákur.  Og óska ykkur öllum góðrar helgar!

DSC00499