fimmtudagur, desember 24, 2009

Jólakveðja

jólakveðja

miðvikudagur, desember 23, 2009

Þorláksmessa í dag

- á morgun verð ég loksins 5 ára !

ég er búinn að bíða og bíða.  Eftir afmælið á föstudag hélt ég að ég væri orðinn 5 ára, en svo var víst ekki.  Í gær þá fékk ég afmæliskveðjurnar og að blása á kertin og þá hélt ég að ég væri orðinn 5 ára, en nei…

núna þarf ég bara að sofa eina nótt og þá verð ég 5 ára!!

Við mamma áttum góða helgi.  Dóa frænka kom í heimsókn á laugardag og gaf mér rosa flottan bíl í afmælisgjöf ! og svo skreyttum við mamma tréð á sunnudag, hlustuðum á jólalög og höfðum það kósí!

Svo kom Elísa vinkona mömmu og Pétur maðurinn hennar og þau gáfu mér afmælisgjöf líka; rosaflott gult mótorhjól ! og Pez.. namminamm.  Var heldur feiminn á meðan þau voru í heimsókn en um leið og þau fóru fór ég að dásama hjólið. 

Í morgun spratt ég á fætur, og beint í skóinn, og viti menn – ég fékk bíl !! Ég er svo spenntur núna.  Hlakka til að mamma kemur og sækir mig og við förum í sveitina til afa go ömmu!

Snowman-Christmas-2008-animated-christmas-2761792-320-320

laugardagur, desember 19, 2009

5 ára afmælisveisla

í gær héldum við uppá 5 ára afmælið mitt.  Ég bauð vinum mínum úr skólanum, svo komu pabbi, Hulda, Tinna og Tara, Sylvía og Áslaug, og svo duttu Þórhalla og Lárus í smá kaffi.  Þau voru reyndar að sækja Sylvíu sem fór með þeim í jólafrí upp í sveit. 

Mamma var búin að baka og skreyta með blöðrum og Leiftur McQueen dúkur og glös.  Fyrsta afmælisveislan mín fyrir vini mína úr skólanum og mér fannst þetta alveg snilld!  var rosa kátur þegar ég kom heim úr skólanum og sá blöðrurnar.

Þetta var rosalegal gaman ! Fékk alveg meiriháttar Leiftur McQueen bíl frá pabba og Huldu, rosa flottan mótorhjóla playmobil kall og mótorhjól, og mynd af Leiftri McQueen frá Tinnu og Töru.  Mótorhjólakallinn er með númerinu 5 á bakinu og ég er búinn að skira hann Hjört, eins og Hjörtur frændi í sveitinni sem er farinn að fara á mótorhjól líka ! Svo fékk ég rosa flotta rútu frá Jóhannesi og playmobil dót frá Finn og pening frá Aron Orra. 

Svo var sungið og ég blés á kertin og við strákarnir lékum okkur á meðan fullorðna fólkið sötraði kaffi og spjallaði :o)

Ég var hamingjusamasti strákur í heimi þegar ég fór að sofa !  

DSC07379ég búin að blása á kertin

DSC07374ég og Jóhannes vinur minn
DSC07376Aron Orri og Finnur DSC07380Ég að leika mér með Leiftur McQueen bílinn minn

- smelllið á myndir til að sjá stærri, þær opnast í nýjum glugga :o)

föstudagur, desember 18, 2009

Fjólublár hanakambur

DSC07369 DSC07368

Myndin tekin af manninum þegar hann var komin í tölvuna og þá er bara ein lína :o) – smellið á myndir til að sjá þær stærri :o)

afmælisveisla í kvöld

og nokkrir vinir mínir koma í heimsókn :o) Og þau í pabbi og þau í Grænugötunni kíkja líka.  Vona að Sylvía komist í smá heimsókn.  Hlakka voða mikið til og er mjög spenntur.  Annars er ég ekki alveg að skilja þetta ennþá, í dag er ekki sungið fyrir mig í skólanum, heldur verður það gert á Þorláksmessu. Afmælið mitt er samt eftir 6 daga… Og ég má ekki opna pakkana sem koma í póstinum…

Jólasveinninn er flottur kall sem gefur flotta bíla í skóinn…

Og ég fékk fjólubláan hanakamb í klippingunni í gær ! (fjólublái liturinn þvæst úr í einum þvotti) Ég er rosalega montinn af hanakambinum mínum !

animated-glitter-santa-claus-graphic

þriðjudagur, desember 15, 2009

Jólin koma jólin koma !!

og ég er bara kátur með þetta allt saman !

Var hjá pabba um helgina og það var nóg að gera – skreytti meira að segja með þeim og var voða kátur með það !

Núna erum við mamma að skipuleggja afmælið mitt á föstudag, hlakka mikið til ! Við erum búin að versla allar jólagjafir, búin að pakka þeim inn, go allt að verða klárt :o)

Og ég er bara að verða spenntur !

GAH Freydis1

miðvikudagur, desember 09, 2009

Myndir frá helginni komnar á netið

  hæ hæ!

mamma er búin að setja inn myndir frá helginni á síðuna okkar: 4-6 desember ‘09

18dagar

mánudagur, desember 07, 2009

Skemmtileg helgi !

já það var sko nóg að gera þessa helgi! Byrjaði á að fara til afa og ömmu, og ég fékk að vera einn hjá þeim því mamma fór á jólahlaðborð með vinnunni sinni.  Og það er svo gaman að fá að vera stundum bara einn hjá afa og ömmu.  Mamma kom svo um hádegi á laugardag. 

Seinnipartinn þá fórum við upp í Baðlón til að fylgjast með jólasveinunum taka sitt árlega jólabað! Ég fór ofaní með Þórhöllu frænku, Hirti Smára og Lárusi og það var svo gaman,  mamma var með myndavélina og tók  myndir af öllu !

síðan um kvöldið fóru afi, amma, Þórhalla og Lárus á jólahlaðborð með Grænum og við mamma og Hjörtur áttum rólegt og notalegt kvöld heima hjá afa og ömmu.  við strákarnir fengum ís og flögur og horfðum á skemmtilega mynd í sjónvarpinu ! Var rosa gaman að hafa Hjört með.  Ég lít svo rosalega mikið upp til hans og hann er alltaf svo góður við mig og kubbar með mér !

Vöknuðum snemma á sunnudag.  Mættur á fótboltaæfingu kl 10 og ég var virkilega duglegur.  Mamma lofaði mér að fara á Subway á eftir, ég hafði sko aldrei borðað þar og langaði til að prufa.  - þetta er líka uppáhaldsstaðurinn hans Hjartar Smára sko… Og ég varð ekki fyrir vonbrigðum, gúbbaði í mig heilum 6” bát með kjúklingabringu. 

Því næst fórum við mamma í jólahúsið.  Mér finnst alltaf jafn gaman að fara þangað, skoðuðum mikið og dunduðum. 

Því næst fórum við heim og höfðum fataskipti.  Og fórum í Ketilshús þar sem var jólastund.  Fullt af krökkum að syngja og dansa, jólasveinar með mandarínur og piparkökur, krakkar frá öðrum löndum að segja frá siðum í sínu heimalandi.  Hittum þar Júlíus vin minn, mömmu hans og Guðbjörgu systur hans, en hún var að sýna fimleikaatriði.  þetta var rosalega gaman. 

Því næst fórum við í afmæli til stelpu sem heitir Heiðrún.  Hún átti 10 ára afmæli og mamma hennar er góð vinkona mömmu.  Stoppuðum ekki lengi, fengum okkur smá kökur. 

Fórum og hittum svo Þórhöllu frænku og ömmu á Glerártorgi.  Þær langaði til að fara í jólahúsið svo við fórum bara aftur þangað. Alltaf gaman að fara í jólahúsið.

Og ekki nóg með það en við enduðum á að fara í keilu! Ég hafði aldrei farið í keilu og amma ekki heldur – því líkt gaman ! ég náði fellu ! Ég hef oft talað um það við mömmu að mig langaði í keilu.  Og ég var svo hamingjusamur með þetta allt saman.  Og svo fengum við okkur kvöldmat þar líka.  

Mamma og Þórhalla frænka voru að fara á Frostrósir. Amma mín var hjá mér á meðan.  Ég var líka alveg búinn eftir þennan dag get ég sagt ykkur.  En ég skemmti mér líka rosalega vel – það var svo gaman !

Mamma tók myndir alla helgina. Hún mun setja þær á netið strax og hún kemst í það !

Kær kveðja
Ykkar Gabríel Alexander

þriðjudagur, desember 01, 2009

Gaman í dag !

Mamma og pabbi mættu bæði á skemmtun sem var haldin í skólanum mínum í morgun !  Ég var afskaplega kátur að fá þau bæði. 

Síðan var boðið uppá piparkökur og kaffi á eftir.  Mamma tók nokkrar myndir af vinum mínum og setti inn á flikkrið okkar. 

Á eftir skólanum þá gerðum við mamma smá konfekt.  Ég fékk aðallega að gera og var nánast bara að leika mér með súkkulaðið, en ég gerði slatta af rosa flottu konfekti og það var bara býsna gott þó ég segi sjálfur frá.  Myndir eru líka á flikkrinu okkar : 1. desember 2009

DSC07198(Smellið á mynd til að sjá stærri og í nýjum glugga)

Nýja rúmið mitt :o)

jámm ég fór til pabba á föstudag og átti bara góða og skemmtilega helgi :)

Á meðan ég var hjá pabba komu afi, Lárus, Þórhalla, Hjörtur Smári, amma og Sylvía í heimsókn til mömmu og nýja rúmið mitt var sett upp.  Og vá hvað það er mikið pláss til að leika sér !

 

gah_nyja rumid

Smellið á mynd til að opnist stærri og fleiri eru hérna: Nýja rúmið mitt :o)

fimmtudagur, nóvember 26, 2009

Nýtt útlit á bloggið

hæ hæ !

Mamma ákvað að setja nýtt útlit á bloggið mitt :o) – Og er þá ekki bara við hæfi að hafa Arsenal ? Ég held nú með þeim og er farinn að æfa fótbolta.  Sef með myndirnar hjá mér og vakna talandi um boltann.  Reyndar duttu út titlarnir á hinum færslunum, en ég vona að það rugli ekki hjá ykkur :o)

Annars er allt ljómandi að frétta af okkur. Orðið frekar kalt úti núna.  Fer til pabba um helgina.  Mamma er búin að biðja Lárus og afa um að koma og setja upp nýtt rúm hjá mér.   Fæ ég svona stórt rúm með plássi undir.  Þá stækkar leiksvæðið mitt um helming.  Það verður alveg magnað !

Bið að heilsa !

miðvikudagur, nóvember 25, 2009

Fallegur dagur

smá kveðja frá ritara:

á Akureyri er slabb, rigning, slydda, dimmt og já frekar hráslagarlegt úti.

Við sonur vorum á leið í leikskólann, rúðuþurrkur á milljón, og slabbið gusaðist út um allt í kringum okkur.

þá heyrist úr aftursætinu “mamma í dag er fallegur dagur úti!”

- já svona er sonur minn alltaf jafn hamingjusamur og sér fallegu hlutina í öllu :o)

mánudagur, nóvember 23, 2009

Fyrsti fótboltaleikurinn

hæ hæ !

Í gær var ég að keppa í fyrsta skipti í fótbolta! Æfingin okkar fór fram í Boganum og við spiluðum við 8. flokkinn hjá Þór ! Og það var rosalega gaman ! ég var einn leikinn í marki og ég varði !

GAH_KA Við fengum KA búning til að vera í – og það var svo gaman ! Var fyrst svolítið feiminn og vissi ekki alveg hvernig ég átti að bera mig að, enda voru sumir strákarnir sem eru búnir að æfa miklu lengur rosa duglegir og þeir voru mikið með boltann. En þegar leið á þá fór ég að hlaupa með og sækja í að ná boltanum. (smellið á myndir til að sjá stærri)

Helgin var skemmtileg. Við mamma fórum í sveitina á föstudag, mikið var gott að komast þangað. Var búin að tala um það í nokkra daga!

Fórum snemma á fætur með afa á laugardag og fórum og sinntum kindunum og öðrum störfum í Belg. Rindill er svo óþægur ég var svo hissa, hann hoppaði alltaf á milli spila og húsa í fjárhúsunum. Hann hoppar yfir girðingar! Svo afi varð að hækka grindurnar svo hann kæmist ekki um öll húsin. Á meðan afi var að því var ég að dunda mér við að gefa rollunum. Við sóttum eina gimbur í Grímstaði líka. Henni finnst brauð gott :o) gah_hss

Svo eftir hádegi fórum við með Þórhöllu og Hirti Smára í Dimmuborgir að finna jólasveinana. Það var rosalega gaman. Ég fékk kerti hjá Kertasníki ! og á eftir fórum við í kakó og kleinur í Skjólbrekku.

Afi fór svo með mig eina salibunu á fjórhjólinu.

Ég er svo afskaplega ánægður og kátur með þetta allt saman. knúsaði svo mömmu þegar við komum heim “mamma mín, gott að vera kominn heim”

Myndir frá Dimmuborgum eru komnar á flikkrið okkar: Jólasveinar í Dimmuborgum

föstudagur, nóvember 20, 2009

á leið í sveitina

hæ hæ !

í dag ætlum við mamma í sveitina. Mamma ætlar að hjálpa afa með rollurnar og við ætlum að vera dugleg :o) Kannski fæ ég jafnvel að fara á fjórhjólið hans afa líka ! Mamma allavega passaði að hjálmurinn minn sé með í ferðinni :o)

Vikan er búin að vera góð. Hitti vin minn Jóhannes eftir skóla á þriðjudag. Erum svo bara búin að hafa það næs heima við mamma. Ég er búinn að vera duglegur að leika mér með dótið mitt. Og ég er með alveg brjálaðan áhuga á að lita og teikna. Get setið og litað tímunum saman í litabókina mína og mamma er svo hrifin því ég er bara hættur að lita útfyrir. Svo æfi ég mig að merkja myndirnar – GAH eða GKV eða Gabr.. ég kann ekki næsta staf en það lærist :o)

Var hjá pabba síðustu helgi. Fór á fótboltaæfingu með Huldu og það var rosa gaman. Ég var duglegur og hljóp strax inná og var með allann tímann :o)

Vonandi eigið þið góða helgi framundan
Ykkar Gabríel !

DSC01161

Smellið á myndina til að fá hana stærri í nýjum glugga :o)

fimmtudagur, nóvember 12, 2009

hraustur strákur

hæ hæ !

mamma er að stressa sig. Ég er með dálítið ljótan hósta. Hún setur mælinn í eyrað mitt reglulega og biður til Guðs umað ég sé ekki að verða veikur. En ég er bara ekkert að verða veikur ! ég er hress og kátur!

Mamma var spurð að því í vinnunni um daginn “Guðrún hvernig er það með þinn strák – verður hann bara aldrei lasinn"?”

Mamma flétti upp í blogginu mínu og ég hef ekki fengið flensu síðan í desember 2008! Ég fékk hlaupabólu í janúar 2009 og fótbrotnaði í febrúar. Annars hef ég bara fengið hornasir reglulega go hósta reglulega.. Ekkert til að hafa áhyggjur af. Mamma er held ég bara stressuð út af því að það eru svo margir veikir í kringum okkur. Margir á vinnustaðnum hennar og í skólanum mínum. Pabbi og þau voru líka veik um daginn. En við mamma höfum ekkert lagst núna. (núna bankar mamma í borðið 7-9-13)

Á þriðjudaginn fórum við mamma uppí sveit að sækja súbbann okkar. Afi minn var búinn að gera við hann fyrir okkur ! Og ég var afskaplega ánægður með að fá svona auka afa og ömmu knús! Var búinn að tala svolítið um og spyrja mömmu hvenær við færum aftur í sveitina.

Svo kom vinur minn Snæbjörn í heimsókn í gær. Við vorum roslega stilltir. Og duglegir að leika okkur ! Mamma vissi varla af okkur og við skemmtum okkur virkilega vel ! Fengum popp og klaka og fínerí !

Ég fer svo til pabba um helgina, verð eflaust í góðu yfirlæti þar eins og vanalega :o)

mánudagur, nóvember 09, 2009

sveitin og súbbi og pizzagerðarmaður

hæ hæ !

við fórum í sveitina á föstudag. Sylvía besta frænka kom með okkur, hún hafði verið í hálskirtlatöku og var á leið heim til mömmu sinnar í mömmudekur. Ég og mamma komum fyrst við í búð fyrir afa og sóttum hjálm. Ég var svo gagntekinn af hjálminum að maðurinn í búðinni fékk sko að vita að þessi hjálmur væri handa afa mínum. Og ég passaði hjálminn í kassanum á leiðnni og ég fór með hjálminn inn til afa og rétti honum hann!

Afi fór með mig á rúntinn á fjórhjólinu á laugardeginum. Rosalega gaman. Ég elska fjórhjól. Enda er ég búinn að tilkynna það að ég ætli að verða fjórhjólamaður eins og afi minn þegar ég verð stór.

Ég fór með hjólið mitt líka uppí sveit. Mömmu finnst alveg um að gera að ég æfi mig að hjóla áður en snjórinn kemur. Og ég hjólaði til Þórhöllu frænku í heimsókn. Við fórum öll í sund, ég fékk að leika við Hjört og vin hans Viktor í sundi á meðan mamma og Þórhalla frænka syntu sprettina sína.

Fórum líka í lónið. Fórum öll saman – nema Sylvía þar sem hún var svo slöpp. Enda má hún ekkert gera greyið ámeðan hún er að jafna sig eftir aðgerðina.

Ég kubbaði, lék mér og hvar voða kátur hjá afa og ömmu eins og alltaf. Í morgun þegar við vorum á leið í skólann spurði ég mömmu hvenær við færum aftur til afa go ömmu. Við erum reyndar á ömmu bíl þar sem súbbinn okkar þurfti smá viðgerð hjá afa :o) við erum heppin að afi getur gert við alla bíla !

Í gær fór ég svo á fótboltaæfinu ! ég var svakalega duglegur og var inná allann tímann, hlustaði á þjálfarann, hlýddi og var til fyrirmyndar. Mamma segir að ég hafi verið áberandi þægur ! Enda fannst mér þetta gaman !

gahSvo fékk ég að baka mína eigin pizzu í gær. Mamma bjó til deigið en ég flatti út, ég setti sósu og það sem ég vildi ofan á . Mamma var búin að brytja niður fullt af grænmeti og fleiru sem gott er að setja á pizzu og ég mátti bara velja hvað ég vildi ofaná. Og ég setti það sem mig langaði. Mamma sá svo um að setja í og taka úr ofninum.

Smellið á mynd til að sjá stærri – þær eru svo allar á flikkrinu: Pizzagerð Gabríels

fimmtudagur, nóvember 05, 2009

ha ha ha – amma mín spyr mig hvenær við eigum að fara að hlusta á jóladiskana okkar .. ?? ha ha og ég á að spyrja mömmu – eins og hún ráði því ha ha .

Elsku amma mín – við hlustum bara á jóladiskana þegar okkur sýnist og förum að dusta rykið af fallega, glansandi, glimrandi jólaskrautinu okkar.

Afi og Gabríel að fylgjast með by Sólargeislinn.

Við afi á brennunni áramót 2007 og 2008. Var svolítið smeykur, þá var gott að kúra í fanginu hans afa!

miðvikudagur, nóvember 04, 2009

hæ hæ

Það er alveg vitað að ég er nokkuð snökkur að hugsa og svara. Td þegar Jóhannes vinur minn kom í heimsókn og benti á sjónvarpið okkar “vá hvað þið eigið lítið sjónvarp” þá sneri ég mér að honum og sagði “iss hann afi minn á sko miklu stærra sjónvarp en þið… og fjórhjól! “ – útrætt mál.

Ég er annars voða kátur. Farinn að skrifa fullt af stöfum og finnst gaman að skrifa stafina. Merki myndirnar mínar hægri vinstri með GAH eða GKV.

Við mamma vorum að ræða fótboltamálin mín. Ég er nefnilega svolítið feiminn og er eitthvað að vesenast með þetta td það að ég nota mér það óspart á pabba að ég vilji bara fara með mömmu á fótboltaæfingar. Svo ræddum við mamma þetta og þegar ég var búinn með afsakanir þá snéri ég mér bara upp og sagði “ætla sko að vera fjórhjólamaður eins og afi” – og þar með voru fótboltamálin úr dagskrá hjá mér.

En þig megið ekki misskilja – ég bíð eftir því að komast á æfingu, ég elska fótboltann, fótboltaskóna, legghlífarnar og allt sem fylgir. Ég er bara rosalega feiminn þegar ég er kominn á staðinn og sé hina krakkana sem ég þekki bara ekki.

Í dag ætlum við mamma til Júlíusar og fá okkur gómsæta súkkulaði köku sem mamma hans bjó til :o)

DSC01153 DSC01154 DSC01160

Þessar myndir eru af okkur Júlíusi í myndatöku hjá mömmu hans – það var rosalega gaman hjá okkur. Svo er stafamyndin mín, ég skrifaði stafina sem eru skrifaðir með svörtu – hinir eru gerðir með skapalóni. Ef þið smellið á þær þá opnast þær stærri í öðrum glugga :o)

föstudagur, október 30, 2009

hæ hæ

nóg að gera á litlu heimili :o)

ég var hjá pabba sl helgi þar sem mamma var á námskeiði og ég skemmti mér mjög vel. Á mánudag þá fór ég heim með Snæbirni vini mínum og lék mér við hann og það var mjög gaman – var afskaplega sáttur þegar mamma sótti mig.

á þriðjudag búðuðum við mamma smá – þe við fórum og sóttum nýju gleraugun hennar og við kíktum í Toys’r’us og þar fékk ég “nammipeninginn minn” og ég gat fengið mér 3 bíla fyrir 500 kr !! ég var svo sæll með þetta ég sveif um á skýi!

á miðvikudag komu Sylvía besta frænka og Áslaug að passa mig. Ég var sko alveg til í að mamma færi því mér finnst svo gaman þegar þær passa mig ! Pöntuðum pizzu og ég fékk nammi ! ég sofnaði seint en var svo kátur !

Í gær kom svo Snæbjörn með mér heim og við lékum okkur mikið ! vorum virkilega stilltir.

þessi vika var broskallavika. Mamma fékk heim 10 broskalla sem hún átti að nota til að verðlauna mig með – td gefa mér broskall þegar ég var duglegur að klæða mig á morgnana, eða við að fara að sofa eða jafnvel við að taka til! Hún nestaði mig með broskalla til pabba sl helgi svo þau gætu líka tekið þátt í þessu með okkur. Og mér finnst svo gaman að fá þessi bros, þetta er svo mikil viðurkenning fyrir mig. Og í morgun þá mæti ég með 10 broskalla sem ég hafði unnið mér inn, stoltur og afhenti Önnu kennara. Hún varð ekkert smá stolt af mér og hrósaði mér í bak og fyrir !

Núna er bangsavika. Var með Króka krókódíl í vikunni, í morgun fékk svo Goggi minn að fara með!

Eigið góða helgi !

miðvikudagur, október 21, 2009

hæhæ !

Í dag máttu foreldrar koma og borða morgunmat með okkur ! Mamma komst til að borða með mér, pabbi komst ekki, hann var í skólanum kl 8 í morgun, hann kemur bara næst :o)

Ég sýndi mömmu pússlurnar sem mér finnast skemmtilegar, og við mamma pússluðum Bubba Byggir. Og svo lékum við okkur með Jóhannesi og pabba hans við að byggja kúlurennur. Þá erum við með litlar kúlur sem við byggjum svo rampa og rennur fyrir og þær geta rúllað eftir þeim í allavega leiðum og brautum. Rosalega gaman !

Og ég var svo duglegur að ég grenjaði ekkert á eftir mömmu minni þegar hún varð að fara og vinna. Agalega sáttur með þetta allt saman !

mánudagur, október 19, 2009

hæ hæ !

við mamma áttum snilldar helgi saman! Byrjaði á að á föstudag þá óvænt hittum við afa og ömmu! Þau kíktu í smá heimsókn og ég fékk smá glaðning og var algjör tískutappi – þvílíkt sáttur og kátur :o)

Við mamma hjálpuðumst að við að baka pizzu, og vorum svo með vídeókvöld. Þá fæ ég að vaka aðeins lengur og við hjúfrum okkur saman með popp og kók og horfum á einhverja skemmtilega mynd sem ég fæ að velja. Ég elska þessi kvöld því ég fæ aldrei annars kók heima. Og ég valdi myndina Bílar, með Leiftri McQueen, uppáhalds myndin mín!

Og þegar ég var að fara að sofa þá knúsaði ég mömmu og þakkaði henni fyrir vídeókvöldið okkar!

Við vorum heima þessa helgi. Ég vaknaði snemma á laugardag, lék mér með dótið mitt og naut þess að vera heima. Um hádegi tókum við okkur til og hittum Júlíus, Freydísi mömmu hans og Guðbjörgu systur hans í bíó. Fórum að sjá Skellibjöllu. Og mér fannst hún skemmtileg! Sat og horfði og skemmti mér vel!

Svo fórum við á kaffihús og hittum þar Elísu vinkonu mömmu og frænku hennar ! Og Elísa gaf okkur Júlíusi mótorhjól !!! Vá vá vá ! ekkert smá kátur ég ! – mótorhjólið fékk sko að sofa hjá mér um nóttina ! Ég fékk köku með nammi !

Á sunnudag sóttum við Jóhannes og fórum á fótboltaæfingu kl 10. Jóhannes kom svo með mér heim á eftir og við lékum okkur fram að hádegi.

Æfingin gekk ágætlega. Ég skemmti mér allavega mjög vel. Við vorum svolítið mörg og þjálfarinn réði ekki eins vel við okkur. Hann líka talaði um að koma með einhvern honum til aðstoðar í næstu viku. Við Jóhannes vorum eins og samlokur, skiljanlega. Við ræddum um það í bílnum á leið á æfingu að vera saman í liði. En þjálfarinn sá að við vorum ekki eins duglegir saman og í sundur. Svo hann setti okkur í sitt hvort liðið. Þá urðum við allt í einu voða þreyttir, þyrstir og þurftum að pissa…. og fórum af vellinum… Mamma gat ekki annað en brosað út í annað..

En svo áttum við mamma voða góðan rólegan sunnudag. Fékk að kíkja í tölvuna, las, litaði og við kubbuðum.

kveðja
Gabríel :O)

mánudagur, október 12, 2009

hæ hæ !

við mamma áttum góða helgi eins og vanalega. Fórum í sveitina á föstudag eftir vinnu og skóla og þar var auðvitað tekið snilldar vel á móti okkur. Við mamma höfðum sótt Greifa pizzur fyrir ömmu og afa og það var gaman hjá okkur öllum þegar við gæddum okkur á þeim heima hjá ömmu og afa. Úti var vont veður. Mikið rok svo glumdi í öllu.

Og laugardag var líka hvasst og ekkert hægt að gera. Fórum aðeins á rúntinn með afa og ömmu til að athuga með kindurnar okkar á bárunni. Afi var búinn að lofa mér einni ferð á fjórhjólinu og það var rosalega gaman ! Fórum í gegnum skafl, lyng og yfir móa ! Ég var eitt sælubros þegar ég kom inn aftur.

Við mamma fórum svo snemma heim á sunnudag svo ég kæmist á fótboltaæfingu. Ég var rosalega feiminn fyrst og mamma varð að múta mér svo ég færi inn á völlinn en málið var að ég þekkti engann og þá á ég það til að vera svolítið lítill í mér. En ég var rosalega ánægður með æfinguna og er alveg harður á því að fara aftur á sunnudag eftir viku !

Við mamma fórum svo og náðum í nýjan snjógalla, fórum í jólahúsið og áttum bara snilldar dag saman ! ég er voðalega ánægður með lífið og tilveruna þessa dagana!

Mamma setti inn litlar myndir núna því heyrst hefur að fólk eigi erfitt með að opna vefinn vegna hve þungur hann er út af myndunum. En ef þið smellið á þær opnast stærri mynd í nýum glugga :)

DSC01143 DSC01146 DSC01142

fimmtudagur, október 08, 2009

Gabríel 3 ára og jólaskreytingarnar

nauðsynlegt að dusta rykið af svona myndböndum reglulega :o)

hæhæ

það er alveg nóg að gera hjá okkur mömmu. Mamma talar um að vikan sé ekki nægilega löng til að gera allt sem okkur langar til.

En á mánudag kom ég heim frá pabba og þá er ég mest í að knúsa mömmu og leika mér með dótið mitt. þriðjudag fórum við í sund, miðvikudag þá fórum við og fundum kuldastígvél (loðfóðruð stígvél) og svo í heimsókn til Júlíusar, og í dag fær mamma að tvo stráka heim úr leikskólanum, en Jóhannes besti vinur minn ætlar að koma heim og leika við mig eftir skóla!
Mikið hlakka ég til. Mamma er búin að kaupa kleinur handa okkur og hún keypti líka batterí í fjarstýrðu bílana mína svo við gætum nú leikið okkur með þá líka. Mig langar svo að sýna Jóhannesi Leiftur McQueen fjarstýrða bílinn minn :o)

Annars er ég bara kátur. Hress og kátur :o)

Förum uppi í sveit á morgun að hitta afa og ömmu og ég hlakka svo til!

föstudagur, október 02, 2009

hæ hæ !

það er búið að vera svo mikið að gera hjá okkur mömmu og þá aðallega mömmu í vinnunni og eftir vinnu að hún hefur varla snert tölvurnar heima !

mikið af því er td af því að við mamma höfum verið að fara út eftir vinnu og ég æft mig í að hjóla !!

já ég kann að hjóla núna ! mamma kenndi mér að hjóla sl helgi í sveitinni hjá afa og ömmu ! og núna hjóla ég eins og vindurinn ! Agalega hamingjusamur með þetta allt saman !

Afi keypti sér svo fjórhjól sl viku líka og fékk ég að prufa með afa ! Við afi vorum semst í hjólunum sl helgi, svaka kátir með nýja dótið okkar. Þó svo að hjólið mitt sé nú ekki nýtt þá var það alveg ný reynsla að hjóla án hjálparadekkja !!

Næsta sumar fæ ég svo stærra hjól !!

Mamma var búin að setja nokkrar myndir af mér á flikkrið : Gabríel lærir að hjóla.

DSC01130

DSC01123

fimmtudagur, september 17, 2009

Vinur í heimsókn og stimplar

hæ hæ !

þessi vika er búin að vera skemmtileg !

Á mánudag vorum við mamma að finna út úr því hvernig er best að búa til sykurmassa til að setja ofan á köku.  Og ég fékk að setja í skálina og hjálpa til.  En mátti ekki hræra – mömmu fannst þetta heldur of klístrað fyrir mína putta.  Svo pökkuðum við þessu inn til að geyma. 

Á þriðjudag átti mamma von á vinkonum sínum í kaffihúsaheimsókn:O) og ég hjálpaði henni við að baka kökuna sem sykurmassinn (tilraunastarfsemi mömmu) átti að fara á.  Ég bjó til kökuna alveg sjálfur; mamma braut eggin, ég er alveg að læra að mæla sjálfur 4dl og 170 ml. Svo skellti ég þessu í skál og hrærði sjálfur. Og setti í formin og mamma slétti úr og setti í ofninn.  Hún sér um ofnamálin. 

Svo bjuggum við til súkkulaðið sem fór á milli kökunnar og massanns (til að líma massann á kökuna) og svo skreyttum við .  Mamma átti bara grænan matarlit svo við lékum okkur með að búa til laufblöð og kúlur og föndra !

kakan var rosalega góð!

Jóhannes vinur minn kom í heimsókn í gær og við lékum okkur um alla íbúð.  Mamma hélt sig bara inni í við tölvuna á meðan.  Við gerðum kökunni góð skil (vinkonur mömmu skildu smá eftir ha ha ) go héldum svo áfram að leika.

Mamma mín er svo góð að hún hjálpaði mér við að ganga frá.  Ég er búinn að vera svo duglegur að ganga frá sjálfur og safna mér stimplum.  Var bara þreyttur í gær.  Svo þegar ég laumaðist í fangið hennar á eftir, tók ég stimpla bókina og gaf henni stimpil.  Hún spurði mig hvað ég væri að gera því ekki var hún að koma heim úr búðinni.  Ég tók um hálsinn hennar og knúsaði hana og sagði henni að hún ætti að fá stimpil því hún væri besta mamma í heimi, fyrir kökuna, fyrir að fá vin minn í heimsókn og fyrir að hjálpa mér við að ganga frá.  (held að mamma hafi tárast smá)

Í dag ætlum við svo að fara með restina af kökunni til Júlíusar – vil gefa honum líka köku sem ég bjó til !

 

DSC01106

mánudagur, september 14, 2009

hitt og þetta

hæ hæ !

Þessi helgi og vikan á undan voru bara hið rólegasta.  Í vikunni vorum við mamma bara að dunda okkur heima.  Ég er með mikla þörf fyrir dótið mitt og er að leika mér mikið heima.  Mamma er einmitt farin að hugsa um að fá afa og Lárus í heimsókn með gamla rúmið hans Hjartar Smára sem er upphækkað með leikrými undir.  Það myndi stækka leikplássið mitt um helming. 

Við mamma kíktum í heimsókn til Júlíusar þar sem við lékum okkur á trambólíninu hans Júlíusar.  Mamma mín var að læra að prjóna og Freydís mamma Júlíusar hjálpaði henni af stað :o)

Og ég sýni eldamennsku mikinn áhuga – fékk að gera mína eigin eggjaköku sjálfur.   Þvílíkt ánægður með að setja eggin út á pönnuna, krydda sjálfur og setja ostinn ofaná – mamma lokaði svo kökunni (gerði svona hálfmána) ogsetti á diskinn minn.  Og já ég held að hún hafi smakkast betur þar sem ég gerði hana sjálfur!

Stimplasöfnun gengur vel.  Vantar baraa 2 stimpla uppí ný verðlaun sem er sleikjó núna. Mömmu gengur líka vel – hefur alla vega ekki bakkað á neitt ennþá :) (7-9-13)

Afi og amma sóttu mig á Snyrtipinnann svo á föstudag.  Mamma var að fara til Önnu frænku í litun og svo fóru þær saman til Ak á tónleika.  Ég fékk að vera einn hjá afa og ömmu og var dekrað við mig á alla mögulega máta.  Fékk kók og prins hjá afa, flögur hjá ömmu, og nóg að gera.  Mamma kom svo til mín eftir vel heppnaða sjóstangarferð hjá henni á laugardag. 

Og við áttum góðan sunnudag.  Ég fór með afa til Húsavíkur að heimsækja Jenna á sjúkrahúsið.  Og svo spilaði ég fótbolta úti í garði,  horfði á formúluna, fór á róló,  og bara naut þess að hafa alla í kringum mig. 

Mamma setti sjóstangarmyndirnar sínar inn á flikkrið okkar – þar eru líka nokkrar af mér : Sjóstöng

 

mánudagur, september 07, 2009

gaman að baka :)

hæ hæ

ég er hjá pabba þessa helgi.  En á fimmtudag komu Sylvía og Áslaug að passa mig.  Ég bakaði köku handa þeim spes fyrir passið :

gah_baka

föstudagur, september 04, 2009

Bakstur, pizza og ís !

hæ hæ !

á miðvikudaginn spurði ég mömmu af hverju ég fengi aldrei að baka sjálfur ! Ég vildi sko fá að baka sjálfur mína köku.  Við mamma vorum nefnilega að spukulera í að baka skinkuostahorn og vorum í bónus að ná í það sem vantaði fyrir þau.  Mamma mín ráðagóða greip Betty Crocker pakka og rétti mér “ viltu baka svona” og ég þyrlaðist um búðina af kátínu og æsingi yfir að loksins mátti ég baka alveg sjálfur köku !

Mamma tók til hrærivélina, setti eggin í skál, mældi vatn og olíu og rétti mér þetta allt á bekkinn.  Og ég setti allt saman í hrærivélina og hrærði saman.  Setti í mótið sjálfur og fékk að setja í ofninn sjálfur.  (mamma tók úr ofninum hins vegar) en ég var sáttur; ég hafði bakað alveg sjálfur. Mamma hrærði svo í súkkulaði til að setja ofaná og ég slétti úr því.  Svo hafði mamma keypt handa mér skrautsykur til að setja ofaná og ég skreytti alveg sjálfur !  þessi kaka var bökuð alveg af mér – og ég er svo ánægður með árangurinn.  Mamma bakaði líka skinkuostaorn og ég fékk að rúlla upp öðrum helmingnum.  Mamma segir þetta rosa flott hjá mér, en ég veit að þau eru svolítið skökk og snúin; öðruvísi útlítandi en mamma segir þau smakkast bara enn betur fyrir vikið. 

Í gær komu svo Sylvía og Áslaug og borðuðu með okkur pizzu.  Mamma hafði fyllt út sitt stimpla blað um að bakka ekki á bíla fyrir utan búðina og hún hafði ákveðið að verðlaunin yrðu pizza.  Og mamma fór svo út og hitti vinkonur sínar á kaffihúsi og ég varð eftir hjá Sylvíu go Áslaugu.  Fengum okkur ís og köku og ærsluðumst fram eftir ! Ég var svo steinsofnaður þegar mamma kom heim um ellefu.  En mikið var gaman hjá mér !

í dag er ég að fara til pabba og verð þar um helgina ! 
eigið goða helgi !

miðvikudagur, september 02, 2009

Duglegur strákur

Við mamma erum að vinna í betl málunum mínum.  Og í “að ganga frá” málum.   Ég fæ stimpil ef ég er duglegur og betla ekkert í búðuðm og stimpil ef ég tek til og geng frá eftir mig; ef ég er duglegur og nöldra ekki…

Og í gær fékk ég 5ta stimpilinn minn og verðlaun :

gah_verdlaun Þess má geta að ég kom sjálfur með þá hugmynd að mamma fengi líka stimpla blað og ég vildi að hún fengi stimpil í hvert skipti sem hún færi í búðina og bakkaði ekki á aðra bíla ! Hún á eftir 2 stimpla til að fá sín verðlaun. 

( kveðja frá mömmu:  þetta stimpla kerfi er alveg að virka – Gabríel er miklu rólegri í búðum, þægur og kátur.  Og  hann fékk líka um helgina smá óvænta glaðninga og hann var virkilega kátur með það.  Ef hann betlar þá er bara enginn stimpill, ég er ekki með refsingu, hann bara fær ekki nýjan stimpil.
Tiltektin er alveg að koma, hann gerir þetta ekki alveg ennþá óumbeðinn en hann gengur afskaplega vel frá og tekur flott til hjá sér þegar ég minnist á það)

mánudagur, ágúst 31, 2009

Réttir og bíó

hæ hæ

Mamma mín er orðin hress aftur.  Hún var veik í síðustu viku. En sem betur fer þá eigum við góða að og Sylvía og Áslaug hjálpuðu mömmu við að sækja mig í skólann og fara með mig í skólann.  Svo sótti Hulda mig í skólann líka og fór með mig á fótboltaæfingu sem var auðvitað mjög gaman – ég var samt heldur þreyttur þegar ég kom af æfingunni – en ég fékk ís hjá Huldu á eftir – voða sæll með þetta allt saman :o)

Svo núna um helgina þá fórum við í sveitina.  Mamma fann smá orku til að keyra uppí sveit á föstudag – en leikskólinn var lokaður vegna starfsdags kennaranna :)

Við mamma áttum rólegan og góðan laugardag, kubbuðum og ég naut þess að hafa mömmu mína hjá mér og útaf fyrir mig :o)

Og í gær komu kindurnar okkar heim.  Fórum í réttir og fundum okkar kindur og drógum þær.  Vorum með fullt af fólki að draga með okkur svo allt gekk vel.  Gaman að hitta alla – en þær komu líka Snjólaug frænka, Sunnefa og Eik.  Svo hjálpuðu Sylvía og Áslaug okkur og svo komu Þórhalla og Hjörtur, amma og afi auðvitað og mamma.  Hjörtur Smári þvílíkt duglegur því hann byrjaði daginn á að fara á móti rollunum í Reykjahlíðarrétt, dró með Lárusi í Baldursheimsrétt og kom svo og dró fyrir afa sinní Reykjahlíðarrétt :o) Og kindurnar okkar vildu brauð :o) Og Móra gamla rataði sjálf heim í réttinni ha ha

Við mamma fórum svo í bíó í gær.  Það fékk ég að launum fyrir að vera svona duglegur í réttinni og duglegur að bíða heima á meðan mamma, afi, Áslaug, Sylvía og Hjörtur ferjuðu kindurnar yfir í Belg eftir réttir og töldu þær.  Varð nefnilega svolítið skúffaður fyrir að fá ekki að fara með. 

En við mamma sáum myndina Upp.  Mér fannst hún ekkert of skemmtileg, skildi hana ílla og varð hálfhræddur líka.  Var kannski líka bara þreyttur, fannst óskaplega gott að koma heim :o)

Mamma er búin að setja réttarmyndir inn á flikkrið okkar:  Reykjahliðarréttir

aslaug_gah_rettir

þriðjudagur, ágúst 18, 2009

Fótbolti, fótbolti og aftur fótbolti…

hæ hæ !

ég fór á fyrstu fótboltaæfinguna mína í gær og það var svo gaman !!! Pabbi sótti mig í skólann og fór með mig á æfingu og ég er enn á bláu skýi af hamingju ! ég fékk að skjóta á markið, ég fékk að vera í markinu og spila með strákunum og hlusta á þjálfarann. Þegar mamma kom og sótti mig þá sá hún hvað við vorum stilltir strákarnir og gengum í halarófu á eftir þjálfaranum út af vellinum og ég er bara með eitt stórt bros!!

Núna vil ég bara fara aftur og aftur og aftur á æfingar, mamma ætlar að heyra í pabba og þau ætla að skipuleggja þetta fyrir mig – svo verður dagskráin aðeins öðruvísi í vetur þá verða 1-2 æfingar í viku :o)

Þetta er magnað!

mánudagur, ágúst 17, 2009

Gamlir félagar

hæ hæ !

við mamma fórum í sveitina á föstudaginn :o) alltaf gott að koma þangað og fá afa og ömmu knús ! Sylvía og Áslaug komu líka í heimsókn þangað og þær klipptu mig :o) ég er núna mega flottur með nýja klippingu !

Svo fengum við mamma heimsókn í sveitina á laugardag.  Rima vinkona mömmu kom og hún á strák sem ég var vanur að leika mér við þegar ég bjó á Fáskrúðsfirði; Hartmann ! við höfðum ekki hist síðan við mamma fluttum frá Fásk.  Hún á líka litla stelpu sem heitir Unna Dís og er skemmtileg stelpa. Hartmann er 5 ára og Unna Dís 2 ára.    Við Hartmann vorum dálítið feimnir við hvorn annan fyrst en svo rann það af okkur og við byrjuðum að leika saman á fullu og náðum vel saman ! Fórum í lónið, og við Hartmann spiluðum fótbolta.  Mamma og Rima töluðu og töluðu – vá hvað þær gátu talað saman – held að þær hafi verið líka fegnar hvað við gátum leikið okkur saman því þá gátu þær talað enn meira ha ha :o) Þau fóru svo aftur eftir kvöldmat.  Langt að keyra til Þórshafnar.  Við mamma erum að plana að kíkja þangað vonandi í september :o)

Á sunnudag fórum við mamma og amma snemma í Lónið.  Áslaug og Sylvía komu og snyrtu til klippinguna mína.  Ég er algjör gaur núna :o) Við mamma ákváðum að fara snemma heim, með smá stoppi þar sem afi var að snúa heyi við Belg.  Og ég fékk að setjast í dráttarvélina og stýra !!! Mamma sá einbeitningarsvipinn skína úr andlitinu á meðan ég vandaði mig við að stýra og afi passaði allt saman.  Þannig núna hef ég fengið að snúa heyi í heyskap :o) ég er svaka ánægður með þetta allt saman !!

Í dag er svo fyrsta fótboltaæfingin mín ! mikið hlakka ég til – ég meira að segja svaf með legghlífarnar mínar :o) Pabbi minn sækir mig kl þrjú í dag og fer með mig á æfingu – Jóhannes ætlar á æfingu líka :o)

gah_hartmann

fimmtudagur, ágúst 13, 2009

afmæli og fótbolti !

hæ hæ!!

vinkona mín Thelma Dögg átti afmæli í gær og hún bauð okkur krökkunum sem höfum fylgst að í gegnum allan skólann í afmæli í gær ! Við mamma fórum og náðum í smá gjöf handa henni og ég var ekkert voða sammála um hvað ætti að kaupa. Ég var ekkert voða spenntur fyrir að kaupa stelpudót. En mamma ákvað að kaupa mig smá og leyfði mér að velja mér bíl á 500 kr sem var rosalega flottur.  Hún rétti mér 500 kr og ég mátti borga sjálfur.  Þegar ég kom á kassann og talaði við konuna (sem hafði hjálpað mömmu að finna hentuga gjöf handa 4 ára stelpu þar sem mamma kann bara að kaupa bíla) þá segir konan mér að ég megi velja mér 2 bíla í viðbót.  Augun mín opnuðust alveg og ég bara starði og hljóp svo og náði fyrst í einn bíl og svo mátti ég ná í annan..!! ég sveif um búðina – ég hafði sko dottið í lukkupottinn, ég var eins og á jólunum með alla pakkana! og það vakti kátínu í búðinni – maðurinn og konan semvoru að vinna við afgreiðsluna fannst ég alveg æðislegur og tóku þátt í þessari gleði minni!  (þau semst skellilhlógu þannig að Gabriel sá ekki til kv mamma)

Og afmælið var frábært .  Mamma Thelmu hafði bakað Hello Kitty köku og bleikar og grænar pönnukökur.  Og svo lékum við okkur krakkarnir á meðan mömmur okkar Jóhannesar, Thelmu og Ólafar Öldu spjölluðu yfir kaffibolla.  Og mamma sagði mömmu Jóhannesar að ég væri að fara að æfa fótbolta.  Og þá vildi Jóhannes sko fá að prófa með mér líka.  Mamma Jóhannesar ætlar að vera samstíga okkur í þessu svo við vinirnir getum verið saman í boltanum:o)

Mamma talaði svo við pabba minn og hann ætlar að fara með mig á æfingu á mánudag.  mamma er að vinna svo hún kemst ekki.  Núna eru sumaræfingar í gangi, 4 daga í viku frá 15:15 – 16:15.  En það þýðir ekki að ég verði að mæta alla dagana.  Svo er frí í september og vetraræfingar byrja í október, þá eru 1-2 æfingar í viku.  þetta er svaka spennandi :o) ætla að vera  svona flottur fótboltastrákur og Hjörtur Smári:

hjortur smari

föstudagur, ágúst 07, 2009

Stór strákur

hæ hæ ! alltaf nóg að gera hjá okkur :o)

um verslunnarmannahelgina fórum við í sveitina.  Hitti þar Sunnevu, Snjólaugu og Eik frænkur mínar og með þeim var frænka Sunnevu frá Þýskalandi.  VIð fórum saman í Lónið og skemmtum okkur vel ! Mamma var eina nótt á Akureyri og ég fékk að vera einn hjá afa og ömmu – í góðu yfirlæti ! Svo þegar mamma kom aftur þá fórum við í Belg og hittum Jenna. Mér finnst alltaf jafn furðulegt að hitta ekki kindurnar mínar þegar ég fer í Belg.  Mikið hlakka ég til að fá þær heim í haust !

Það er ekki svo mikið búið að gerast hjá okkur.  Við mamma kíktum loks á Júlíus vin minn og Freydísi mömmu hans (sem er vinkona mömmu) Ég var búinn að tala um að hitta Júlíus í langan tíma go svo urðum við bara svolítið feimnir þegar við loks hittumst, en það rann fljótt af okkur.  Og í gær fórum við í Kjarnaskóg með þeim. Þar vorum við Júlíus í essinu okkar ! Skítugir uppyfir höfuð, úr drullupollum og að leika okkur inni í skóginum og príla ! Rosa fjör !

Hjörtur Smári kom með mömmu að sækja mig á leikskólann í gær ! Mikið var gaman að hitta hann !   Tókum rúnt með honum á meðan hann beið eftir mömmu sinni.  Alltaf gaman að hitta Hjört !

Ég er svo stór strákur að ég er kominn á Hulduland í skólanum mínum ! það er stórukrakkadeildin.  Og ég er þvílíkt stoltur af því að vera kominn þangað.  Þar er líka tölva !! Við mamma erum búin að koma upp tölvutímum heima hjá okkur.  Ég má vera klukkutíma í tölvunni og það er alveg að virka hjá okkur !

Og svo í morgun ! Þá heyrðum við “BÚÚMMMM” og svo kom eldur og reykur frá bíl á bílastæðinu okkar ! Sem betur fer ekki Súbbinn okkar og hann var aldrei í hættu.  En ég fékk þetta allt beint í æð því þetta var beint fyrir utan eldhúsgluggann okkar !! Og ég sótti brunabílinn minn og sat með stóru bláu augun og fékk að sjá allt í alvöru! brunabílinn með ljós og sírenur, slökkviliðsmenn með grímur að sprauta á eldinn, lögguna stikla fram og til baka og blá ljós um allt .. Ég var dolfallinn… meira að segja borðaði varla morgunmatinn minn í glugganum…

Og svo var ég með beinar lýsingar fyrir mömmu sem var að taka sig til í vinnu, og pakka niður fyrir mig. “mamma húddið brotnaði…” – “ mamma hann er að sprauta..” – “ mamma löggan er að hjálpa….” - “mamma það er mikill reykur…”

Þetta var sko upplifun fyrir svona gutta eins og mig !!

Núna umhelgina er ég hjá pabba mínum í góðu yfirlæti ! eigið góða helgi !!

DSC06620 DSC06633 DSC06634 DSC06629

ps. Elsku amma mín - myndirnar verða stærri ef þú  smellir á þær og svo bakkarðu aftur til baka með örinni uppi til vinstri :o)

þriðjudagur, ágúst 04, 2009

Allir að kjósa Halldóru

Halldóra stóra flotta frænka mín er að læra skóhönnun í London og er að gera virkilega flotta hluti.  Núna þarf hún okkar aðstoð með að kjósa hana áfram í verkefni VivaLaDiva sem gæti komið henni talsvert áfram á braut tækifæranna !

hún er þegar komin í 10 manna úrslit og þarf núna að fá aðstoð okkar.  Endilega smellið á slóðina : http://www.vivaladiva.com/shop/page?pageId=3027&cm_sp=vldfreeformat-_-Cordwainers-_-Halldora

og svo kjósa !!! 

kosningarhlekkurinn er beint fyrir ofan skóinn :o)

VLD_logo

mánudagur, júlí 27, 2009

Fellshlíð og fjórhjól!

hæ hæ  !!!

Fyrsta vikan í leikskólanum gekk vel hjá mér.  Ég var heldur þreyttur á daginn þegar ég kom heim.  Vildi bara oftast fara beint heim og hvíla mig, horfa á Bolt eða Bósa ljósár (toy story)  En það er gaman í skólanum.  Svo ég er alltaf tilbúinn til að vakna daginn eftir og fara aftur.  Grenjaði ekkert á eftir mömmu.  Það er þroskamerki hjá mér eftir svona frí !

Við mamma áttum yndislega helgi í Fellshlíð.  Já loksins fékk ég að fara í Fellshlíð og hitta Önnu, Hermann og Blíðu.  Og við gistum 2 nætur hjá  þeim.  Fórum í sund og á Mærutónleika Hálfvitana á Húsavík! Var rosalega gaman ! Ég trallaði mikið með, enda kann ég eitthvað af textunum, hitt skálda ég bara uppí :o) Mér fannst gaman að fá að vaka lengur.  Að sjá allt fólkið og svo fengum við okkur að borða; fisk og franskar, stóðuom úti og borðuðum og hlustuðum á tónleikana.   

Og svo á sunnudag fór Hermann með mig á FJÓRHJÓL !!! já ég þorði að fara á fjórhjól og já Hermann kveikti á því og já keyrði með mig og ég var bara ekkert hræddur ! mamma á mynd af þessu á myndavélinni sem hún ætlar að smella hingað inn í dag þegar hún kemur heim !!

Hér er gemsamynd af mér frá tónleikunum :

gah_husavik

þriðjudagur, júlí 21, 2009

Leiftur svefnpoki!!

hæhæ !

eftir útileguna núna um helgina þá sagði mamma að hún yrði að redda mér svefnpoka.  Ég væri svo mikið í að sparka af mér sængum og hún gerði ekki annað en að vakna og breiða yfir mig aftur.  Svo við fórum á Glerártorgið í gær því hún hafði rekið augun í svefnpoka í Toys’R’us sem var með mynd af Leiftri úr myndinni Bílar.  En  þetta er mín uppáhalds mynd og dótið úr henni bílarnir og húsin, og Mikki Trukkur er alveg uppáhalds.  Ég var afskaplega hamingjusamur með þennan svefnpoka:

gah_svefnpokiOg ég vildi bara kúra mig í honum.  Enda þá sofnaði ég fyrir klukkan sjö í gærkveldi.  Mamma heyrði að allt í einu var ég hættur að tala.  Og hún spurði mig hvort ég væri vakandi go ég svaraði ekki því ég var steinsofnaður.  Sofnaði sem sagt talandi í miðri setningu.  Enda var ég svo þreyttur.  Svo mamma var snögg að bursta mig og ég fékk að sofna aftur uppí rúmi í nýja svefnpokanum mínum.  Agalega  hamingjusamur ! 

mánudagur, júlí 20, 2009

Nikulásarmót

hæhæ !! ég er mættur í leikskólann.  Kennarinn sagði að það yrðu nú ekki mörg börn í skólanum þessa vikuna – kannski um 17-20 á öllum skólanum.  Rólegt og notalegt !

Ég var mjög kátur í morgun, ætlaði að byrja með "vil bara vera hjá þér… “ við mömmu en hún minnti mig á að við vorum búin að ræða þetta, og það yrði gaman hjá mér .   Svo fórum við í kapp hvort okkar yrði á undan í gluggann að vinka; ég inni í stofu og hún úti á gangstétt.  Ég vann haha. 

Við mamma vorum í útilegu um helgina.  Mamma sótti mig til afa og ömmu á föstudag.  Mikið var gott að sjá hana!  Við fórum í lónið með ömmu og smurðum nesti fyrir útileguna.    Og við fórum sá laugardagsmorgun á Ólafsfjörð.  Þar var Nikulásarmótið og Hjörtur Smári var að keppa.  Ég horfði spenntur á og hvatti frænda minn !

Um kvöldið  var kvöldvaka með Sveppa og Villa Naglbít.  Og svo kom flugvél og dreifði karamellum yfir liðið.  En ég fékk enga, varð svolítið svekktur.  Mamma reddaði því með að gefa mér nammi í tjaldinu á eftir.  Og ég fékk kakó hjá Lárusi og Þórhöllu í þeirra tjaldvagni.  Mér þótti spennó að fara í heimsókn til þeirra í vagninn. 

Var orðinn svolítið þreyttur á sunnudag og var ekki með sama áhuga á að horfa og á laugardeginum.   En Hjörtur og liðið hans stóðu sig rosalega vel og urðu í 2. sæti í sínum flokki !

Ég var svo kátur að koma heim í gær.  Ég er ekki búinn að vera heima hjá mér í tvær vikur.  Og varla neitt þessar 5 vikur sem ég var í fríi :o)   Svo ég fékk hálfgert spennufall.  Réðst í allt dótið mitt, lék mér með allt, gjörsamlega.  Svo þegar klukkan var hálf átta þá bað ég um að fá að fara að sofa.  Við burstuðum, mamma las bók og ég var sofnaður átta.  Afskaplega hamingjusamur með allt saman!!

Mamma er búin að setja inn myndir á flikkrið okkar: Nikulásarmót Ólafsfirði 18-19 júlí

gah_hjortur_sylvia_aslaug

föstudagur, júlí 17, 2009

Kátur hjá afa og ömmu

HÆHÆ jæja þá er mamma alveg að fara að koma !! Hún kemur á eftir og við ætlum í útilegu á Ólafsfjörð á morgun.  Þar er fótboltamót og það verður bara gaman að horfa á Hjört frænda minn keppa í fótbolta! Get örugglega lært eitthvað af honum !!

Ég er búinn að eiga góða daga hjá afa og ömmu. Kátur og þægur.  Búin að fara á trambólínið hjá Þórhöllu frænkku, leika við Hjört, og hitta Sylvíu og Áslaugu.  Fara í sund og í lónið.  Jámm mikið gaman !!

Eigið góða helgi. 

gah_goggi

mánudagur, júlí 13, 2009

Hjá afa og ömmu

hæ hæ !!

ég er hjá afa og ömmu í sveitinni núna.  Mamma mín er að vinna – fyrsti dagur eftir frí í dag og er ég nokkuð viss um að hún sé heldur mygluð í dag.  Með stýrur, því ég var farinn að sofa til átta og níu á morgnana !! og hún ekkert að brasa við að snúa mér á klukkan 7 því ég á eina viku eftir í fríi! Skólinn minn er lokaður ennþá svo ég gat ekki farið heim með henni í gær. 

Ég var svolítið svekktur og grét heldur sárt á eftir henni.  En amma mín og afi kunna sko á mér lagið og ég hætti að gráta og amma fór með mig í hjólatúr á róló. 

Ég hef nefnilega lítið séð af mömmu minni þar sem ég var hjá pabba sl viku.  Kom brúnn og sætur til baka með reynslusögur af læk í Kjarnaskógi til baka :o)

Við mamma nutum þess að vera heima á föstudag ég fann allt dótið mitt og ég lék mér með allt sem ég fann ! var svo alveg tilbúinn í að fara til afa og ömmu á laugardaginn. 

Við horfðum á formúluna með afa og ömmu.  Afi minn gaf mér snakk og nammi með formúlunni.  Ég er sko búinn að finna mitt lið ti að halda með; bílarnir með rauðu nautin (Red Bull). 

Svo rúntuðum við mamma og fengum okkur ís.  Gengum um Dimmuborgir og skoðuðum flugvélar.  Ég naut þess að hafa mömmu mína útaf fyrir mig.  

gah_hoppikastali

föstudagur, júlí 03, 2009

Sumarfrí !

hæ hæ

við mamma erum búin að vera í fríi ! afskaplega gaman hjá okkur.  Ég er að fara í dag til pabba og verð hjá honum í viku núna. 

En mamma er ný búin að setja inn myndir:

Myndir teknar héðan og þaðan í sumarfríinu : Sumar 2009

Við mamma fórum svo í Ásbyrgi í útilegu 21-22 júní: Ásbyrgi

Og svo fórum við í fjölskylduferð, með afa og ömmu, Þórhöllu og Lárusi til Presthóla.  Fórum í fjöruferð, skoðuðum þar sem Músakot hafði staðið, kíktum á Jónas langafabróður minn í kaffi  : Presthólaferð

Og svo fórum við mamma og amma rúnt um nærliggjandi sveitir.  Kíktum í Laxárdal, borðuðum nesti þar.  Fórum á Grenjaðarstað og skoðuðum safnið þar.  Einnig fórum við í Hvalasafnið á Húsavík.  Menningarferð.

DSC06407Svo komum við heim í gær. Anna frænka kom í heimsókn og við fórum á Ísöldina 3.  Við mamma bökuðum vöfflur handa okkur – varla að mamma næði að baka nógu hratt því ég settist að með diskinn minn og mjólkina við vöfflujárnið og borðaði jafn óðum og þær komu – mikið agalega eru vöfflur góðar!!

fimmtudagur, júní 11, 2009

Sumarfrí á morgun

 hæ hæ!!

ég fer í sumarfrí á morgun.  Pabbi sækir mig í skólann og verð ég hjá honum í viku :o) Atli Freyr stóri bróðir verður líka – hlakka mikið til að hitta hann. 

Annars er búið að vera nóg að gera.  Fórum aftur í Kjarnaskóg á þriðjudaginn sem endaði ekki alveg nógu vel þar sem ég datt aftur fyrir mig á rassinn í lækinn.  Ég vil helst ekki tala um þetta, ég er svolítið miður mín yfir þessu.  En sem betur fer var mér ekki kalt.  Mamma var með útilegu teppið okkar í bílnum og klæddi hún mig úr blautum fötum og sokkum og vafði mig inn í teppið. 

Í gær var gott veður og mamma smurði mig með sólarvörn áður en hún sendi mig í skólann.  Við ákváðum þá um morguninn að fara með sunddótið okkar í bílinn og fara í sund eftir skóla/vinnu.  Og ég fékk að velja hvert við fórum og ég vildi fara sko í Þelamörk. Og við skemmtum okkur konunglega í sólinni.  Ég fór í rennibrautina og lék mér með svona fljótandi dótarí eitthvað.  Klukkan var að verða 18 þegar við komum aftur til Akureyrar, bæði svöng eftir sundið og ég spurði mömmu hvort við gætum fengið okkur hamborgara saman í sjoppunni.  Mamma var til í það og fengum við okkur gómsæta hamborgara saman. 

Ég er þreyttur.  Sat hjá mömmu í lazy-boy með græna klakann minn þegar Simpsons var.  Svo gott að fá að kúra hjá henni þegar ég er sybbinn.  Og var fljótur að sofna um kvöldið.  Sofnaður nánast klukkan átta.  og var sybbinn í morgun.  Mikið verður gott að komast í frí. 

Mamma á eftir viku í vinnu áður en hún kemst í frí.  Þá förum við í sveitina, í útilegur og leikum okkur.  Ég er ekki enn búinn að kaupa mér golfsettið, hef ekkert minnst á það í nokkra daga núna.  En mamma er að spá í að fjárfesta í krikettsetti handa okkur.  Kemur allt í ljós.  Mestu skiptir að njóta þess að vera í fríi og slappa af :o)

Eigið góð daga !

gah_ferrari

þriðjudagur, júní 09, 2009

Litli flugmaðurinn

ég sagði ykkur ekki frá því að á föstudaginn þegar amma kom á móti okkur mömmu var ég rosalega svangur.  Og amma fór með mig í verslunina á Laugum og þar vildi ég fá hamborgara – Hermanni og Toddu til mikillar ánægju.  En ég fékk nú ekki hamborgara en sá sjálfur ís sem ég gat alveg sætt mig við til að seðja hungrið. 

Nú við amma förum semst á rúntinn og uppá flugvöll.  Þar eru flugmenn þrír að grilla og amma heilsar þeim og segist vera með ungan flugáhugamann.  Einn þeirra kemur og kynnir sig og býður mér að koma og skoða vélina.  Ég er fyrst svolítið feiminn og fel mig hálfpartinn á bakvið ömmu.  Svo fékk ég að fara uppí vélina og ég var ekkert hræddur.  Hann færir fyrir mig sætið og ég bara fæ kitl í puttana og byrja af minni alkunnu snilld að snerta alla takka og skoða allt og lít svo upp og spyr “hvar eru lyklarnir.. ?”

Þá fannst flugmanninum þetta vera orðið nokkuð gott.. hann bjóst held ég ekki við að ég þessi feimni strákur myndi gjörbreytast við að stíga upp í vélina….

DSC00603

Kjarnaskógur

hæ hæ !

í gær fórum við mamma í Kjarnaskóg.   Ég er nú ekki mikið fyrir að labba lengra en lækurinn er.  Svo við stoppum þar, með jarðaberin okkar og kókómjólkina.  Svo rýk ég af stað og fer að leika mér í læknum.  Mamma hefur alltaf sagt að strákar eru strákar og þeir verða skítugir og það sé allt í lagi því það er nú til þvottavél á heimilinu…

DSC00963

DSC00973

Þess má geta að drullan í hendinni var full af ánamöðkum…

mánudagur, júní 08, 2009

veiði og fjöll

hæ hæ !

Nóg að gera um helgina.  Fórum í sveitina á föstudag.  Amma reyndar keyrði á móti mömmu þar sem hún ætlaði að fara í afmælismat til Önnu frænku og Hermanns.  En hún kom heim til mín um kvöldið. 

Mamma fór snemma með afa til að bjarga lömbum úr haughúsinu.  Björgunin gekk vel og lömbin heil á húfi, og eitt þessara lamba var lambið mitt.  Kindin mín hún Lukka (Gabríela) bar þessu lambi úti á Stekkjanesi þegar bændur í Belg voru búnir að dæma hana lamblausa. 

Nú við fórum svo út á vatn.  Þar ætlaði flugan að eta okkur lifandi.  Ég varð heldur pirraður á þessu og neitaði að fara með afa síðar um daginn, mamma neitaði líka.  Okkur fannst þetta ekkert sniðugt.  En samt skemmti ég mér vel, var í strákaspotta og gat leikið mér með ausuna hans afa :o)

Við mamma, amma, Sylvía og Áslaug fórum í lónið.  Bæði á laugardag og sunnudag.  Þar var sko vatnsbyssustríð.  Amma gerðist vopnasmyglari og kom vatnsbyssunum óséðum inn í lónið.  En þar sem við hegðum okkur svo vel og erum ekki að sprauta á aðra gesti þá erum við ekkert skömmuð hehe :o) svaka gaman !!

Á sunnudag keyrðum við svo 16 rollur á fjöll, ásamt 32 lömbum.  Núna er ég sem sagt búinn að fá ða fylgjast með frá því að lambið kemur í heiminn, og þar til það er keyrt á fjall.  Ég fékk meira að segja nesti og alles með.  Fórum á bílnum hans Jenna, við afi og mamma.

Ég var afskaplega ánægður með helgina og var kátur að fara í skólann í morgun :)

Gabriel

Mamma er búin að setja inn myndir á flikkrið okkar: Sumar 2009

föstudagur, júní 05, 2009

Sveitin um helgina

hæ hæ !!

Er búinn að eiga góða daga.  Var hjá pabba síðustu helgi og fór í fermingarveislu til systur Huldu á Hvammstanga.  Fréttir herma að ég hafi verið þægur, stilltur og duglegur að borða :)

Á föstudaginn fyrir viku var grill og útskrift elstu krakka í skólanum mínum.  Bæði mamma og pabbi mættu í grillið.  Það var svo gaman að hafa þau bæði hjá mér.  Ég þyrlaðist á milli þeirra.  Svo sagði ég í lágum hljóðum að mig langaði að fara strax úr skólanum.  Og ég var svo heppinn að pabbi gat hliðrað til hjá sér og ég mátti fara með honum í hádeginu.  Vá hvað ég var hamingjusamur með þetta ! Og ég var hjá pabba alveg fram á þriðjudag. 

Við mamma fórum til Júlíusar á þriðjudaginn.  Við Júlíus hoppuðum á trambólíni og svo fór systir hans með okkur á næsta róló að leika.   Var rosalega gaman !  Fengum jarðaber og bláber – yummmie svo gott !

Svo erum við mamma bara búin að vera að dúllast.  Undirbúa sumarið.  Erum komin með allt í útileguna. Og mamma leyfir mér að velja td í rúmfó ferðadiskana og glösin – mér finnst ég vera svo stór þegar ég fær að ákveða :o)

Ég er orðinn sólbrúnn og sætur.  Mamma ber alltaf á mig sólarvörn svo ég brenni ekki.  verð ekki rauður heldur bara brúnn :) og er með sundskýlufar. 

Mamma var búin að lofa mér golfsetti fyrir börn í rúmfó.  En í gær þá vildi ég heldur frá stóra vatnsbyssu.  Og mamma spurði mig hvort ég vildi virkilega heldur fá vatnsbyssuna en golfsettið og ég sagði já margoft.  Og mamma sagði að þá mætti ég ekki betla golfsettið.  En í morgun þá varð ég svolítið skúffaður þegar ég fattaði hvað ég hafði gert. 

Mamma segir þetta sé spurning um að læra að ég fái ekki allt uppí hendurnar.  Ég hafði tekið þá ákvörðun um að fá frekar byssuna en golfsettið og þar við situr.  Ef ég vil fá golfsettið þá verð ég að taka sparipeningana mína og kaupa settið sjálfur. (peningana úr Gogga bauk)

Við mamma erum að fara í sveitina í dag :) Mamma ætlar að hitta Önnu sína í kvöld en gistir ekki.  Við munum hjálpa afa með restina af rollunum og marka lambið mitt á morgun:o) og svo keyra hluta af þeim á fjall á sunnudag !

Þetta verður skemmtileg helgi !! 
Ykkar Gabríel Alexander

DSC00952

Ég og Jóhannes vinur minn á grilldaginn á Flúðum.

miðvikudagur, maí 27, 2009

Kjarnaskógur

hæ hæ ! ég er svoddan snillingur eins og mamma mín segir oft. 

Í gær fórum við í þessu góða veðri út í Kjarnaskóg með jarðaber, kringlur og kókómjólk í nesti.  Og við sátum og mauluðum nestið okkar þar til ég fór að ókyrrast og fann fyrir hreifiþörfinni. 

Mér finnast lækir afskaplega spennandi.  Er bara eðlilegur strákur í þeim efnunum.  Nú, ég spyr hvort ég megi fara og henda steinum í lækinn og mamma segir já – en ég verði að passa mig.  Vatnið sé nú kalt og ekki gott að detta út í og blotna. 
– pff auðvitað geri ég það ekki – ég er svo stór strákur !

Mamma færir sig með mér yfir til læksins og situr þar í góða veðrinu og smellir nokkrum myndum af mér á gemsann.  Ég fer að hoppa á milli, og er einu sinni næstum dottinn alveg út í.  Mamma ræskir sig og biður mig um að fara nú varlega því þarna hafi ég nú verið næstum dottinn.  Ég segi henni að ég detti ekki “ elsku mamma mín ég dett ekki sjáðu bara…” og hoppa aftur til baka.  Ok ég datt ekki.  Held áfram að busla og sulla og henda steinum útí. 

Og svo er ég komin óþarflega nálægt brúninni, og auðvitað í hamaganginum renn ég út í lækinn… rennblotna í fæturna upp að hnjám. 

“mamma við skulum bara fara heim núna… “

DSC00942