miðvikudagur, apríl 27, 2005

Sæli nú kæru vinir og vandamenn nær og fjær. Biðst afsökunar á hve mamma hefur verið löt að skrifa undanfarið, en það er allt gott að frétta af okkur.
Það sem á daga mína hefur drifið er að við fórum til Egs á föstudaginn að versla. Fórum í æðislega gönguferð í Hallormstaðaskóg á sunnudaginn. Þó sumarið sé komið þá er enn frekar grámyglulegt um að litast, en með sólskini og fuglasöng þá var þetta rosalega ljúft. Mér þótti virkilega gaman að sjá svona fullt af nýjum hlutum og starði um allt.
Í gær fór mamma með mig til ljósunnar hérna til að vigta mig og mæla þar sem ég er orðinn 4 mánaða stór strákur. Ég mældist 8.2 kg og 64 cm, og telst það vera nokkuð gott. Ég fylgi meðaltalinu á lengdina, en er dulítið of þungur. En hún (þe ljósan) vildi ekki að mamma og pabbi breyttu neinu þar sem hún veit að þegar ég fer á fullt þá verður ágætt fyrir mig að hafa smá forða.
Í dag fékk ég frábæra sendingu frá Florida. Rosalega falleg föt. Þau passa flott á mig, takk takk kærlega fyrir mig Hafdís frænka!

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Gleðilegt sumar
og takk fyrir veturinn!!!!
Það er yndislegt veður hérna á Fáskrúðsfirði. Mamma ætlar með mig í göngu á eftir, og vonandi fæ ég að sitja uppréttur og horfa í kringum mig. Mér finnst það rosalega gaman.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Hæ hæ hæ!! Við erum komin heim. Og pabbi er kominn heim, það var svo gott að sjá hann í gær, að ég vildi alls ekki sleppa honum!
Við vorum hjá Valgeir afa og Rósu ömmu og Herkúlesi. Það var alveg meiriháttar. Afi minn er skemmtilegur kall, ég var ekki alveg viss um hvernig ég átti að taka honum fyrst, en núna ef ég bara heyri í honum nálægt mér þá fer ég að hlæja! Hann setur upp svo skemmtileg andlit fyrir mig og ég hreinlega ræð ekki við mig og fer að skellihlæja! Hann líka passaði mig aðeins á laugardaginn, og hann hengdi upp dót handa mér í ljósakrónuna í eldhúsinu, bjó til smá óróa handa mér, duddan mín, dótabækling frá Leikbæ, bleyjuklútinn minn, og ég hló og hló!
Við fórum öll til Akureyrar á föstudaginn. Ég var afskaplega duglegur og þægur. Það var svo margt að sjá og svo mörg ný hljóð. Enda var ég alveg uppgefinn eftir daginn. En ég náði ekki að hitta Siggu ömmu né Hörð afa eða Magnús afa, vonandi hitti ég þau næst.
Svo bauð afi okkur í morgunkaffi í vinnuna til sín. Það var rosalega gaman að sjá hvar afi vinnur. Meira að segja Herkúles og Kítara máttu koma með inn! Og mamma og amma fengu dýrindis morgunkaffi hjá afa.
Afi og amma fengu lánað rúm handa mér. það var frábært og rosalegur munur. Enda svaf ég vel allar nætur, var hins vegar ekki alveg á því að sofa á daginn, dottaði svona inn á milli. Það var alltaf svo mikið skemmtilegt um að vera.
Pabba fannst ég hafa stækkað þessa viku sem hann var í burtu. Ég er miklu meira vakandi fyrir umhverfinu, hendurnar mínar grípa í allt sem er nálægt og ég vil kanna allt með að setja í munninn og smakka. Það er allt svo spennandi og flott, svo gaman að uppgötva eitthvað nýtt, get setið og talað við allt sem ég sé.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

hæ hæ allir saman! Héðan er allt gott að frétta. Allir hraustir og kátir. Pabbi minn er farinn suður í vikudvöl og sakna ég hans mikið! Hlakka til að fá hann heim aftur. Ég líka lofaði honum að vera þægur á meðan - sem ég er reyndar alltaf. Lítið ljós!
Ég er farinn að borða smá graut í hádeginu líka. Það hjálpar mér að sofa almennilega á daginn. Og núna er föst regla, grautur klukkan tólf og ég er sofnaður um eitt, og sef vel í 3-4 tíma á daginn. Enda líður mér rosalega vel. Ég stækka vel, er hraustur og kátur! Ég er mikið í hoppirólunni minni. Ég leik mér mikið í leikgrindinni minni eftir að mamma og pabbi gerðu hana þannig að ég get setið uppréttur í henni. Ég nefnilega vill alls ekki liggja á bakinu og sjá ekki neitt í kringum mig!
Svo er á planinu að fara í sveitina til Valgeirs afa og ömmu Rósu í vikunni. Alltaf gott að kíkja þar við og hafa það náðugt! Svo er held ég formúlan um helgina og kannski maður klæði sig uppá og horfi á formúluna með afa mínum!!!
Já og mamma var að setja inn myndir af mér.
Hafið það rosalega gott og mamma biður kærlega að heilsa öllum!!!
Kveðja Gabriel Alexander

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Hæ aftur en mamma var að setja inn nýjar myndir af mér! Núna þegar ég er orðinn 3 mánaða þá er um að gera að búa til nýtt albúm fyrir næsta mánuð! Sem sagt Mánuður 4 er kominn í loftið.
En hún tók líka eina spes mynd handa Sunnefu frænku minni sem býr í Danmerku. Hún sendi mér svo flotta flugu og ég er svo rosalega hrifinn af henni. Hún er létt og litskrúðug, hún er með skrjáfandi glitrandi vængi og það hringlar í henni. Svo smakkast hún rooosalega vel!! Sjáið myndina hér!
Svo átti hún Sunnefa afmæli núna 2. Apríl!! Hún varð 15 ára skvísa - til hamingju með daginn kæra Sunnefa!!
Sælt veri fólkið. Ég átti góða og rólega helgi. Fór með mömmu og pabba í mat til vina þeirra á laugardagskvöldið og þau eiga eina litla stelpu sem er 7 mánaða og heitir Halldóra. Ég er svolítið minni en hún, og get ekki enn leikið við hana, en hún var samt rosa skemmtileg. Svo hitti ég vinkonu mömmu á sunnudaginn og fór í kaffi til Hartmans á mánudaginn. Svo kannski er ég búinn að vera nokkuð upptekinn. Hartmann reyndi að fá mig líka til að leika, en ég starði bara á hann. Hann er orðinn svo duglegur, hann labbar með öllu, opnar skúffur og tekur til fyrir mömmu sína. Ég hlakka mikið til að geta farið að leika við hann!
Mér finnst afskaplega gaman að hitta nýtt fólk, og er næstum hættur að setja upp skeifur þegar ég sé nýtt fólk, eða þegar ókunnugt fólk reynir að tala við mig. Takið eftir ; næstum - ekki alveg.

föstudagur, apríl 01, 2005

Hæ hæ og gleðilegan 1. Apríl !!! Vonandi skemmtið þið ykkur vel í dag!
Annars er flott að frétta af mér. Við fórum í skoðun í gær, og ég er eins og áður mega flottur, sterkur og stinnur gaur. Stækka hratt og vel, ekkert of feitur, lít rosalega vel út og er hraustur. Ég er 61,5 cm og 7,3 kg.
Ég fékk sprautu, ég var alls ekkert hrifinn af því, sprautað í lærið og mér fannst það hrikalega vont. En það liðu bara nokkrar sekúndur þangað til ég sá rosalega fallega rauða tösku sem hjúkkan átti og það lagaði allt, og ég steingleymdi öllu varðandi sprautuna og sársaukann.
Mamma fór svo til Egilstaða í sund og smá afslöppun. Við pabbi létum fara vel um okkur á meðan og slöppuðum af.