þriðjudagur, apríl 19, 2005

Hæ hæ hæ!! Við erum komin heim. Og pabbi er kominn heim, það var svo gott að sjá hann í gær, að ég vildi alls ekki sleppa honum!
Við vorum hjá Valgeir afa og Rósu ömmu og Herkúlesi. Það var alveg meiriháttar. Afi minn er skemmtilegur kall, ég var ekki alveg viss um hvernig ég átti að taka honum fyrst, en núna ef ég bara heyri í honum nálægt mér þá fer ég að hlæja! Hann setur upp svo skemmtileg andlit fyrir mig og ég hreinlega ræð ekki við mig og fer að skellihlæja! Hann líka passaði mig aðeins á laugardaginn, og hann hengdi upp dót handa mér í ljósakrónuna í eldhúsinu, bjó til smá óróa handa mér, duddan mín, dótabækling frá Leikbæ, bleyjuklútinn minn, og ég hló og hló!
Við fórum öll til Akureyrar á föstudaginn. Ég var afskaplega duglegur og þægur. Það var svo margt að sjá og svo mörg ný hljóð. Enda var ég alveg uppgefinn eftir daginn. En ég náði ekki að hitta Siggu ömmu né Hörð afa eða Magnús afa, vonandi hitti ég þau næst.
Svo bauð afi okkur í morgunkaffi í vinnuna til sín. Það var rosalega gaman að sjá hvar afi vinnur. Meira að segja Herkúles og Kítara máttu koma með inn! Og mamma og amma fengu dýrindis morgunkaffi hjá afa.
Afi og amma fengu lánað rúm handa mér. það var frábært og rosalegur munur. Enda svaf ég vel allar nætur, var hins vegar ekki alveg á því að sofa á daginn, dottaði svona inn á milli. Það var alltaf svo mikið skemmtilegt um að vera.
Pabba fannst ég hafa stækkað þessa viku sem hann var í burtu. Ég er miklu meira vakandi fyrir umhverfinu, hendurnar mínar grípa í allt sem er nálægt og ég vil kanna allt með að setja í munninn og smakka. Það er allt svo spennandi og flott, svo gaman að uppgötva eitthvað nýtt, get setið og talað við allt sem ég sé.

Engin ummæli: