þriðjudagur, apríl 24, 2007


Nóg að gera hjá litlum manni!

Nú - dagurinn byrjaði klukkan hálf sex, eitthvað vakti mig og ég skreið uppí til mömmu með legóbiblíuna mína sem kom í póstinum í gær. Mamma var nú ekki alveg á að fara á fætur og fékk mig til að lúlla til hálf sjö. Þá var ég búinn að kveikja öll ljós, kveikja á sjónvarpinu inni hjá henni, kveikja á útvarpsvekjaranum, er dulítið líkur afa mínum og langafa með það að vilja hafa alla fjölmiðla heimilisins í gangi. Svo hoppaði ég um rúmið hlæjandi.. ohh svo gaman!!

Sá hún sér þá þann kost vænstan að skipta á mér, setja Bubba Byggir í dvd og gefa mér seríós. Ég auðvitað hæst ánægður með það! En ég hélst ekki of lengi við - kláraði seríósið og fór að brasa inni í tölvu/leikherberginu okkar mömmu..

Mamma kallar "Gabríel ertu nokkuð að fikta?"... - hvurslags spurning er þetta - auðvitað svara ég sakleysislega "nei" En svo heyrði ég mömmu koma fram, og hún var við að góma mig með ilmvatnið hennar svo ég set upp englasvipinn og sýni henni hvað ég "fann" voða sætur og saklaus.. þó að hún finni lyktina af mér - og herbergið er ilmandi.... hún brosti bara, kyssti mig og tók ilmvatnið.

Svo skipti hún aftur á mér - líkamsstarfsemin mín er í góðu lagi skal ég sko ykkur segja! nema hvað - ég fer að príla og dett.... dett úr sófanum á glerborðið okkar, lendi á brúninni með eyrað mitt. Fæ skrámu, og fer að gráta. Mamma kyssir á báttið, og ég hætti að gráta. Mömmukoss er besti sálarplástur sem til er! Og ég þarf smá að láta tala mig til í að fara í fötin. Er dálítið lítill í mér eftir byltuna, varð dálítið hræddur. Málið er að mamma mín segir við mig oft á dag " ekki príla þú gætir dottið" ... ég hlusta aldrei, og núna datt ég... og sennilegast þá á ég eftir að príla meira og detta oftar áður en þetta síast inn í minn þykka haus :)

Rúsínan í pylsuendanum: við komum í skólann. Og var þá löggubíll í öllu sínu veldi staddur fyrir utan. Ég fékkst ekki til að fara inn fyrr en ég var búinn að skoða bílinn, klappa dekkjunum og löggustelpan meira að segja talaði við mig! Og ég í skýjunum yfir þessu - bíllinn var svo flottur!

Já það er sko nóg að gera hjá litlum manni!!!

Engin ummæli: