mánudagur, júní 27, 2005

Halló halló! Fór í sund í dag. Í fyrsta skipti!! Fórum einn rúnt á Djúpavog, þar er svo rosalega góð innilaug, með frábærri buslulaug. Mér fannst þetta alveg frábærlega gaman! Ég buslaði og sullaði og frussaði af öllum kröftum. Fannst þetta rosalega gaman - svaka stuð! Svo stoppuðum við í sjoppu til að borða - auðvitað var mamma mín með krukku af epla/bláberjamauki (uppáhaldið mitt) Ég lék á alls oddi í sjoppunni, hló og skríkti af kátínu. Enda slokknaði svo á mér í bílnum á leiðinni heim.
Þetta var svolítið annað en þegar við ætluðum á skógræktarhátíðina í Hallormsstað á laugardaginn sl. Rosalega gott veður, tókum vagninn með, og ætluðum sko að eiga ánægjulegan dag. Sem við jú gerðum, en ekki þarna. Ég tók það ekki í mál að stoppa þarna, á þessum stað, með öllu þessu fólki. Og einhver kona að gaula uppi á sviði, og ég tók bara undir tónana hjá henni og gargaði eins og lungun mín leyfðu. Svo var einhver kall að grilla heilt naut yfir eldi og mér leist heldur ekkert á það og gargaði enn meir. Svo mamma og pabbi sáu þann kostinn vænstan að fara með mig aftur. Við sem sagt stoppuðum kannski í 10 mín. Og pabbi fékk ekki heilgrillað naut..... En þetta var mjög skemmtilegur rúntur :o)
Svo á að skíra mig um næstu helgi. Lítil athöfn með nánustu ættingjum. Verð skírður hér á Kolfreyjustað. Presturinn séra Þórey frænka mín mun framkvæma gjörninginn. Þetta verður svaka fjör.....
Þar til næst hafið það gott.

Engin ummæli: